Fyrirboði og viðvörun
1 Ég vil ekki, systkin,[ að ykkur skuli vera ókunnugt um það að forfeður okkar voru allir undir skýinu og gengu allir yfir hafið. 2 Allir voru þeir skírðir í skýinu og hafinu til fylgdar við Móse. 3 Allir neyttu hinnar sömu andlegu fæðu 4 og drukku hinn sama andlega drykk. Þeir drukku af hinum andlega kletti sem fylgdi þeim. Kletturinn var Kristur. 5 Samt voru fæstir þeirra þóknanlegir Guði enda féllu þeir í eyðimörkinni.
6 Þetta hefur gerst okkur til viðvörunar til þess að við verðum ekki sólgin í það sem illt er eins og þeir. 7 Tilbiðjið ekki skurðgoð eins og nokkrir þeirra. Ritað er: „Lýðurinn settist niður til að eta og drekka og stóð upp til að skemmta sér.“ 8 Drýgjum ekki heldur hór eins og sumir þeirra, og tuttugu og þrjár þúsundir féllu á einum degi. 9 Freistum ekki heldur Drottins eins og sumir þeirra, og biðu bana af höggormum. 10 Möglið ekki heldur eins og nokkrir þeirra. Eyðandinn fyrirfór þeim.
11 Allt þetta kom yfir þá sem fyrirboði og það er ritað til viðvörunar okkur sem endir aldanna er kominn yfir. 12 Sá er hyggst standa gæti því vel að sér að hann falli ekki. 13 Þið hafið ekki reynt nema það sem menn geta þolað. Guð er trúr og lætur ekki reyna ykkur um megn fram heldur mun hann, þegar hann reynir ykkur, einnig sjá um að þið fáið staðist.
14 Forðist þess vegna skurðgoðadýrkun, mín elskuðu. 15 Ég tala til ykkar sem skynsamra manna. Metið sjálf það sem ég segi. 16 Bikar blessunarinnar sem vér blessum, er hann ekki samfélag um blóð Krists? Og brauðið sem vér brjótum, er það ekki samfélag um líkama Krists? 17 Af því að brauðið er eitt, erum vér hin mörgu einn líkami því að vér eigum öll hlutdeild í hinu eina brauði.
18 Lítið á Ísraelsmenn. Taka þeir sem eta fórnarkjötið ekki þátt í altarisþjónustunni? 19 Hvað segi ég þá? Að kjöt fórnað skurðgoðum sé nokkuð? Eða skurðgoð sé nokkuð? 20 Nei, skurðgoðadýrkendur blóta illum öndum, ekki Guði. En ég vil ekki að þið hafið samfélag við illa anda. 21 Ekki getið þið drukkið bikar Drottins og bikar illra anda. Ekki getið þið tekið þátt í borðhaldi Drottins og borðhaldi illra anda. 22 Eða eigum við að reita Drottin til reiði? Munum við vera máttugri en hann?
23 Allt er leyfilegt en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt en ekki byggir allt upp. 24 Enginn hyggi að eigin hag heldur hag annarra.
25 Allt það sem selt er á kjöttorginu getið þið etið án nokkurra eftirgrennslana vegna samviskunnar. 26 Því að jörðin er Drottins og allt sem á henni er.
27 Ef einhver vantrúaður býður ykkur og ef þið viljið fara, þá etið af öllu því sem fyrir ykkur er borið án þess að þið vegna samviskunnar spyrjist fyrir um hvaðan það komi. 28 En ef einhver segir við ykkur: „Þetta er fórnarkjöt!“ þá etið ekki, bæði vegna þess sem varaði ykkur við og vegna samviskunnar. 29 Samviskunnar, segi ég, ekki eigin samvisku heldur samvisku hins. En hvers vegna skyldi samviska annars manns geta heft frelsi mitt? 30 Ef ég neyti fæðunnar með þakklæti, hvers vegna skyldi ég sæta lasti fyrir það sem ég þakka Guði fyrir?
31 Hvort sem þið því etið eða drekkið eða hvað sem þið gerið, þá gerið það allt Guði til dýrðar. 32 Verið hvorki Gyðingum, Grikkjum né kirkju Guðs til ásteytingar. 33 Ég fyrir mitt leyti reyni í öllu að þóknast öllum og hygg ekki að eigin hag heldur hag hinna mörgu, til þess að þeir verði hólpnir.