Förin frá Egyptalandi
Lagt upp frá Hóreb
1 Hér á eftir fer ræðan sem Móse flutti öllum Ísraelsmönnum í eyðimörkinni austan við Jórdan. Hann flutti hana í Araba, [ austan við Súf, milli Paran og Tófel, Laban, Hatserót og Dí Sabab.
2 Frá Hóreb til Kades Barnea eru ellefu dagleiðir ef farin er leiðin í átt til Seírfjalla. 3 Móse ávarpaði Ísraelsmenn á fertugasta árinu, á fyrsta degi ellefta mánaðarins. Hann flutti Ísraelsmönnum allt sem Drottinn hafði falið honum. 4 Við Edrei hafði hann sigrað Síhon, konung Amoríta, sem ríkti í Hesbon og Óg, konung í Basan, sem ríkti í Astarót. 5 Eftir það hóf Móse að brýna þennan boðskap fyrir fólkinu austan við Jórdan, í Móabslandi: 6 Drottinn, Guð okkar, sagði við okkur við Hóreb: „Þið hafið dvalist nógu lengi við þetta fjall. 7 Snúið ykkur nú í átt að fjalllendi Amoríta, leggið af stað og farið þangað. Haldið gegn öllum íbúum þess í Araba, á fjalllendinu og á láglendinu, í Suðurlandinu [ og á strönd hafsins. Haldið inn í land Kanverja og landsvæðið við Líbanon, alveg að hinu mikla fljóti Efrat. 8 Hér með fæ ég ykkur landið. Farið og sláið eign ykkar á landið sem Drottinn sór að gefa feðrum ykkar, Abraham, Ísak og Jakobi, og niðjum þeirra.“
Embættismenn skipaðir
9 Þá sagði ég við ykkur: „Einn get ég ekki borið ykkur. 10 Drottinn, Guð ykkar, hefur fjölgað ykkur svo mjög að þið eruð nú jafnmörg stjörnum himinsins. 11 Megi Drottinn, Guð feðra ykkar, enn fjölga ykkur þúsundfalt og blessa ykkur eins og hann hefur heitið ykkur.
12 En hvernig á ég einn að geta borið þyngslin af ykkur, vandamál ykkar og deilur? 13 Veljið þið nú vitra, skilningsríka og valinkunna menn úr hverjum ættbálki og mun ég skipa þá höfðingja ykkar.“ 14 Þið svöruðuð mér og sögðuð: „Gott er það sem þú ræður okkur að gera.“ 15 Þá sótti ég leiðtoga ættbálka ykkar, vitra menn og valinkunna, og setti þá höfðingja yfir ykkur, yfir þúsund manna flokka, hundrað manna, fimmtíu manna og tíu manna flokka. Ég setti þá einnig ritara fyrir hvern ættbálk ykkar.
16 Síðan gaf ég dómurum ykkar þessi fyrirmæli: „Hlýðið á mál bræðra ykkar. Kveðið upp réttláta dóma, hvort heldur málaferlin eru milli bræðra eða við aðkomumann sem nýtur verndar. 17 Verið ekki hlutdrægir í dómum, hlýðið jafnt á háan sem lágan. Óttist engan mann því að dómurinn er Guðs. Reynist eitthvert mál ykkur um megn, þá skjótið því til mín og ég mun hlýða á það.“
18 Þá gaf ég ykkur fyrirmæli um allt sem ykkur ber að gera.
Njósnarar sendir
19 Því næst héldum við af stað frá Hóreb og fórum gegnum alla þessa miklu og skelfilegu eyðimörk sem þið hafið sjálf séð. Við fórum áleiðis til fjalllendis Amoríta eins og Drottinn, Guð okkar, hafði boðið. Þegar við komum til Kades Barnea 20 sagði ég við ykkur: „Nú eruð þið komin að fjalllendi Amoríta sem Drottinn, Guð okkar, gefur okkur. 21 Sjá! Drottinn, Guð þinn, hefur fengið þér landið í hendur. Farðu þangað og taktu það til eignar eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefur boðið þér. Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast!“
22 Þá komuð þið öll til mín og sögðuð: „Við skulum senda nokkra menn á undan okkur til þess að kanna landið fyrir okkur. Þeir geta síðan lýst leiðinni, sem við eigum að fara, og borgunum sem við eigum að fara inn í.“ 23 Mér féll þetta vel í geð og valdi úr hópi ykkar tólf menn, einn úr hverjum ættbálki. 24 Þeir héldu á leið til fjalllendisins og fóru upp í Eskóldal og könnuðu hann. 25 Þeir tóku með sér nokkuð af ávöxtum landsins og færðu okkur og sögðu: „Það er gott land sem Drottinn, Guð okkar, gefur okkur.“
Möglað gegn Drottni
26 En þið neituðuð að fara þangað upp eftir og risuð gegn boðum Drottins, Guðs ykkar. 27 Þið mögluðuð í tjöldum ykkar og sögðuð: „Drottinn leiddi okkur út úr Egyptalandi af því að hann hatar okkur. Hann ætlar að selja okkur Amorítum í hendur svo að þeir tortími okkur. 28 Hvert erum við að fara? Bræður okkar gerðu okkur skelfingu lostin. Þeir segja þjóðina hærri vexti og fjölmennari en okkur, borgirnar miklar og girtar múrum sem gnæfa við himin, og segjast auk þess hafa séð Anakíta þar.“
29 Þá sagði ég við ykkur: „Óttist þá ekki og verið ekki hrædd. 30 Drottinn, Guð ykkar, sem fer fyrir ykkur, mun berjast fyrir ykkur eins og hann gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi. 31 Í eyðimörkinni sást þú hvernig Drottinn, Guð þinn, bar þig eins og maður ber son sinn hvert sem þið fóruð uns þið komuð á þennan stað.“ 32 En þrátt fyrir þetta trúðuð þið ekki á Drottin, Guð ykkar, 33 sem gekk á undan ykkur á leiðinni til að finna tjaldstað handa ykkur. Hann fór fyrir ykkur um nætur í eldi en um daga í skýi til að vísa ykkur veginn sem þið áttuð að halda.
34 Þegar Drottinn heyrði það sem þið sögðuð reiddist hann og sór: 35 „Enginn af þessari illu kynslóð skal fá að sjá landið góða, sem ég sór að gefa forfeðrum ykkar, 36 nema Kaleb Jefúnneson, hann skal sjá það. Ég mun gefa honum og sonum hans landið sem hann hefur stigið á því að hann hefur fylgt Drottni heils hugar.“ 37 Drottinn reiddist mér einnig vegna ykkar og sagði: „Þú skalt ekki heldur komast þangað. 38 En Jósúa Núnsson, sem þjónar þér, skal komast þangað. Stappaðu í hann stálinu því að hann á að skipta landinu í erfðalönd handa Ísrael. 39 En börn ykkar, sem þið sögðuð að yrðu tekin herfangi, og synir ykkar, sem enn kunna ekki skil góðs og ills, munu komast þangað og þeim mun ég fá landið og þeir munu taka það til eignar. 40 En þið skuluð snúa aftur í átt til eyðimerkurinnar og halda áleiðis til Sefhafsins.“
41 Þið svöruðuð og sögðuð við mig: „Við höfum syndgað gegn Drottni. En nú skulum við fara og berjast eins og Drottinn, Guð okkar, bauð.“ Því næst bjóst hver og einn ykkar herklæðum, tók vopn sín og taldi það hægðarleik að halda upp í fjalllendið.
42 En Drottinn sagði við mig: „Segðu við þá: Þið skuluð ekki fara og berjast því að ég verð ekki með ykkur. Ella bíðið þið ósigur fyrir fjandmönnum ykkar.“ 43 Ég sagði ykkur þetta en þið hlustuðuð ekki og risuð gegn boði Drottins. Í ofdirfsku ykkar fóruð þið upp í fjalllendið 44 og Amorítarnir, sem búa í þessu fjalllendi, réðust gegn ykkur, ráku ykkur á flótta og eltu ykkur eins og býflugnager og tvístruðu ykkur frá Seír allt til Horma. 45 Þegar þið komuð aftur grétuð þið frammi fyrir Drottni. En hann heyrði ekki kveinstafi ykkar og hlustaði ekki á ykkur. 46 Síðan voruð þið langa hríð um kyrrt í Kades, allan þann tíma sem þið dvöldust þar.