Fyrri draumur Nebúkadnesars
1 Á öðru stjórnarári Nebúkadnesars dreymdi hann draum. Olli draumurinn honum slíkum áhyggjum að hann festi ekki svefn. 2 Konungur lét þá boða til sín spásagnamenn, særingamenn, galdramenn og Kaldea[ svo að þeir gætu ráðið draum hans. Þeir komu og tóku sér stöðu frammi fyrir konungi. 3 Konungur mælti: „Draum hefur mig dreymt sem veldur mér hugarangri og ekki linnir fyrr en ég skil merkingu hans.“ 4 Kaldear svöruðu konungi á arameísku og sögðu: „Megir þú lifa að eilífu, konungur. Segðu þjónum þínum drauminn og við munum ráða hann.“ 5 Konungur svaraði Kaldeum: „Þetta er ákvörðun mín og verður ekki þokað: Ef þið segið mér ekki hver draumurinn er og hvað hann merkir verðið þið limaðir sundur og hús ykkar lögð í rúst. 6 En ef þið segið mér drauminn og merkingu hans munuð þið hljóta hjá mér umbun, ríkulegar gjafir og vegsemd. Segið mér því hver draumurinn er og hvað hann merkir.“ 7 Þeir svöruðu þá enn á ný: „Segðu þjónum þínum drauminn, konungur, og þá skulum við segja hver ráðning hans er.“
8 En konungur svaraði: „Mér er fullljóst að nú hyggist þið skjóta málinu á frest því að þið vitið þá ákvörðun mína 9 að ykkar bíður aðeins einn dómur ef þið segið mér ekki draum minn og ráðningu hans. Þið hafið komið ykkur saman um að fara með blekkingar og lygi gagnvart mér þangað til tímarnir breytast ykkur í hag. Segið mér því drauminn. Þá mun ég vita hvort þið getið ráðið merkingu hans.“
10 Kaldear svöruðu konungi: „Enginn maður í heimi getur orðið við þessum tilmælum konungs enda hefur enginn konungur eða stórhöfðingi nokkru sinni krafist slíks af nokkrum spásagnamanni, særingamanni eða Kaldea. 11 Torvelt er það sem konungur beiðist og getur enginn frætt hann um það nema guðirnir einir en bústaður þeirra er ekki meðal dauðlegra manna.“
12 Þetta gramdist konungi mjög. Hann varð ævareiður og skipaði svo fyrir að allir vitringar í Babýlon skyldu týna lífi. 13 Birt var tilskipun um að vitringarnir skyldu teknir af lífi og var leit hafin að Daníel og félögum hans til að lífláta þá.
Guð birtir Daníel ráðningu draumsins
14 Daníel leitaði þá til Arjóks, lífvarðarforingja konungs, sem bjóst nú til að taka vitringana í Babýlon af lífi, og ræddi við hann af varfærni og hyggindum sínum. 15 Hann sagði við Arjók, embættismann konungs: „Hví er þessi tilskipun konungs svo óvægin?“ Arjók greindi Daníel þá frá málavöxtum. 16 Daníel fór til konungs og bað hann að veita sér frest til að ráða draum hans.
17 Því næst fór Daníel heim í hús sitt til að greina þeim Hananja, Mísael og Asarja, félögum sínum, frá þessu 18 svo að þeir gætu beðið Guð himnanna hjálpar við að ráða þennan leyndardóm og komist hjá að verða líflátnir með hinum vitringunum í Babýlon.
19 Lausn leyndardómsins opinberaðist Daníel í nætursýn og lofaði Daníel þá Guð himnanna. 20 Daníel tók til máls og sagði:
Lofað sé nafn Guðs um aldir alda
því að hans er viskan og mátturinn.
21Hann ræður tímum og tíðum,
sviptir konunga völdum
og kemur konungum til valda,
spekingum veitir hann speki
og hyggnum mönnum hyggindi.
22 Hann afhjúpar hið djúpa og dulda,
hann veit hvað í myrkrinu býr
og ljósið býr hjá honum.
23 Ég þakka þér og vegsama þig,
Guð feðra minna,
sem hefur veitt mér visku og mátt
og hefur nú frætt mig um það sem vér báðum þig um,
þú hefur opinberað oss það sem konung fýsti að vita.
Daníel ræður drauminn
24 Daníel fór þessu næst til Arjóks, sem konungur hafði sett til að taka vitringana í Babýlon af lífi, og sagði við hann: „Þú skalt ekki taka vitringana í Babýlon af lífi. Farðu með mig til konungs og ég mun ráða drauminn fyrir hann.“
25 Og Arjók leiddi Daníel tafarlaust fyrir konung og sagði: „Ég fann mann meðal herleiddu mannanna frá Júda, sem getur sagt konungi merkingu draumsins.“
26 Konungur sagði við Daníel sem kallaður var Beltsasar: „Getur þú sagt mér hver sá draumur var sem mig dreymdi og hvað hann merkir?“
27 Daníel svaraði konungi: „Það er ofviða öllum vitringum, særingamönnum, galdramönnum og spásagnamönnum að opinbera konungi leyndardóm þann sem hann spyr um. 28 En á himnum er sá Guð sem opinberar leynda hluti og hann hefur nú boðað þér, Nebúkadnesar konungur, hvað verða muni á hinum síðustu dögum. Þetta er draumurinn og sýnirnar sem komu þér í hug í rekkju þinni:
29 Konungur, þegar þú hvíldir í rekkjunni hvarflaði hugur þinn að því hversu fara mundi á ókomnum tíma. Og hann, sem opinberar leynda hluti, sýndi þér hvað í vændum er. 30 En um mig er það að segja að ekki er það vegna neinnar visku sem mér er gefin fram yfir aðra þá menn sem nú lifa að mér hefur opinberast þessi leyndardómur, heldur skyldi ráðning draumsins gefin þér, konungur, svo að þér yrðu hugsanir hjarta þíns ljósar.
31 Þú horfðir fram fyrir þig, konungur, og við þér blasti risastórt líkneski. Líkneskið var feikistórt og stafaði af því skærum bjarma. Það var ógurlegt ásýndum þar sem það stóð frammi fyrir þér. 32 Höfuð líkneskisins var úr skíragulli, brjóst og armleggir úr silfri en kviður og lendar úr eir, 33 fótleggirnir úr járni en fæturnir að hluta úr járni og að hluta úr leir.
34 Meðan þú horfðir á losnaði steinn nokkur án þess að mannshönd kæmi þar nærri. Hann lenti á fótum líkneskisins, gerðum úr járni og leir, og mölvaði þá. 35 Þá molnaði niður allt í senn, járn, leir, eir, silfur og gull og fór sem hismi á þreskivelli um sumar. Vindurinn feykti því burt svo að þess sá ekki framar stað. Steinninn, sem lenti á líkneskinu, varð hins vegar að stóru fjalli sem þakti alla jörðina.
36 Þetta var draumurinn. Nú segi ég þér merkingu hans, konungur.
37 Þú, konungur, ert konungur konunganna og þér hefur Guð himnanna veitt konungdóm, vald, mátt og tign. 38 Þér hefur hann selt mennina á vald hvar sem þeir búa, dýr merkurinnar og fugla himinsins og látið þig drottna yfir þessu öllu. Þú ert gullhöfuðið. 39 En eftir þinn dag mun hefjast upp annað konungsríki, valdaminna en þitt og á eftir því þriðja ríkið, eirríkið sem mun drottna yfir veröldinni allri. 40 Þá mun magnast upp fjórða ríkið, sterkt sem járn. Járn sneiðir sundur og brytjar alla aðra hluti og eins og járnið sneiðir sundur, eins mun þetta ríki brytja og sundurlima öll hin ríkin. 41 Fætur sástu og tær sem voru að hluta úr efni leirkerasmiðs en að hluta úr járni. Það boðar að ríkið mun klofna. Það mun þó varðveita að nokkru styrk járnsins því að þú sást að leirinn var blandinn járni. 42 Tærnar á fótunum voru að hluta úr járni og að hluta úr leir og eftir því verður það ríki öflugt að nokkru en máttlítið að nokkru. 43 Þú sást að járni var blandað í leirinn. Það merkir að giftingar leiða til samrunans en ekki til samlögunar fremur en að járn og leir blandist saman.
44 Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna magna upp ríki sem aldrei mun hrynja og ekki verða selt annarri þjóð í hendur. Það mun eyða öllum þessum ríkjum og gera þau að engu en standa sjálft að eilífu. 45 Það er steinninn sem þú sást losna úr fjallinu, án þess að nokkur mannshönd kæmi nærri, og mölvaði jafnt járn sem eir, leir, silfur og gull. Mikill er sá Guð sem nú hefur birt konungi það sem í vændum er. Draumurinn er sannur og ráðning hans ótvíræð.“
46 Nebúkadnesar konungur féll þá fram á ásjónu sína, laut Daníel og bauð að fórna honum matfórn og reykjarfórn. 47 Og konungur sagði við Daníel: „Vissulega er Guð ykkar guð guðanna og konungur konunganna. Og leynda hluti opinberar hann fyrst þér tókst að ráða þennan leyndardóm.“
48 Konungur hóf nú Daníel til mikilla metorða, gaf honum margar og dýrar gjafir, skipaði hann höfðingja yfir Babelhéraði öllu og gerði hann að yfirmanni allra vitringanna í Babýloníu. 49 Að beiðni Daníels gerði konungur þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó að héraðsstjórum í Babelhéraði en sjálfur var Daníel við hirð konungs.