Horma sigruð
1 Þegar kanverski konungurinn í Arad, sem bjó í Negeb, frétti að Ísrael væri á leiðinni eftir Atarimveginum réðst hann á Ísraelsmenn og tók nokkra þeirra til fanga. 2 Þá vann Ísrael Drottni heit og sagði: „Ef þú selur þetta fólk í hendur mér mun ég helga borgir þeirra banni.“ 3 Drottinn bænheyrði Ísrael og framseldi Kanverjana í hendur þeim. Ísrael helgaði þá sjálfa og borgir þeirra banni og gaf staðnum nafnið Horma.
Eirormurinn
4 Ísraelsmenn héldu frá Hórfjalli í átt til Sefhafsins til þess að sneiða hjá Edómslandi. En þolinmæði fólksins þraut á leiðinni 5 og það tók að tala gegn Guði og Móse: „Hvers vegna leidduð þið okkur upp frá Egyptalandi til að deyja í eyðimörkinni? Hér er hvorki brauð né vatn og okkur býður við þessu léttmeti.“
6 Þá sendi Drottinn eitraða höggorma gegn fólkinu. Þeir bitu fólkið og margir Ísraelsmenn dóu. 7 Fólkið kom þá til Móse og sagði: „Við höfum syndgað vegna þess að við höfum talað gegn Drottni og þér. Bið þú til Drottins svo að hann sendi höggormana burt frá okkur. Þá bað Móse fyrir fólkinu 8 og Drottinn sagði við Móse: „Gerðu höggorm og settu hann á stöng. Sérhver sem hefur verið bitinn skal horfa til hans og halda lífi.“
9 Móse bjó þá til eirorm og setti á stöng. Þegar höggormur beit mann og maðurinn horfði til eirormsins hélt hann lífi.
Sigrar austan Jórdanarfljóts
10 Ísraelsmenn héldu af stað og settu tjaldbúðir sínar í Óbót. 11 Síðan héldu þeir af stað frá Óbót og settu búðir sínar í ÍjeHabaarím, í eyðimörkinni austan við Móab. 12 Þaðan héldu þeir af stað og settu búðir sínar við Seredlæk. 13 Þeir héldu þaðan og settu búðir sínar handan við Arnonfljót sem rennur um eyðimörkina og á upptök í landi Amoríta. Arnon myndar landamæri Móabs og Amoríta. 14 Þess vegna er sagt í bókinni um hernað Drottins:
Vaheb í Súfa og lækjardrögin,
Arnon og 15 dalsmynnin
sem hallast að hinu byggða landi við Ar
og liggja að landi Móabíta.
16 Þaðan héldu þeir til Beer. Það er brunnurinn þar sem Drottinn sagði við Móse: „Stefndu fólkinu saman, þá mun ég gefa því vatn.“ 17 Þá söng Ísrael þetta kvæði:
Gefðu vatn, brunnur.
Syngið um hann,
18brunninn sem höfðingjar grófu,
sem leiðtogar fólksins dýpkuðu
með veldissprota, með stöfum sínum.
Þeir héldu áfram frá eyðimörkinni til Mattana, 19 frá Mattana til Nahalíel frá Nahalíel til Bamót, 20 frá Bamót til dalsins sem er á Móabssléttu undir Pisgatindi sem gnæfir yfir eyðimörkina.
Land Amoríta sigrað
21 Ísrael sendi boðbera til Síhons, konungs Amoríta, og lét þá segja: 22 „Leyfðu mér að fara um land þitt. Við munum hvorki fara inn á akra né í víngarða, né drekka vatn úr brunnum ykkar, heldur munum við fylgja Konungsveginum þar til við erum komnir í gegnum land þitt.“
23 Síhon veitti Ísrael ekki leyfi til að fara um land sitt heldur stefndi öllum her sínum saman og hélt gegn Ísrael í eyðimörkinni. Þegar hann kom til Jahsa réðst hann á Ísrael. 24 En Ísrael sigraði hann með sverðseggjum og tók land hans til eignar, frá Arnon að Jabbok, allt til Ammóníta en Jaser var á landamærum Ammóníta. [
25 Ísrael vann allar þessar borgir. Ísraelsmenn settust að í öllum borgum Amoríta, í Hesbon og öllum þorpunum sem henni heyrðu til. 26 Hesbon var höfuðborg Síhons, konungs Amoríta. Hann hafði barist gegn fyrsta konungi Móabs og náð öllu landi hans allt til Arnon. 27 Þess vegna segja skáldin:
Komið til Hesbon, hún verður endurreist,
grunnur lagður að höfuðborg Síhons:
28 Því að eldur gekk út frá Hesbon,
logi frá virki Síhons,
hann eyddi Ar í Móab
og gleypti hæðirnar við Arnon.
29 Vei þér, Móab,
það er úti um þig, þjóð Kamoss. [
Hann gerði syni sína að flóttamönnum,
dætur sínar að föngum Síhons.
30 En vér sigruðum,
Hesbon var eydd eins og Díbon
og vér eyddum þeim allt til Nófa við Medeba.
31 Ísrael settist að í landi Amoríta. 32 Móse sendi menn til að njósna um Jaser og Ísraelsmenn unnu þorpin umhverfis hana og hröktu á brott Amoríta sem þar voru. 33 Síðan breyttu þeir um stefnu og héldu upp eftir í átt til Basan. Og Basanskonungur fór gegn þeim ásamt öllum her sínum til að berjast við þá í Edreí. 34 Þá sagði Drottinn við Móse: „Óttastu hann ekki því að ég hef selt hann þér í hendur ásamt öllum her hans og landi. Farðu með hann eins og þú fórst með Síhon Amorítakonung sem sat í Hesbon.“
35 Síðan sigruðu Ísraelsmenn hann, syni hans og allan her hans og enginn þeirra komst undan á flótta. En Ísraelsmenn tóku land hans til eignar.