Síðustu orð Davíðs við Salómon
1 Þegar leið að ævilokum Davíðs brýndi hann Salómon, son sinn, og sagði: 2 „Ég geng nú veg allrar veraldar. Vertu því staðfastur og sýndu karlmennsku. 3 Gættu skyldunnar við Drottin, Guð þinn. Gakktu á hans vegum og varðveittu boð hans, fyrirmæli, skipanir og lög sem skráð eru í lögmáli Móse. Þá mun þér vel farnast og lánast allt sem þú tekur þér fyrir hendur. 4 Þá mun Drottinn efna þetta heit sem hann vann mér: Ef synir þínir gæta lífernis síns og lifa fyrir augliti mínu í trúfesti, heils hugar og af öllum mætti, verður afkomendum þínum ekki hrundið úr hásæti Ísraels. 5 Þú veist sjálfur hvað Jóab Serújuson gerði mér, hvernig hann lék báða hershöfðingja Ísraels, Abner Nersson og Amasa Jetersson. Hann myrti þá og úthellti þannig blóði á friðartímum eins og í hernaði væri. Hann ataði blóði beltið um lendar sér og skóna á fótum sér eins og í hernaði. 6 Vertu skynsamur og láttu hann ekki bera hærur sínar óskertar til heljar.
7 Hins vegar skaltu sýna sonum Barsillaí frá Gíleað vinsemd. Láttu þá vera meðal þeirra sem matast við borð þitt því að þannig tóku þeir á móti mér þegar ég flýði undan Absalon, bróður þínum. 8 Símeí, sonur Benjamínítans Gera frá Bahúrím, er einnig hjá þér. Hann formælti mér svívirðilega þegar ég var á leiðinni til Makanaím. Hann kom að vísu til móts við mig við Jórdan og ég sór honum eið við Drottin: Ég skal ekki drepa þig með sverði. 9 En láttu hann ekki sleppa við refsingu. Þú ert skynsamur maður og veist hvað þú átt að gera við hann. Sendu hærur hans blóðugar til heljar.“
10 Davíð var lagður til hvíldar hjá forfeðrum sínum og var grafinn í borg Davíðs. 11 Hann ríkti yfir Ísrael um fjörutíu ára skeið, sjö ár í Hebron og þrjátíu og þrjú ár í Jerúsalem.
Salómon festir sig í sessi
12 Salómon sat nú í hásæti Davíðs, föður síns, og stóð konungdómur hans mjög traustum fótum.
13 Einhverju sinni kom Adónía, sonur Haggítar, til Batsebu, móður Salómons. Hún spurði: „Kemur þú með friði?“ Hann játaði því 14 og sagði: „Ég á erindi við þig.“ Hún svaraði: „Greindu frá því.“ 15 „Þú veist,“ sagði hann, „að mér bar konungdómurinn og allur Ísrael hafði augastað á mér sem konungi. Eigi að síður gekk konungdómurinn mér úr greipum. Bróðir minn hlaut hann af því að Drottinn hafði ætlað honum hann. 16 Nú vil ég biðja þig einnar bónar og vísaðu mér ekki frá.“ Hún sagði: „Haltu áfram.“ 17 „Bið Salómon konung,“ sagði hann, „að gefa mér Abísag frá Súnem fyrir konu. Þér mun hann ekki vísa frá.“ 18 Batseba svaraði: „Látum svo vera, ég skal tala máli þínu við konung.“ 19 Batseba fór nú til Salómons konungs til þess að flytja honum erindi Adónía. Konungur stóð upp, gekk til móts við hana og laut henni. Síðan settist hann í hásæti sitt og lét færa fram hásæti handa konungsmóðurinni og settist hún honum til hægri handar.
20 „Mig langar að biðja þig um lítilræði,“ sagði hún, „vísaðu mér ekki frá.“ „Bið mig, móðir mín, þér mun ég ekki vísa frá,“ svaraði konungur. 21 Þá sagði hún: „Gefðu Adónía, bróður þínum, Abísag frá Súnem fyrir konu.“ 22 Salómon konungur svaraði og sagði við móður sína: „Hvers vegna biður þú um Abísag frá Súnem handa Adónía? Þú gætir eins beðið um konungdóminn handa honum. Hann er eldri bróðir minn og Abjatar prestur og Jóab Serújuson eru menn hans.“[ 23 Salómon konungur sór við nafn Drottins og sagði: „Þessi ósk skal kosta Adónía lífið, annars geri Guð við mig það sem hann vill, nú og síðar. 24 Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sem hefur tryggt mér völdin og sett mig í hásæti Davíðs, föður míns, og stofnað handa mér konungsætt eins og hann hafði heitið, þá skal Adónía líflátinn í dag.“ 25 Síðan sendi Salómon konungur Benaja Jójadason og hjó hann Adónía banahögg.
26 En konungur sagði við Abjatar prest: „Farðu til bús þíns í Anatót. Að vísu áttu skilið að deyja en ég læt ekki drepa þig nú þegar því að þú hefur borið örk Drottins Guðs fyrir Davíð, föður mínum, og þú þoldir sömu niðurlægingu og hann.“ 27 Þannig rak Salómon Abjatar frá því embætti að vera prestur Drottins og þar með rættist orð Drottins sem hann hafði talað gegn ætt Elí í Síló.
28 Þessi tíðindi bárust Jóab. Hann hafði fylgt Adónía að málum þó að hann væri ekki liðsmaður Absalons. Flýði Jóab í tjaldbúð Drottins og greip um horn altarisins. 29 Salómon konungi var tilkynnt að Jóab væri flúinn í tjald Drottins og stæði við altarið. Þá sendi hann Benaja Jójadason og skipaði honum að fara og höggva hann. 30 Þegar Benaja kom til tjalds Drottins skipaði hann Jóab í nafni konungs að ganga út. Hann svaraði: „Nei, hér vil ég deyja.“ Benaja færði konungi svar hans og sagði: „Þetta sagði Jóab, þannig svaraði hann mér.“ 31 „Gerðu það sem hann sagði,“ skipaði konungur, „höggðu hann og grafðu. Með því hreinsar þú af mér og ætt föður míns blóð saklausra manna sem Jóab hefur úthellt. 32 Drottinn láti blóð hans koma honum í koll. Hann hjó tvo menn til bana án vitundar föður míns. Það voru réttlátari og betri menn en hann, þeir Abner Nersson, hershöfðingi Ísraels, og Amasa Jetersson, hershöfðingi Júda. 33 Komi blóð þeirra Jóab og afkomendum hans ævinlega í koll. En Davíð og ætt hans, afkomendur og hásæti hljóti ævinlega heill frá Drottni.“ 34 Benaja Jójadason fór þá og hjó Jóab. Var hann grafinn í húsi sínu úti í auðninni. 35 Konungur setti Benaja Jójadason yfir herinn í hans stað og Sadók prest setti hann í embætti Abjatars.
36 Konungur sendi eftir Símeí og skipaði honum: „Byggðu þér hús í Jerúsalem og sestu þar að. Þaðan máttu alls ekki fara. 37 Þú skalt vita fyrir víst að þú deyrð um leið og þú ferð yfir Kedronlæk. Þú berð þá sjálfur ábyrgð á dauða þínum.“ 38 Símeí svaraði konungi: „Látum svo vera. Ég, þjónn þinn, mun gera það sem þú, herra minn og konungur, hefur skipað.“ Eftir það bjó Símeí lengi í Jerúsalem. 39 Þremur árum síðar bar svo við að tveir þrælar hans struku til Akíss, sonar Maaka, konungs í Gat. Símeí barst til eyrna að þrælar hans væru í Gat. 40 Hann bjóst þá til ferðar, söðlaði asna sinn og fór til Akíss í Gat til að leita þræla sinna og hafði hann þá heim með sér þaðan. 41 Salómon var skýrt frá því að Símeí hefði farið frá Jerúsalem til Gat og væri kominn aftur. 42 Konungur lét þá kalla Símeí fyrir sig og sagði við hann: „Hef ég ekki látið þig sverja við nafn Drottins? Ég varaði þig við og sagði: Þú skalt vita það fyrir víst að þú deyrð um leið og þú ferð héðan. Þú svaraðir mér: Látum svo vera. Ég hef heyrt boð þitt. 43 Hvers vegna hélstu hvorki eið þinn við nafn Drottins né virtir skipun mína? 44 Þú veist innst inni,“ hélt konungur áfram, „hvaða illvirki þú vannst gegn Davíð, föður mínum. Nú lætur Drottinn þér hefnast fyrir illvirki þín. 45 En Salómon konungur sé blessaður og hásæti Davíðs standi ævinlega stöðugt frammi fyrir Drottni.“ 46 Síðan gaf konungur Benaja Jójadasyni skipun um að fara og höggva Símeí og þannig lét hann lífið. Var nú Salómon konungur fastur í sessi.