Blessanir

1 Ef þú hlýðir nákvæmlega boði Drottins, Guðs þíns, heldur það og ferð að öllum fyrirmælum sem ég set þér í dag mun Drottinn, Guð þinn, hefja þig yfir allar þjóðir á jörðinni. 2 Þá munu allar þessar blessanir koma fram við þig og rætast á þér ef þú hlýðir boði Drottins, Guðs þíns:
3 Blessaður ert þú í borginni og blessaður ert þú á akrinum.
4 Blessaður er ávöxtur kviðar þíns og ávöxtur akurlands þíns og ávöxtur búfjár þíns, kálfar nauta þinna og lömb sauðfjár þíns.
5 Blessuð er karfa þín og deigtrog.
6 Blessaður ert þú þegar þú kemur heim og blessaður ert þú þegar þú gengur út.
7 Drottinn sigrar þá fjandmenn þína sem ráðast gegn þér. Um einn veg halda þeir gegn þér en um sjö vegu munu þeir flýja undan þér.
8 Drottinn býður blessuninni að vera með þér í hlöðum þínum og í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur. Hann blessar þig í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. 9 Drottinn mun hefja þig til að gera þig að heilagri þjóð sinni eins og hann hefur heitið þér ef þú heldur boð Drottins, Guðs þíns, og gengur á hans vegum. 10 Þá munu allar þjóðir jarðar skilja að þú ert kennd við nafn Drottins og þær munu óttast þig. 11 Drottinn veitir þér ríkuleg gæði í ávexti kviðar þíns, í ávexti búfjár þíns og í ávexti jarðar þinnar í landinu sem Drottinn hét feðrum þínum að gefa þér. 12 Drottinn mun ljúka upp fyrir þér hinu góða forðabúri sínu, himninum, til að gefa landi þínu regn á réttum tíma. Hann mun blessa hvert það verk sem þú tekur þér fyrir hendur og þú munt lána mörgum þjóðum en sjálfur muntu aldrei þurfa að taka lán. 13 Drottinn gerir þig að höfði en ekki hala. Þú skalt ætíð hafa betur og aldrei verða undir ef þú hlýðir boðum Drottins, Guðs þíns, sem ég legg fyrir þig í dag, og breytir eftir þeim 14 og víkur hvorki til hægri né vinstri frá neinum þeim fyrirmælum, sem ég legg fyrir ykkur í dag, til þess að elta aðra guði og þjóna þeim.

Bölvanir

15 En ef þú hlýðir ekki Drottni, Guði þínum, með því að breyta eftir öllum boðum hans og lögum, sem ég set þér í dag, munu allar þessar bölvanir fram við þig koma og á þér hrína:
16 Bölvaður ert þú í borginni og bölvaður ert þú á akrinum.
17 Bölvuð er karfa þín og deigtrog.
18 Bölvaður er ávöxtur kviðar þíns og ávöxtur akurlands þíns, kálfar nauta þinna og lömb sauðfjár þíns.
19 Bölvaður ert þú þegar þú kemur heim og bölvaður ert þú þegar þú gengur út. 20 Drottinn sendir yfir þig bölvun, upplausn og ógnun og yfir allt sem þú tekur þér fyrir hendur, yfir allt sem þú gerir. Svo verður uns þú hefur verið afmáður og skyndilega að engu gerður vegna illra verka þinna sem þú sveikst mig með. 21 Drottinn lætur drepsótt loða við þig þar til hann hefur eytt þér úr landinu sem þú ert að fara inn í til þess að taka það til eignar. 22 Drottinn slær þig með tæringu, hita, hitasótt og hitabruna, með þurrki, korndrepi og korngulnun. Þetta mun ásækja þig þar til þér hefur verið eytt. 23 Himinninn yfir höfði þér verður að eir og jörðin undir fótum þér að járni. 24 Drottinn breytir regni lands þíns í sand og ösku sem fellur yfir þig þar til þér hefur verið tortímt. 25 Drottinn lætur fjandmenn þína sigra þig. Um einn veg heldur þú gegn þeim en um sjö vegu flýrð þú undan þeim. Þú munt vekja öllum konungsríkjum jarðar hroll. 26 Hræ þín verða æti handa öllum fuglum himins og dýrum jarðar og enginn fælir þau burt. 27 Drottinn slær þig egypskum kaunum, kýlum, kláða og útbrotum og enginn getur læknað þig. 28 Drottinn slær þig vitfirringu, blindu og sturlun 29 svo að þú þarft að þreifa þig áfram um hábjartan dag eins og blindur maður í myrkri og þér mun ekki farnast vel. Án afláts verður þú kúgaður og rændur og enginn hjálpar þér. 30 Þú festir þér konu en annar leggst með henni. Þú reisir þér hús en býrð ekki í því. Þú plantar víngarð en nýtur ekki einu sinni fyrstu uppskerunnar. 31 Nauti þínu verður slátrað fyrir augum þínum en þú færð ekki að neyta neins af því. Asna þínum verður stolið að þér ásjáandi og verður ekki skilað aftur. Sauðfé þitt verður afhent fjandmönnum en enginn hjálpar þér. 32 Synir þínir og dætur verða seld í hendur annarri þjóð. Augu þín munu daprast af að mæna á eftir þeim allan daginn en þú færð ekkert að gert. 33 Ávöxt akurlands þíns og allan afrakstur af striti þínu gleypir þjóð sem þú þekkir ekki. Þú verður einungis kúgaður og píndur ævinlega 34 og þú munt ganga af vitinu sakir þess sem þú verður að horfa á með eigin augum.
35 Drottinn slær þig illkynjuðum kaunum á hnjám og lærum, ólæknandi sárum frá hvirfli til ilja. 36 Drottinn leiðir þig og konunginn, sem þú tekur þér, til þjóðar sem hvorki þú né forfeður þínir hafa þekkt. Þar muntu þjóna öðrum guðum, stokkum og steinum. 37 Þú munt vekja hroll og þú munt hafður að háði og spotti á meðal allra þeirra þjóða sem Drottinn leiðir þig til. 38 Þú flytur mikið sáðkorn út á akurinn en uppskerð lítið eitt því að engisprettur éta það upp. 39 Þú plantar víngarða og yrkir þá en færð hvorki vín til að drekka né til að geyma því að ormar átu þrúgurnar. 40 Ólífutré vaxa um land þitt allt en þú smyrð þig ekki með olíu því að ólífur þínar detta af trjánum. 41 Þú eignast syni og dætur en færð ekki að hafa þau hjá þér því að þau fara í útlegð. 42 Skordýr leggja undir sig öll þín tré og ávöxt lands þíns. 43 Aðkomumaðurinn, sem býr hjá þér, stígur hærra og hærra yfir þig en þú sjálfur niðurlægist meira og meira. 44 Hann lánar þér en þú getur ekki lánað honum neitt. Hann verður höfuðið, þú halinn.
45 Allar þessar bölvanir munu fram við þig koma. Þær munu elta þig og hrína á þér þar til þér hefur verið tortímt af því að þú hlýddir ekki boði Drottins, Guðs þíns, og hélst ekki fyrirmæli hans og lög sem hann hefur sett þér. 46 Þær skulu ævinlega fylgja þér og niðjum þínum sem tákn og stórmerki.
47 Af því að þú hefur ekki þjónað Drottni, Guði þínum, með gleði og með fögnuð í hjarta af því að þú hafðir allsnægtir 48 verður þú að þjóna fjandmönnum þínum sem Drottinn sendir gegn þér. Þú mátt þola hungur, þorsta og klæðleysi og fara alls á mis. Drottinn leggur járnok á háls þér uns hann hefur gereytt þér. 49 Drottinn mun stefna gegn þér þjóð frá fjarlægu landi, frá endimörkum jarðar, sem steypir sér yfir þig eins og örn, þjóð sem talar mál sem þú skilur ekki, 50 hörkulega þjóð ásýndum sem hvorki skeytir um öldunginn né vægir unglingnum. 51 Þessi þjóð etur upp ávöxt búfjár þíns og ávöxt akurs þíns þar til þér hefur verið gereytt. Hún skilur hvorki eftir handa þér korn, vín, olíu né kálfa nauta þinna né lömb sauðfjár þíns fyrr en hún hefur afmáð þig. 52 Hún sest um þig í öllum borgum þínum uns hinir háu og rammgerðu múrar þínir, sem þú treystir á, eru fallnir alls staðar í landi þínu. Hún sest um þig í öllum borgum landsins sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. 53 Svo nærri þér mun umsátrið ganga og hörmungarnar, sem fjandmaður þinn leiðir yfir þig, að þú munt leggja þér til munns ávöxt kviðar þíns, hold sona þinna og dætra sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. 54 Jafnvel sá blíðlyndasti og sællífasti meðal þín mun sjá eftir fæðu handa bróður sínum, konunni í faðmi sínum og börnunum sem hann enn á eftir. 55 Hann tímir ekki að gefa neinu þeirra neitt af holdi barna sinna, sem hann leggur sér til munns, af því að það er það eina sem hann á í umsátrinu og neyðinni sem fjandmaður þinn veldur þér í öllum borgum þínum. 56 Hin blíðlyndasta og sællífasta kona meðal þín, sem er svo tepruleg að hún reynir ekki að tylla tá á jörðina, lítur illu auga til mannsins í faðmi sínum, sonar síns og dóttur 57 og sér eftir fylgjunni, sem út gengur af skauti hennar, og börnunum, sem hún elur, því að hún etur þau sjálf á laun enda allar bjargir bannaðar. Slík verður neyðin í umsátrinu þegar fjandmaður þinn þrengir að þér í öllum borgum þínum.
58 Ef þú heldur ekki öll ákvæði þessa lögmáls sem skráð eru á þessa bók og breytir eftir þeim, og berð lotningu fyrir hinu dýrlega og ógnvekjandi nafni, nafninu Drottinn, Guð þinn, 59 mun Drottinn slá þig og niðja þína óvenjulegum plágum, þungum og þrálátum plágum og illkynja og þrálátum sjúkdómum. 60 Hann mun senda aftur yfir þig allar sóttir Egyptalands sem þú hræddist og þær munu loða við þig. 61 Enn fremur mun Drottinn senda yfir þig allar þær sóttir og plágur, sem ekki eru skráðar á þessa lögmálsbók, þar til þér hefur verið eytt. 62 Þótt þið væruð áður jafnmörg og stjörnur himins verða einungis fá ykkar eftir af því að þið hlýdduð ekki boði Drottins, Guðs þíns. 63 Á sama hátt og Drottinn hafði áður yndi af að gera vel við ykkur og fjölga ykkur, eins mun Drottinn hafa yndi af því að tortíma ykkur og eyða. Þið verðið rekin út úr landinu sem þú ert að halda inn í til að taka það til eignar. 64 Drottinn mun dreifa þér meðal þjóðanna til ystu endimarka jarðar og þar muntu þjóna öðrum guðum, stokkum og steinum, sem hvorki þú né feður þínir vissu deili á. 65 Meðal þessara þjóða færðu ekki að búa í næði og þar finnurðu fæti þínum engan hvíldarstað heldur mun Drottinn gefa þér órótt hjarta, döpur augu og bölsýni. 66 Líf þitt mun hanga á bláþræði og þú verður hræddur dag og nótt, aldrei óhultur um líf þitt. 67 Að morgni munt þú segja: „Ég vildi að komið væri kvöld,“ og að kvöldi: „Ég vildi að kominn væri morgunn,“ sakir óttans sem hefur gagntekið hjarta þitt og sakir þess sem þú mátt horfa á með eigin augum. 68 Drottinn mun flytja þig á skipum aftur til Egyptalands, leiðina sem ég sagði við þig um: „Þú skalt aldrei sjá hana framar.“ Þar munuð þið bjóða sjálf ykkur fjandmönnum til kaups sem þræla og ambáttir en enginn vilja kaupa.
69 Þetta eru orð sáttmálans sem Drottinn fól Móse að gera við Ísraelsmenn í Móabslandi auk sáttmálans sem hann gerði við þá hjá Hóreb.