Tóbít gefur Tóbíasi ráð
1 Þennan sama dag minntist Tóbít silfursins sem hann hafði falið Gabael í Rages í Medíu til geymslu. 2 Hann hugsaði með sér: „Nú hef ég beðið um að fá að deyja. Ætti ég þá ekki að kalla á Tóbías son minn og segja honum frá peningunum áður en ég dey?“ 3 Kallaði hann á Tóbías son sinn og sagði við hann þegar hann kom: „Veittu mér virðulega útför. Heiðra þú móður þína líka og yfirgef hana aldrei svo lengi sem hún lifir. Vertu henni þóknanlegur og gerðu aldrei neitt sem veldur henni hryggð. 4 Minnstu þess, barn, að marga hættu lagði hún sig í þín vegna er hún bar þig í móðurlífi. Þegar hún deyr skaltu leggja hana við hlið mér í sömu gröf.
5 Minnstu Drottins alla ævidaga þína, barnið mitt. Varastu að syndga og breyta gegn boðum Drottins. Iðkaðu réttlæti alla ævi þína og gakktu eigi á vegum ranglætis. 6 Þeim farnast vel í öllum verkum sínum sem eru heiðarlegir. Öllum, sem iðka réttlæti, 7 skalt þú gefa ölmusur af eigum þínum og ekki horfa á eftir þeim með eftirsjá.[ Snú þú aldrei baki við fátækum svo að Guð snúi ekki baki við þér. 8 Gefðu eins og efni þín leyfa, barnið mitt. Ef þú átt mikið þá skalt þú nota það til þess að hjálpa öðrum. Eigir þú lítið skaltu samt miðla öðrum af því. Vertu ekki hræddur, barnið mitt, við að gefa ölmusu. 9 Með því safnar þú þér fjársjóði til þrengingartíma. 10 Góðverk frelsa frá dauða og varna því að lenda í myrkri. 11 Þeir sem gera góðverk færa Hinum hæsta fórn sem hann metur mikils.
12 Forðastu, barnið mitt, allt óskírlífi. Gakktu umfram allt að eiga konu af ætt feðra þinna. Kvænstu ekki útlendri konu sem ekki er af kyni föður þíns. Við erum niðjar spámanna. Minnstu, barnið mitt, Nóa, Abrahams, Ísaks og Jakobs, fyrstu forfeðra okkar. Þeir tóku sér allir konu af eigin ætt. Þess vegna hlutu þeir allir blessun af börnum sínum og niðjar þeirra munu landið erfa. 13 Elskaðu bræður þína, barnið mitt, og auðsýndu sonum þjóðar þinnar ekki yfirlæti og ekki heldur dætrum með því að þykjast of góður til að kvænast þeim. Því að hroka fylgir ógæfa og ráðleysi eins og leti leiðir til fátæktar og umkomuleysis. Dáðleysi er móðir hungurs.
14 Þú skalt greiða þeim sem starfar hjá þér laun sín samdægurs, greiddu honum laun sín án tafar. Ef þú þjónar Guði verður þér endurgoldið. Hafðu gát á öllum gjörðum þínum, barnið mitt, og hegðaðu þér í hvívetna vel. 15 Gerðu engum það sem kæmi illa við þig sjálfan. Drekktu þig ekki drukkinn af víni og drykkjuskapur sé ekki förunautur þinn. 16 Miðlaðu hungruðum af brauði þínu og nöktum af klæðum þínum. Gefðu allt sem þú getur án verið, barnið mitt, og horfðu ekki á eftir gjöfum þínum með eftirsjá. 17 Veittu mat og vín við greftran réttlátra en gefðu ekki syndurum neitt. 18 Leitaðu ráða hjá vitrum mönnum og teldu þig ekki yfir það hafinn að þiggja nytsöm ráð. 19 Þú skalt ávallt lofa Guð og biðja hann að greiða götu þína og láta allar gjörðir þínar og áform heppnast. Aðrar þjóðir skortir skilning. Það er Drottinn sjálfur sem veitir vitsmuni. Hann upphefur þá sem þóknast honum en hann sendir þá sem hann vill niður til heljar. Minnstu þessara fyrirmæla, sonur minn, og afmá þau aldrei úr hjarta þínu.
20 En nú ætla ég, barnið mitt, að vísa þér á tíu talentur silfurs sem ég fól Gabael Gabrissyni í Rages í Medíu til geymslu. 21 Vertu óhræddur um það, barnið mitt, að við séum fátækir. Þú átt vísa gnótt ef þú óttast Guð og forðast að syndga og gerir það sem gott er í augum Drottins, Guðs þíns.“