Tákn um umsátur um Jerúsalem
1 Mannssonur, taktu tígulstein, settu hann fyrir framan þig og teiknaðu á hann borg, Jerúsalemborg. 2 Gerðu umsátur um hana, reistu víggirðingar gegn henni og gerðu virki til árása á hana. Settu herbúðir gegnt henni og komdu múrbrjótum fyrir. 3 Taktu síðan járnpönnu og komdu henni fyrir eins og járnvegg milli þín og borgarinnar og snúðu andlitinu að henni. Þá er hún umsetin og þú skalt sitja um hana. Þetta er Ísraelsmönnum tákn.
4 Leggstu á vinstri hliðina og taktu á þig[ sekt Ísraels. Þú skalt bera sekt þeirra þá daga sem þú liggur á vinstri hliðinni. 5 Ég legg á þig að bera sekt Ísraelsmanna jafnmarga daga og árin eru sem þeir hafa syndgað gegn mér, eða þrjú hundruð og níutíu.
6 Að þeim dögum liðnum skaltu síðan leggjast á hægri hliðina. Þá skaltu bera sekt Júdamanna í fjörutíu daga, einn dag fyrir hvert ár. 7 Þú skalt snúa andlitinu að hinni umsetnu Jerúsalem, handleggur þinn skal vera ber og þú skalt flytja boðskap gegn borginni. 8 Ég legg á þig bönd svo að þú getir ekki snúið þér af annarri hliðinni á hina fyrr en umsáturstímanum er lokið.
Hungursneyð í umsátrinu
9 Taktu hveiti, bygg, baunir, linsubaunir, hirsi og speldi, láttu það allt í eina skál og gerðu þér brauð úr því. Þú skalt hafa það til matar þrjú hundruð og níutíu dagana sem þú liggur á hliðinni. 10 Það sem þú etur dag hvern skal vega nákvæmlega tuttugu sikla og þess skalt þú neyta á ákveðnum tíma dagsins. 11 Og þú skalt mæla þér vatn til drykkjar, nákvæmlega sjöttung hínar sem þú skalt drekka á ákveðnum tíma dags. 12 Þú skalt baka brauðið við mannasaur fyrir allra augum og neyta þess sem væri það byggbrauð.“
13 Drottinn sagði enn fremur: „Þannig munu Ísraelsmenn borða óhreint brauð á meðal þeirra þjóða sem ég mun hrekja þá til.“
14 Ég svaraði: „Æ, Drottinn Guð. Ég hef aldrei verið óhreinn. Frá því í æsku minni og til þessa dags hef ég aldrei lagt kjöt af sjálfdauðu eða dýrrifnu mér til munns og skemmt kjöt hefur aldrei komið inn fyrir mínar varir.“
15 Þá sagði hann við mig: „Sjáðu, ég leyfi þér að nota mykju í stað mannasaurs til að baka við brauð þitt.“
16 Hann sagði enn fremur: „Mannssonur, nú brýt ég staf brauðsins í Jerúsalem. Þeir sem þar búa skulu eta nákvæmlega vegið brauð kvíðafullir og drekka nákvæmlega mælt vatn óttaslegnir 17 því að þá mun skorta bæði brauð og vatn og þeir munu skelfast hver með öðrum og veslast upp vegna sektar sinnar.“