1Þegar Drottinn Guð þinn upprætir þær þjóðir, hverra land Drottinn Guð þinn gefur þér, og er þú hefir lagt þær undir þig og ert setstur að í borgum þeirra og húsum,2þá skalt þú skilja frá þrjár borgir í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar.3Þú skalt leggja veg að þeim og skipta gjörvöllu landi þínu, því er Drottinn Guð þinn lætur þig eignast, í þrjá hluti, og skal það vera til þess að þangað megi flýja hver sá, er mann vegur.4Svo skal vera um veganda þann, er þangað flýr til þess að forða lífi sínu: Ef maður drepur náunga sinn óviljandi og hefir eigi verið óvinur hans áður,5svo sem þegar maður fer með náunga sínum í skóg að fella tré og hann reiðir upp öxina til að höggva tréð, en öxin hrýtur af skaftinu og lendir á náunga hans, svo að hann fær bana af sá maður má flýja í einhverja af borgum þessum og forða svo lífi sínu,6til þess að hefndarmaðurinn elti ekki vegandann meðan móðurinn er á honum og nái honum, af því að vegurinn er langur, og drepi hann, þótt hann sé ekki dauðasekur, með því að hann var ekki óvinur hans áður.7Fyrir því býð ég þér og segi: Þú skalt skilja þrjár borgir frá.8Og ef Drottinn Guð þinn færir út landamerki þín, eins og hann hefir svarið feðrum þínum, og hann gefur þér gjörvallt landið, sem hann hét að gefa feðrum þínum,9svo framarlega sem þú gætir þess að halda allar þessar skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag, með því að elska Drottin Guð þinn og ganga á hans vegum alla daga, þá skalt þú enn bæta þrem borgum við þessar þrjár,10til þess að saklausu blóði verði eigi úthellt í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar, og blóðsök falli eigi á þig.11En ef maður hatast við náunga sinn og situr um hann, ræðst á hann og lýstur hann til bana og flýr síðan í einhverja af borgum þessum,12þá skulu öldungar þeirrar borgar, er hann á heima í, senda þangað og sækja hann og selja í hendur hefndarmanni til lífláts.13Þú skalt ekki líta hann vægðarauga, heldur hreinsa Ísrael af saklausra manna blóði, svo að þér vegni vel.14Þú skalt eigi færa úr stað landamerki náunga þíns, þau er forfeðurnir hafa sett, á arfleifð þinni, er þú munt eignast í landinu, sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar.15Eigi skal eitt vitni koma fram gegn manni, þá er um einhvern glæp eða einhverja synd er að ræða hvaða synd sem það nú er, sem hann hefir drýgt. Því aðeins skal framburður gildur vera, að tveir eða þrír vottar beri.16Nú rís falsvottur gegn einhverjum og ber á hann lagabrot,17og skulu þá báðir þeir, er kærumálið eiga saman, ganga fram fyrir Drottin, fyrir prestana og dómarana, sem þá eru í þann tíma,18og dómararnir skulu rannsaka það rækilega, og ef þá reynist svo, að votturinn er ljúgvottur, að hann hefir borið lygar á bróður sinn,19þá skuluð þér gjöra svo við hann sem hann hafði hugsað að gjöra við bróður sinn, og þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér.20Og hinir munu heyra það og skelfast og eigi framar hafast að slíkt ódæði þín á meðal.21Eigi skalt þú líta slíkt vægðarauga: Líf fyrir líf, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd, fót fyrir fót.

19.1 Drottinn upprætir þjóðirnar 5Mós 4.38+ ; 12.29
19.3 Griðastaður 5Mós 4.42+
19.4 Drepa, óviljandi 4Mós 35.15+
19.8 Fyrirheitna landið 5Mós 1.8+ -elska Guð 5Mós 5.10+
19.9 Halda 5Mós 5.1+ – boðorðin 5Mós 4.2+ ; 5.31+
19.10 Land til eignar 5Mós 3.20+
19.13 Hreinsa Ísrael 5Mós 13.6+ – ekki neina samúð 5Mós 13.9+ – að þér farnist vel 5Mós 4.40+
19.14 Landamerki 5Mós 27.17
19.15 Vitni 5Mós 17.6; Matt 18.16+ ; Heb 10.28
19.16 Ljúgvitni 2Mós 20.16; 3Mós 19.12+
19.19 Útrýma hinu illa 5Mós 13.6+
19.20 Skulu frétta 5Mós 13.12+
19.21 Líf fyrir líf 3Mós 24.18,19+