Störf Levíta
1 Drottinn talaði til Móse og Arons og sagði:
2 „Teldu niðja Kahats og greindu þá frá öðrum Levítum. 3 Teldu þá sem eru þrjátíu ára að aldri og allt að fimmtíu ára eftir ættum þeirra og fjölskyldum. Þú skalt telja alla sem eiga að koma til þjónustu í samfundatjaldinu. 4 Þetta er starf Kahatssona við samfundatjaldið, hið háheilaga:
5 Þegar herinn heldur af stað skulu Aron og synir hans koma og taka niður fortjaldið og breiða það yfir örk sáttmálstáknsins. 6 Ofan á það skulu þeir leggja ábreiðu úr höfrungaskinni, breiða yfir hana purpurablátt klæði og koma því næst fyrir stöngunum sem heyra örkinni til.
7 Þeir skulu breiða purpurablátt klæði yfir borð skoðunarbrauðanna og setja á það kerin, skálarnar, bollana og könnur fyrir dreypifórnir ásamt brauðinu sem ávallt skal vera þar. 8 Síðan skulu þeir breiða yfir það hárautt klæði og leggja ofan á það ábreiður úr höfrungaskinni. Þá skulu þeir koma fyrir stöngunum sem heyra altarinu til.
9 Þeir skulu taka purpurablátt klæði og breiða það yfir ljósastikuna, lampa hennar og öll olíukerin. 10 Síðan skulu þeir breiða ábreiðu úr höfrungaskinni yfir hana og öll áhöld sem heyra henni til og setja á börur. 11 Þeir skulu breiða purpurablátt klæði yfir gullaltarið og ábreiðu úr höfrungaskinni þar yfir og koma stöngunum fyrir. 12 Því næst skulu þeir taka öll áhöld sem höfð eru til þjónustu í helgidóminum, breiða purpurablátt klæði yfir þau og setja á börur. 13 Þeir skulu fjarlægja fituöskuna af altarinu og breiða yfir það purpurarautt klæði. 14 Síðan skulu þeir setja á það öll áhöld sem heyra því til og eru höfð til þjónustu á því, eldpönnur, gaffla, skóflur og fórnarskálar, öll áhöld altarisins, og breiða yfir ábreiðu úr höfrungaskinni og koma fyrir stöngunum sem heyra því til.
15 Þegar Aron og synir hans hafa lokið við að breiða yfir helgidóminn og öll áhöld helgidómsins, er herinn tekur sig upp, skulu synir Kahats koma og bera. En þeir mega ekki snerta helgidóminn því að þá munu þeir deyja.
Þetta er það sem synir Kahats eiga að bera úr samfundatjaldinu.
16 Eleasar Aronssyni var falin umsjón með olíunni á lampann, hinu ilmandi reykelsi, hinni síendurteknu kornfórn og smurningarolíunni, einnig skal hann bera ábyrgð á allri tjaldbúðinni og öllu heilögu sem er í henni og áhöldum sem heyra henni til.“
17 Drottinn talaði til Móse og Arons og sagði:
18 „Gætið þess að ættbálki Kahatíta verði ekki tortímt úr hópi Levíta. 19 Þannig skuluð þið fara að þeirra vegna svo að þeir haldi lífi og deyi ekki þegar þeir nálgast hið háheilaga: Aron og synir hans skulu koma og fela hverjum sitt verk og það sem hann á að bera. 20 En Kahatítar mega ekki koma og sjá helgidóminn, jafnvel ekki andartak, annars munu þeir deyja.
21 Drottinn talaði til Móse og sagði:
22 „Teldu einnig syni Gersons eftir fjölskyldum þeirra og ættum. 23 Þú skalt telja þá sem eru þrjátíu til fimmtíu ára að aldri. Þú skalt telja alla sem eiga að koma til þjónustu og vinna verk í samfundatjaldinu. 24 Þetta er starf Gersonssona við samfundatjaldið, verk þeirra og það sem þeir eiga að bera: 25 Þeir skulu bera tjalddúka tjaldbúðarinnar og samfundatjaldsins, þak þess og skýluna yfir því sem er úr höfrungaskinni, forhengið fyrir dyrum samfundatjaldsins, 26 tjalddúka forgarðsins ásamt forhenginu fyrir hliði forgarðsins sem umlykur tjaldbúðina og altarið, tjaldstögin og öll áhöld sem til þarf.
27 Allt verk sona Gersons skal unnið eftir boði Arons og sona hans, allt sem þeir eiga að bera og allt verk þeirra. Þið skuluð fela hverjum þeirra með nafni allt sem þeir eiga að bera.
28 Þetta er starf ætta Gersonssona við samfundatjaldið. Þeir skulu starfa undir stjórn Ítamars Aronssonar prests.
29 Þú skalt telja niðja Merarí eftir ættum þeirra og fjölskyldum. 30 Þú skalt skrá þá sem eru þrjátíu til fimmtíu ára og eru hæfir til að vinna við samfundatjaldið. 31 Þetta er þjónusta þeirra, það sem þeir eiga að bera en í því felst vinna þeirra við samfundatjaldið: þiljuborð tjaldbúðarinnar og þverslár hennar, súlur og sökklar, 32 súlurnar allt umhverfis forgarðinn og sökklar þeirra, tjaldhælar og stög og öll áhöld sem þarf til allra þessara starfa. Þið skuluð nefna öll áhöld með nafni sem þeim er falið að bera.
33 Þetta eru störf ætta Merarísona, öll sú vinna sem þeir eiga að inna af hendi við samfundatjaldið undir stjórn Ítamars Aronssonar prests.“
34 Móse, Aron og höfðingjar safnaðarins töldu Kahatíta eftir ættum þeirra og fjölskyldum, 35 þá sem voru þrjátíu til fimmtíu ára að aldri, alla sem áttu að koma til þjónustu, til vinnu við samfundatjaldið. 36 Þeir sem taldir voru eftir ættum sínum voru 2750. 37 Þetta voru þeir af fjölskyldum Kahatíta sem taldir voru, allir sem unnu við samfundatjaldið og Móse og Aron töldu eins og Drottinn hafði boðið fyrir munn Móse.
38 Þeir sona Gersons, sem taldir voru eftir ættum sínum og fjölskyldum 39 og voru þrjátíu til fimmtíu ára, allir sem voru hæfir til að vinna við samfundatjaldið, 40 þeir sem taldir voru eftir ættum sínum og fjölskyldum, reyndust vera 2630. 41 Þetta voru þeir sona Gersons sem taldir voru eftir ættum sínum og fjölskyldum, allir sem unnu við samfundatjaldið og Móse og Aron töldu eins og Drottinn hafði boðið fyrir munn Móse.
42 Þeir af ættkvíslum sona Merarí, sem taldir voru eftir ættum sínum og fjölskyldum 43 og voru þrjátíu til fimmtíu ára, allir sem voru hæfir til að vinna við samfundatjaldið, 44 þeir sem taldir voru eftir ættum sínum, reyndust vera 3200. 45 Þetta voru þeir af ættkvíslum Meraríniðja sem taldir voru eftir ættum sínum og Móse og Aron töldu eins og Drottinn hafði boðið fyrir munn Móse.
46 Allir þeir Levítar, sem taldir voru og Móse, Aron og höfðingjar Ísraels töldu eftir ættum þeirra og fjölskyldum, 47 voru þrjátíu til fimmtíu ára að aldri. Allir sem komu til að leggja fram vinnu og burð við samfundatjaldið, 48 þeir af Levítum, sem taldir voru, reyndust vera 8580. 49 Eftir boði Drottins var þeim, hverjum um sig, falið verk og burður eins og Drottinn hafði boðið fyrir munn Móse.