1Vitur sonur hlýðir fyrirmælum föður síns 
en hinn þvermóðskufulli sinnir engri umvöndun. 
   2Góðs má njóta af ávexti munnsins 
en svikarana þyrstir í ofbeldi. 
   3Sá sem gætir munns síns varðveitir líf sitt 
en glötun bíður hins lausmála. 
   4Sál letingjans girnist og fær ekki 
en sál hins eljusama mettast ríkulega. 
   5Réttlátur maður hatast við lygi 
en hinn rangláti fremur smán og svívirðu. 
   6Réttlætið verndar hinn grandvara 
en ranglætið verður syndaranum að falli. 
   7Einn þykist ríkur en á þó ekkert, 
annar læst fátækur þótt auðugur sé. 
   8Auðæfi manns eru lífi hans lausnargjald 
en enginn hótar hinum fátæka. 
   9Ljós réttlátra logar skært 
en á lampa ranglátra slokknar. 
   10Af hroka kvikna deilur 
en hjá ráðþægnum mönnum er viska. 
   11Skjótfenginn auður hjaðnar 
en þeim sem safnar smátt og smátt vex auður.
   12Löng eftirvænting gerir hjartað sjúkt 
en uppfyllt ósk er lífstré. 
   13Sá sem fyrirlítur hollráð býr sér glötun 
en sá sem hlítir leiðsögn hlýtur umbun. 
   14Kennsla hins vitra er lífslind 
og forðar frá snörum dauðans. 
   15Góðir vitsmunir veita hylli 
en vegur svikaranna leiðir í glötun. 
   16Vitur maður fer að öllu með hyggindum 
en flónið dreifir um sig heimsku. 
   17Ótrúr sendiboði færir ógæfu 
en trúr sendimaður lækningu. 
   18Fátækt og smán hlýtur sá sem ekki skeytir um áminningar 
en sá sem tekur umvöndun hlýtur sæmd. 
   19Uppfyllt ósk er sálinni sæt 
en að forðast illt er heimskingjunum andstyggð. 
   20Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur, 
en illa fer þeim sem leggur lag sitt við heimskingja. 
   21Óhamingjan eltir syndarana 
en gæfan hlotnast hinum réttlátu. 
   22 Góður maður lætur eftir sig arf handa börnum og barnabörnum 
en eigur syndarans koma í hlut hins réttláta. 
   23 Nýrækt fátæklinga gefur ærna fæðu 
en óhóf sviptir marga efnum. 
   24 Sá sem sparar vöndinn hatar son sinn 
en sá sem elskar hann agar hann snemma. 
   25 Hinn réttláti fær nægju sína 
en kviður ranglátra er galtómur.  
			Orðskviðirnir 13. kafliHið íslenska biblíufélag2021-02-15T19:13:38+00:00
			
			
  
  			
			
				
																													
  
		        Orðskviðirnir 13. kafli                        
  Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.    
                        
  
	