Griðaborgir

1 Þegar Drottinn, Guð þinn, upprætir þjóðirnar sem búa í landinu sem Drottinn, Guð þinn, mun fá þér og þú hefur tekið eignir þeirra og ert sestur að í borgum þeirra og húsum, 2 þá skaltu veita þremur borgum sérstöðu í landinu sem Drottinn, Guð þinn, fær þér svo að þú sláir eign þinni á það. 3 Þú skalt stika út veginn að þeim og skipta landinu, sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér að erfðahlut, í þrennt til þess að hver sá sem orðið hefur öðrum að bana geti flúið til þessara borga.
4 Þetta skal gilda um þann sem hefur orðið manni að bana og flýr þangað til að bjarga lífi sínu. Hafi hann óviljandi orðið öðrum að bana og án þess að hafa áður verið óvinur hans, 5 svo sem þegar maður fer við annan mann út í skóg til að fella tré, reiðir upp öxina til að höggva tréð en hún gengur af skaftinu og lendir á náunga hans svo að hann fær bana af, getur sá maður flúið til einhverrar þessara borga til að bjarga lífi sínu.
6 Leiðin til griðaborgarinnar má ekki vera of löng svo að hefnandi, sem eltir veganda, geti náð honum og drepið hann, knúinn hefndarþorsta, þótt banamaðurinn sé ekki dauðasekur enda ekki óvinur hans áður.
7 Af þessum sökum býð ég þér og segi: Þú skalt veita þremur borgum sérstöðu. 8 Ef Drottinn, Guð þinn, eykur land þitt, eins og hann hét forfeðrum þínum, og gefur þér allt landið sem hann hafði heitið þeim, 9 þar sem þú heldur öll boðorðin sem ég set þér í dag, framfylgir þeim með því að elska Drottin, Guð þinn, og ganga á hans vegum alla ævi, þá skaltu enn bæta þremur borgum við þessar þrjár. 10 Með því skal komið í veg fyrir að saklausu blóði verði úthellt og blóðsekt komi yfir þig í landi þínu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér að erfðahlut.
11 En hatist maður við náunga sinn, sitji um hann, ráðist á hann og ljósti hann til bana og flýi síðan í einhverja af griðaborgunum, 12 skulu öldungar heimaborgar hans senda menn og sækja hann þangað. Þeir skulu framselja hann til lífláts í hendur þess sem á blóðsektar að hefna. 13 Þú skalt ekki sýna honum neina samúð heldur hreinsa Ísrael af sök vegna saklauss blóðs svo að þér farnist vel.

Um landamerki og vitnisburð

14 Þú skalt ekki færa úr stað landamerki nágranna þíns sem forfeðurnir hafa sett í erfðalandi þínu sem kemur í hlut þinn í landinu sem Drottinn, Guð þinn, fær þér til eignar.
15 Ekki nægir eitt vitni á móti neinum þeim sem sakaður er um afbrot eða glæp, hvert svo sem brotið er. Því aðeins skal framburður gilda að tvö eða þrjú vitni beri.
16 En komi fram ljúgvitni gegn einhverjum og beri að hann hyggi á lögbrot 17 skulu báðir sem hlut eiga að deilunni koma fram fyrir Drottin, prestana og dómarana sem þá gegna embætti. 18 Dómararnir skulu rannsaka málsatvik rækilega. Komi þá í ljós að þetta er ljúgvitni, sem borið hefur bróður sinn lognum sökum, 19 skuluð þið fara með hann eins og hann ætlaði að fara með bróður sinn og þannig skaltu eyða hinu illa þín á meðal. 20 Hinir skulu frétta þetta svo að þeir skelfist og drýgi ekki framar þvílíkt ódæði þín á meðal. 21 Þú skalt enga vægð sýna honum: Líf fyrir líf, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd, fót fyrir fót.