1Á þeim tíma, segir Drottinn,
verð ég Guð allra ættbálka Ísraels
og þeir verða lýður minn.

Heimför úr útlegð

2Svo segir Drottinn:
Sú þjóð sem komst undan sverðinu
hlaut náð eins og í eyðimörkinni.
Ísrael leitaði hvíldar.
3Drottinn birtist honum [ úr fjarlægð:
Með ævarandi elsku hef ég elskað þig,
fyrir því hef ég látið náð mína haldast við þig.
4Ég mun reisa þig við,
þú verður endurreist, mærin Ísrael.
Aftur muntu bera tambúrínur þínar sem djásn
og ganga í dans hinna fagnandi.
5Aftur muntu gróðursetja víngarða
á Samaríufjöllum.
Þeir sem gróðursetja garða skulu njóta þeirra.
6Dagur kemur,
þá hrópa verðirnir á Efraímsfjöllum:
Komið, vér skulum halda upp til Síonar,
til Drottins, Guðs vors.
7Svo segir Drottinn:
Hrópið af gleði yfir Jakob,
hyllið þjóð þjóðanna.
Kunngjörið, lofsyngið og segið:
Drottinn hefur bjargað þjóð sinni,
þeim sem eftir eru af Ísrael.
8Ég flyt þá heim frá landinu í norðri
og safna þeim saman frá endimörkum jarðar.
Blindir og haltir eru meðal þeirra,
þungaðar konur og jóðsjúkar;
fjölmennur söfnuður snýr aftur heim.
9Þeir koma grátandi
og ég leiði þá og hugga.
Ég fer með þá að vatnsmiklum lækjum,
eftir sléttum vegi þar sem þeir hrasa ekki,
því að ég er faðir Ísraels
og Efraím er frumburður minn.

Sorg breytist í gleði

10Þjóðir, hlýðið á orð Drottins,
kunngjörið það á fjarlægum eyjum og segið:
Sá sem dreifði Ísrael safnar honum saman,
hann gætir hans eins og hirðir gætir hjarðar sinnar.
11Því að Drottinn hefur leyst Jakob,
frelsað hann úr höndum þess sem var honum máttugri.
12Þeir koma og fagna á Síon,
ljóma af gleði yfir hinum góðu gjöfum Drottins,
yfir korni, víni og olíu,
yfir sauðum og nautum.
Þeir verða sjálfir eins og vökvaður garður
og missa aldrei framar mátt.
13Þá munu meyjarnar stíga gleðidans
og ungir fagna með öldnum.
Ég breyti sorg þeirra í gleði,
hugga og gleð þá sem harma.
14Prestunum gef ég ríkulega af feitum fórnum
og þjóð mín mun seðjast af góðum gjöfum mínum,
segir Drottinn.

Ramakvein

15Svo segir Drottinn:
Rödd heyrist í Rama,
harmakvein, beiskur grátur.
Rakel grætur börn sín, [
hún vill ekki huggast láta vegna barna sinna
því að þau eru ekki framar lífs.
16Svo segir Drottinn:
Hættu að gráta,
haltu aftur af tárum þínum
því að þú færð umbun erfiðis þíns,
segir Drottinn:
Þeir snúa aftur heim úr landi fjandmannanna.
17Niðjar þínir eiga von,
segir Drottinn,
því að börn þín koma aftur heim til lands síns.
18Ég heyrði kvein Efraíms:
„Þú hirtir mig og ég tók hirtingunni
líkt og óvaninn kálfur.
Lát mig snúa heim, þá skal ég snúa við
því að þú ert Drottinn, Guð minn.
19Þegar ég sneri frá þér iðraðist ég.
Eftir að ég öðlaðist skilning barði ég mér á brjóst,
sneyptur og fullur blygðunar,
því að á mér hvíldi skömm æsku minnar.“
20Er Efraím mér svo kær sonur
eða slíkt eftirlætisbarn?
Í hvert skipti sem ég ávíta hann
hlýt ég að minnast hans.
Þess vegna hef ég meðaumkun með honum,
hlýt að sýna honum miskunn,
segir Drottinn.

Hvatt til heimfarar

21Reistu vörður, komdu fyrir vegvísum,
hafðu gætur á veginum,
leiðinni sem þú gekkst.
Snúðu aftur, mærin Ísrael,
snúðu aftur til borga þinna.
22 Hve lengi ætlarðu að eigra um stefnulaust,
fráhverfa dóttir?
Því að Drottinn skapar nýtt í landinu:
konan mun vernda karlinn.

Blessun heitið

23 Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Þegar ég hef snúið við hag íbúanna í Júda verða þessi orð sögð að nýju í landinu og borgum þess: „Drottinn blessi þig, bústaður réttlætisins, heilaga fjall.“ 24 Akuryrkjumenn og hirðingjar munu búa saman í landinu, í Júda og borgum þess. 25 Ég svala þorsta hins örmagna og metta hinn magnþrota.
26 Við þetta vaknaði ég og leit í kringum mig. Ég hafði sofið vært.
27 Þeir dagar koma, segir Drottinn, að ég mun fjölga bæði mönnum og dýrum í Ísrael og Júda. 28 Ég vakti yfir þeim til að uppræta, rífa, brjóta, eyða og valda skaða; eins mun ég vaka yfir þeim til að byggja og gróðursetja, segir Drottinn.

Ábyrgð á eigin gerðum

29 Á þeim dögum verður ekki lengur sagt: „Feðurnir átu súr vínber og tennur barna þeirra urðu sljóar.“ 30 Nei, sérhver mun deyja vegna eigin sektar; hver sá sem etur súr vínber fær sljóar tennur.

Nýr sáttmáli

31 Þeir dagar koma, segir Drottinn, þegar ég geri nýjan sáttmála við Ísraelsmenn og Júdamenn. 32 Hann verður ekki eins og sáttmálinn sem ég gerði við feður þeirra þegar ég tók í hönd þeim og leiddi þá út úr Egyptalandi. Þeir rufu þann sáttmála við mig þótt ég væri herra þeirra, segir Drottinn. 33 Þannig er sáttmálinn sem ég mun gera við Ísraelsmenn þegar þessir dagar eru liðnir, segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra. Ég verð Guð þeirra og þeir verða lýður minn. 34 Enginn mun framar þurfa að kenna landa sínum og bróður og segja: Þekkið Drottin. Allir munu þekkja mig, bæði stórir og smáir, segir Drottinn. Ég mun fyrirgefa þeim sekt þeirra og minnist ekki framar syndar þeirra.

Skikkan skaparans

35 Svo segir Drottinn,
sem setti sólina til að lýsa um daga
og tungl og stjörnur til að lýsa um nætur,
sem æsir hafið svo að öldurnar gnýja,
Drottinn hersveitanna er nafn hans:
36 Raskist þessi skipan fyrir augliti mínu
hætta niðjar Ísraels að vera þjóð fyrir augliti mínu
fyrir fullt og allt, segir Drottinn.
37 Svo segir Drottinn:
Ef himinninn yfir oss yrði mældur
og undirstöður jarðar hið neðra rannsakaðar
mundi ég hafna öllum niðjum Ísraels
vegna alls þess sem þeir hafa gert,
segir Drottinn.

Hin nýja Jerúsalem

38 Þeir dagar koma, segir Drottinn, að borg Drottins verður endurreist frá turni Hananels að Hornhliðinu. 39 Mælisnúran mun liggja beint að Garebhæð og sveigja síðan til Góa. 40 Allur dalurinn með líkunum og fórnaröskunni og hlíðarnar að Kídronlæk austur að horninu við Hrossahliðið verða helgaðar Drottni. Ekkert verður nokkru sinni framar upprætt þar eða rifið niður.