Daníel og vinir hans
1 Á þriðja stjórnarári Jójakíms konungs í Júda kom Nebúkadnesar Babýloníukonungur og settist um Jerúsalem. 2 Drottinn gaf honum á vald Jójakím Júdakonung og jafnframt ýmis áhöld úr húsi Guðs. Þau flutti hann til Sínearlands[ í musterissjóði guðs síns.
3 Konungur bauð Aspenasi, æðsta geldingi sínum, að flytja til sín nokkra Ísraelsmenn af konungs- og aðalsættum, 4 unga menn, lýtalausa og fríða sýnum, vel menntaða á öllum sviðum, fróða og hæfa til þjónustu í konungshöllinni. Skyldi þeim kennt að rita og tala mál Kaldea.[
5 Konungur lét skammta þeim mat og vín daglega af konungsborði. Skyldi mennta þá í þrjú ár en að þeim loknum skyldu þeir þjóna við hirðina. 6 Meðal þessara manna voru þeir Daníel, Hananja, Mísael og Asarja, allir frá Júda. 7 Æðsti geldingur konungs gaf þeim nöfn og kallaði Daníel Beltsasar, Hananja Sadrak, Mísael Mesak og Asarja Abed-Negó.
8 En Daníel einsetti sér að saurga sig hvorki á krásum af konungsborði né víni konungs. Hann bað því æðsta gelding konungs að hlífa sér við slíkri saurgun. 9 Guð vakti velvilja og samúð með Daníel hjá æðsta geldingi konungs 10 og Aspenas sagði við Daníel: „Nú hefur herra minn, konungurinn, ákveðið hvað þið skuluð eta og drekka. En smeykur er ég um að konungur kunni að gera mig höfðinu styttri ef þið lítið verr út en félagar ykkar.“
11 Daníel sagði þá við manninn sem æðsti geldingur konungs hafði sett til eftirlits þeim Daníel, Hananja, Mísael og Asarja: 12 „Reyndu okkur nú, þjóna þína, í tíu daga. Gefðu okkur grænmeti til matar og vatn að drekka. 13 Virtu svo fyrir þér útlit okkar og útlit þeirra sem snæða krásir konungs og farðu síðan með okkur, þjóna þína, eins og þér líst.“ 14 Hann fór að þessum orðum þeirra og reyndi þá þannig í tíu daga. 15 Og að tíu dögum liðnum voru þeir hraustlegri ásýndum og í betri holdum en öll hin ungmennin sem snæddu krásir konungs. 16 Eftirlitsmaðurinn fór þá burt með krásirnar og vínið sem þeim var ætlað og færði þeim grænmeti.
17 Þessum fjórum piltum veitti Guð lærdóm og leikni í hvers kyns ritmennt og speki. Og Daníel gat ráðið hverja sýn og hvern draum.
18 Svo leið að þeim tíma þegar konungur hafði ákveðið að þeir skyldu leiddir fyrir hann. Þá leiddi æðsti geldingurinn þá fram fyrir Nebúkadnesar. 19 Konungur ræddi við þá og meðal þeirra allra reyndist enginn jafnoki þeirra Daníels, Hananja, Mísaels og Asarja. Þeir hlutu því sess við hirð konungs. 20 Í öllum visku- og skilningsatriðum, sem konungur leitaði ráða um hjá þeim, fann hann að þeir voru tífalt fremri öllum spásagnamönnum og særingamönnum í ríki hans.
21 Þarna dvaldist Daníel allt til fyrsta stjórnarárs Kýrusar konungs.