Hinstu ráðleggingar Tóbíts
1 Þannig lauk Tóbít lofsöng sínum.
Tóbít hlaut hægt andlát þegar hann var hundrað og tólf ára og var grafinn með viðhöfn í Níníve 2 en hafði verið sextíu og tveggja ára þegar augu hans sködduðust. Eftir að hann fékk sjónina aftur lifði hann góðu lífi og velgerðasömu. Aldrei lét hann af að lofa Guð og vegsama mikilleik hans. 3 Er hann lá fyrir dauðanum kallaði hann á Tóbías son sinn og gaf honum þessi fyrirmæli: „Drengur minn. Taktu með þér börn þín 4 og farðu til Medíu. Ég trúi orði Guðs um Níníve sem Nahúm mælti. Það mun allt koma fram og hrína á Assýríu og Níníve. Allt það sem spámenn Ísraels, sendiboðar Guðs, sögðu mun koma fram, undantekningarlaust. Það mun allt koma fram á tilsettum tíma. Það verður öruggara að búa í Medíu en í Assýríu eða Babýlon. Því að ég veit og treysti að allt sem Guð hefur talað muni koma fram og verða án þess að nokkurt orða hans bregðist. Öllum bræðrum okkar, sem búa í Ísrael, mun dreift og þeir munu herleiddir burt úr landinu góða. Gervallt Ísraelsland mun lagt í auðn, Samaría og Jerúsalem munu eyddar og hús Guðs mun brennt og verða í eyði um tíma. 5 En Guð mun miskunna þeim að nýju og hann mun láta þá snúa aftur til lands Ísraels. Þeir munu endurreisa hús hans þótt það verði ekki eins og hið fyrra og það mun standa þar til fylling tímans verður. Þá munu allir hinir herleiddu snúa aftur og endurreisa Jerúsalem veglega. Hús Guðs mun einnig endurreist í samræmi við orð spámanna Ísraels um borgina. 6 Allar þjóðir gervallrar jarðar munu snúa sér að nýju til Guðs og óttast hann í sannleika. Þær munu yfirgefa skurðgoð sín öll, sem með blekkingu sinni leiddu þær afvega, 7 og þær munu lofa Guð eilífðarinnar með réttlæti. Allir synir Ísraels, sem frelsaðir verða á þeim dögum, munu minnast Guðs heils hugar, sameinast og koma til Jerúsalem. Þeir munu búa um aldur við öryggi í landi Abrahams sem verður afhent þeim. Þeir sem í sannleika elska Guð munu gleðjast en þeir sem lifa í synd og ranglæti munu afmáðir af jörðu. 8/9 En nú, börnin mín, legg ég ykkur þetta á hjarta: Þjónið Guði heils hugar og gerið það sem þóknanlegt er í augum hans. Börn ykkar skulu alin upp og öguð til réttlætis og miskunnarverka og þess að minnast Guðs og lofa nafn hans stöðugt í sannleika og af öllum mætti.
Þú, drengur minn, þú skalt fara frá Níníve. Hér skalt þú ekki dveljast. 10 Þegar að því kemur að þú greftrir móður þína mér við hlið, þá máttu ekki dvelja næturlangt í borgarlandinu. Ég sé að ranglæti veður uppi í borginni og menn blygðast sín ekkert fyrir sviksemi. Mundu, sonur minn, hvað Nadab gerði Akíkar fóstra sínum. Neyddi Nadab hann ekki til að fara lifandi ofan í jörðina? En Guð hegndi fyrir þá óhæfu með viðeigandi hætti. Akíkar kom út í ljósið en Nadab gekk inn í eilíft myrkur vegna þess að hann reyndi að deyða Akíkar. Sakir gjafmildi sinnar slapp hann úr dauðagildrunni sem Nadab hafði lagt fyrir hann en Nadab sjálfur féll í dauðagildruna og fórst. 11 Sjáið af þessu, börnin mín, til hvers góðverk leiða og til hvers ranglætið. Það leiðir til dauða. En nú á ég skammt eftir.“ Þau lögðu hann niður í rúmið og hann gaf upp öndina og hlaut veglega útför.
12 Þegar svo móðir Tóbíasar dó þá greftraði hann hana við hlið föður hans. Hann og kona hans fóru síðan til Medíu. Settist hann að í Ekbatana hjá Ragúel tengdaföður sínum. 13 Hann annaðist um aldraða tengdaforeldra sína, auðsýndi þeim virðingu og lagði þau til grafar í Ekbatana í Medíu. Hann erfði bæði eignir Ragúels og Tóbíts föður síns. 14 Hann lést eitt hundrað og sautján ára að aldri og naut mikillar virðingar. 15 Áður en hann dó frétti hann af eyðingu Níníve, sá stríðsfangana, sem Kyaxares[ konungur Meda hafði hertekið þar, vera leidda til Medíu og lofaði Guð fyrir allt sem hann hafði látið henda Nínívemenn og Assýringa. Hann fékk að fagna yfir Níníve áður en hann lést og hann lofaði Guð um aldir alda.