Fjölskyldan fagnar
1 Þegar Asarhaddon var kominn til ríkis sneri ég á ný til míns heima og fékk aftur Önnu konu mína og Tóbías son minn. Á hvítasunnuhátíð okkar, sem einnig kallast heilög viknahátíð, var mér haldin vegleg veisla. Ég kom mér fyrir til að neyta veislufanganna. 2 Er ég sá hvílík gnótt var borin á borð fyrir mig sagði ég við Tóbías son minn: „Farðu út, barnið mitt, og finnir þú einhvern fátækling meðal herleiddra landa okkar hér í Níníve sem er rétttrúaður skaltu koma með hann svo að hann geti matast með mér. Ég skal bíða þangað til þú kemur aftur.“
Morð í Níníve
3 Tóbías fór út til að leita að fátækum landa en kom til baka og sagði: „Faðir!“ „Já, drengur minn,“ svaraði ég. „Einn samlanda okkar hefur verið myrtur,“ hélt hann áfram. „Hann var kyrktur og honum hent út á torgið og þar liggur hann.“ 4 Ég spratt upp frá borðinu án þess að hafa bragðað á neinu, sótti líkið út á strætið og bar það inn í skúr þar sem ég kom því fyrir uns sól gengi undir. Þá gæti ég lagt það í gröf. 5 Síðan hélt ég heim, baðaði mig og mataðist hryggur í bragði. 6 Og ég minntist orða Amosar spámanns sem hann mælti um Betel:
Hátíðir yðar munu snúast í sorg
og allir söngvar yðar í harmkvæði.[
7 Þá brast ég í grát.
Síðan er sól var sest tók ég gröf og jarðaði líkið. 8 Nágrannar mínir gerðu gys að mér og sögðu: „Er hann ekki lengur hræddur? Nýlega þurfti hann að bjarga sér á flótta þegar átti að drepa hann fyrir að gera þetta sama. Nú er hann aftur tekinn til við að greftra dauða!“
Tóbít sleginn blindu
9 Um nóttina baðaði ég mig, fór út í garð og lagðist til svefns undir garðveggnum. Sakir þess að heitt var hafði ég ekkert á höfðinu. 10 Ég vissi ekki að spörvar höfðust við í veggnum fyrir ofan mig og volgt drit þeirra féll í augu mér og myndaði hvíta himnu. Ég leitaði hjálpar af læknum en því fleiri smyrsli sem þeir báru á augun þeim mun meira spillti himnan sjóninni uns ég varð alblindur. Í fjögur ár var ég með öllu sjónlaus og allir landar mínir fundu sárt til með mér. Akíkar sá fyrir mér í tvö ár en þá fór hann til Elam.
Heimiliserjur
11 Um þessar mundir tók Anna kona mín að vinna fyrir sér með vefnaði eins og kvenna er háttur. 12 Vinnuveitendur hennar greiddu henni laun þegar hún sendi þeim ullina. Sjöunda dag dystrosmánaðar tók hún vaðmálið og sendi húsbændum sínum sem greiddu henni full laun fyrir og gáfu henni kiðling í matinn. 13 Þegar hún kom síðan til mín tók kiðlingurinn að jarma. Ég kallaði á hana og spurði: „Hvaðan kemur þessi kiðlingur? Er hann kannski illa fenginn? Farðu með hann aftur til eigendanna. Ekki leyfist okkur að eta það sem stolið er.“14 Hún svaraði mér og sagði: „Kiðlinginn fékk ég í kaupbæti.“ En ég trúði henni ekki og sagði henni að skila honum til eiganda síns og roðnaði af reiði vegna þess sem hún hafði gert. Þá sagði hún við mig: „Hvað hafa miskunnarverkin gagnast þér? Hvað hafa réttlætisverkin stoðað þig? Það dylst nú engum sem lítur þig!“