Kveðja
1 Páll, postuli Krists Jesú, að boði Guðs frelsara vors og Krists Jesú, vonar vorrar, heilsar 2 Tímóteusi, skilgetnu barni sínu í trúnni.
Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.
Varað við villukennendum
3 Þegar ég var á förum til Makedóníu hvatti ég þig að halda kyrru fyrir í Efesus. Þú áttir að bjóða vissum mönnum að fara ekki með villukenningar 4 og gefa sig ekki að kynjasögum og endalausum ættartölum er fremur efla þrætur en trúarskilning á ráðstöfun Guðs. 5 Markmið fræðslunnar er að vekja kærleika af hreinu hjarta, góðri samvisku og hræsnislausri trú. 6 Sumir hafa villst frá þessu og hafa snúið sér að innantómu orðagjálfri. 7 Þeir vilja útskýra lögmálið þótt þeir hvorki skilji sjálfir hvað þeir segja né það sem þeir telja öðrum trú um.
8 Við vitum að lögmálið er gott sé það rétt notað 9 og þess gætt að það er ekki sett vegna réttlátra heldur fyrir lögleysingja og þverúðuga, óguðlega og syndara, vanheilaga og óhreina, föðurmorðingja og móðurmorðingja, manndrápara, 10 saurlífismenn, karla sem hórast með körlum, þrælasala, lygara, meinsærismenn og hvað sem það er nú annað sem gagnstætt er hinni heilnæmu kenningu. 11 Þetta er samkvæmt fagnaðarerindinu um dýrð hins blessaða Guðs sem mér var trúað fyrir.
Ég þakka Guði
12 Ég þakka honum sem mig styrkan gerði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu, 13 mér sem fyrrum lastmælti honum, ofsótti hann og smánaði. En mér var miskunnað, sökum þess að ég trúði ekki og vissi ekki hvað ég gerði, 14 og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum sem veitist í Kristi Jesú.
15 Það orð er satt, og í alla staði þess vert að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn og er ég þar fremstur í flokki. 16 En Guð miskunnaði mér til þess að ég yrði fyrstur þeirra sem Kristur Jesús sýnir allt sitt mikla langlyndi og þar með yrði ég dæmi handa þeim sem á hann munu trúa til eilífs lífs.
17 Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.
18 Þessi fyrirmæli legg ég fyrir þig, barnið mitt, Tímóteus, og minni á þau spádómsorð sem áður voru töluð yfir þér. Minnugur þeirra skaltu berjast hinni góðu baráttu, 19 í trú og með góða samvisku. Henni hafa sumir hafnað og liðið skipbrot á trú sinni. 20 Í tölu þeirra eru þeir Hýmeneus og Alexander, sem ég hef selt Satan á vald, til þess að hirtingin kenni þeim að hætta að guðlasta.