Systurnar Samaría og Jerúsalem
1 Orð Drottins kom til mín: 2 Mannssonur, einu sinni voru tvær konur, dætur sömu móður. 3 Þær stunduðu ólifnað í Egyptalandi, þær hóruðust þar á æskuárum. Þar þukluðu menn brjóst þeirra og gældu við meyjarbarm þeirra. 4 Sú eldri hét Ohola og systir hennar Oholíba. Þær urðu eiginkonur mínar og ólu bæði syni og dætur. Nafnið Ohola táknar Samaríu en Oholíba Jerúsalem.
5 En Ohola tók fram hjá mér. Hún girntist ástmenn sína, Assýringa, 6 hermenn klædda bláum purpura, landstjóra og fyrirmenn. Allt voru þetta glæsileg ungmenni, riddarar ríðandi á hestum. 7 Hún leitaði lags við alla fremstu Assýringa í ólifnaði sínum og saurgaði sig á skurðgoðum allra þeirra sem hún girntist. 8 Hún lét ekki af ólifnaðinum, sem hún hóf í Egyptalandi, þar sem Egyptar höfðu lagst með henni í æsku hennar, gælt við meyjarbarm hennar og ausið yfir hana ólifnaði sínum. 9 Því seldi ég hana í hendur ástmanna sinna, Assýringanna sem hún girntist. 10 Þeir beruðu blygðun hennar, tóku syni hennar og dætur frá henni og réðu henni bana með sverði. Hún varð því öðrum konum víti til varnaðar. Þannig var refsidóminum yfir henni fullnægt.
11 Systir hennar, Oholíba, varð vitni að þessu. Samt var hún enn spilltari í girnd sinni en systir hennar og gekk enn lengra í ólifnaði sínum en hún. 12 Hún girntist einnig Assýringa, landstjóra og fyrirmenn, fagurbrynjaða riddara á hestum, allt voru það glæsileg ungmenni. 13 Ég sá að hún saurgaði sig. Báðar systurnar héldu sömu leið 14 en hún gekk lengra í ólifnaði sínum. Hún sá myndir af karlmönnum meitlaðar í vegg. Þetta voru rauðmálaðar lágmyndir af Kaldeum 15 sem höfðu klæði um lendar sér og flaksandi höfuðdúk. Myndirnar sýndu foringja á stríðsvögnum, Babýloníumenn upprunna í Kaldeu. 16 Um leið og hún sá þá tók hún að girnast þá og sendi boðbera til þeirra í Kaldeu. 17 Þá komu Babýloníumenn til hennar, til ástarhvílu hennar og saurguðu hana með ólifnaði sínum. Þegar hún hafði saurgast af þeim gerðist hún þeim fráhverf.
18 Þar sem hún hafði opinberað ólifnað sinn og berað blygðun sína gerðist ég henni fráhverfur alveg eins og ég varð systur hennar fráhverfur. 19 En hún jók ólifnað sinn og minntist æskuára sinna þegar hún stundaði ólifnað í Egyptalandi 20 og hún tók að girnast ástmenn sína sem voru jafn hreðjamiklir og asnar og stóð sæðisgusan úr þeim sem úr stóðhestum. 21 Þú saknaðir ólifnaðar æsku þinnar þegar menn þukluðu brjóst þín í Egyptalandi og gældu við meyjarbarm þinn.
22 Þess vegna, Oholíba, segir Drottinn Guð: Nú egni ég ástmenn þína, sem þú ert orðin fráhverf, gegn þér. Ég stefni þeim gegn þér úr öllum áttum, 23 Babýloníumönnum, öllum Kaldeum, mönnum frá Pekód, Sjóa og Kóa, að auki öllum Assýringum, hinum glæsilegu ungmennum sem allir eru landstjórar og fyrirmenn, stríðsvagnaforingjar og háttsettir menn, allir ríðandi hestum. 24 Þeir munu halda gegn þér hópum saman í vögnum með hvínandi hjólum ásamt liðsafnaði framandi þjóða. Þeir munu umkringja þig, búnir stórum og smáum skjöldum og hjálmum. Ég mun leggja málið fyrir þá og þeir munu dæma þig eftir lögum sínum. 25 Ég mun beina afbrýði minni gegn þér svo að þeir fari grimmdarlega með þig. Þeir munu skera af þér nef og eyru og það sem eftir verður af þér skal falla fyrir sverði. Þeir munu taka frá þér syni þína og dætur og það sem þá verður eftir af þér gleypir eldur. 26 Þeir munu svipta þig klæðum og taka af þér skartgripi þína. 27 Með þessu bind ég enda á ólifnað þinn og hórdóm sem þú hófst í Egyptalandi. Þú munt ekki lengur horfa löngunaraugum til friðla þinna og ekki hugsa framar til Egyptalands.
28 Því að svo segir Drottinn Guð: Ég sel þig í hendur þeim sem þú hatar, í hendur þeirra sem girnd þín hefur orðið fráhverf. 29 Þeir munu sýna þér hatur og svipta þig öllum eigum þínum og skilja þig eftir nakta og klæðlausa. Þú verður hórsek, blygðun þín beruð. Ólifnaður þinn og hórdómur 30 hafa leitt þetta yfir þig af því að þú stundaðir ólifnað með framandi þjóðum og saurgaðir þig á skurðgoðum þeirra. 31 Þú hefur gengið sömu leið og systir þín, þess vegna rétti ég þér bikar hennar. 32 Svo segir Drottinn Guð:
Þú skalt drekka bikar systur þinnar,
hinn djúpa og víða, sem tekur svo mikið.
Þú skalt höfð að athlægi og spotti,
33 komast í vímu og fyllast kvöl.
Bikar skelfingar og eyðingar
er bikar systur þinnar, Samaríu.
34 Þú skalt drekka hann í botn
og bryðja úr honum brotin
og rífa brjóst þín.
Því að ég hef talað, segir Drottinn Guð.
35 Því segir Drottinn Guð: Þar sem þú hefur gleymt mér og snúið við mér baki verður þú að bera afleiðingar hórdóms þíns og ólifnaðar.
36 Drottinn sagði enn fremur við mig: Þú, mannssonur, viltu ekki dæma Oholu og Oholíbu? Leiddu þeim svívirðu þeirra fyrir sjónir. 37 Þær hafa drýgt hór og hendur þeirra eru flekkaðar blóði. Þær hafa tekið fram hjá með skurðgoðum sínum og þar á ofan látið synina, sem þær ólu mér, ganga gegnum eld, skurðgoðunum til matar. 38 Jafnframt þessu saurguðu þær helgidóm minn og vanhelguðu hvíldardaga mína. 39 Þegar þær höfðu slátrað sonum mínum handa skurðgoðunum komu þær í helgidóm minn til að vanhelga hann. Þetta gerðu þær í húsi mínu. 40 Þær sendu jafnvel eftir mönnum sem komu frá fjarlægum löndum. Þegar boðberi hafði sótt þá komu þeir. Þeirra vegna fórstu í bað, málaðir þig um augun og skreyttir þig skartgripum. 41 Þú settist á uppbúið rúm með dúkað borð fyrir framan þig sem þú settir á reykelsi mitt og olíu. 42 Áhyggjulaus og hávaðasamur hópur manna var umhverfis og þeirra á meðal svölluðu menn sem sóttir höfðu verið út í eyðimörkina. Þeir drógu armbönd á handleggi þeirra systra og settu dýrlegt djásn á höfuð þeirra.
43 Þá sagði ég: Þessi skækja er illa farin af hórdómi, þó hórast þeir enn með henni. 44 Menn komu til hennar. Þeir komu til Oholu og Oholíbu eins og menn koma til skækju. 45 En réttlátir menn munu dæma þær eftir lagaákvæðum um hjúskaparbrot og morð því að þær eru hórsekar og hendur þeirra eru flekkaðar blóði.
46 Því að svo segir Drottinn Guð: Múg manns skal stefnt gegn þeim og þær skulu framseldar til misþyrminga og ráns. 47 Þær skulu grýttar og höggnar með sverðum. Synir þeirra og dætur skulu tekin af lífi og hús þeirra brennd. 48 Þannig bind ég enda á ólifnaðinn í landinu svo að allar konur láti sér að kenningu verða og stundi ekki sama ólifnað og þið. 49 Afleiðingar ólifnaðar ykkar verða lagðar á ykkur og þið verðið að bera afleiðingar synda ykkar með skurðgoðum ykkar. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn Guð.