Áhyggjur Tóbíts og Önnu
1 Dag eftir dag taldi Tóbít dagana sem það tæki son hans að fara fram og aftur. Þegar sá tími leið án þess að sonur hans kæmi 2 hugsaði hann með sér: „Hvað skyldi dvelja hann? Ætli Gabael sé dáinn og enginn til að afhenda honum peningana?“ 3 Varð hann sífellt áhyggjufyllri. 4 En Anna kona hans sagði: „Barnið mitt er dáið. Það er ekki lengur í lifenda tölu.“ Og hún tók að gráta og harma son sinn og sagði: 5 „Vei mér, barnið mitt, að ég skyldi láta þig fara, þú sem ert augasteinninn minn.“ 6 „Vertu hljóð og hafðu engar áhyggjur, systir góð,“ sagði Tóbít sífellt, „það amar ekkert að honum. Eitthvað óvænt hefur tafið þá þarna. Maðurinn, sem fylgir honum, er traustur. Hann er einn af bræðrum okkar. Hafðu ekki áhyggjur af drengnum, systir, hann kemur bráðum.“ 7 En hún svaraði: „Þegi þú sjálfur og reyndu ekki að blekkja mig. Drengurinn minn er dáinn.“ Og dag hvern gekk hún út og skimaði eftir veginum sem sonur hennar hafði gengið á braut og var ekki mönnum sinnandi. Þegar sól var sest kom hún inn, harmaði og grét alla nóttina og festi ekki blund.
Brottför frá Ekbatana
Þegar fjórtán daga brúðkaupsveislan, sem Ragúel hafði heitið að halda dóttur sinni, var hjá gekk Tóbías inn til hans og sagði: „Leyfðu mér nú að fara. Ég veit að faðir minn og móðir eru farin að halda að þau muni aldrei sjá mig framar. Leyfðu mér því, faðir góður, að halda héðan og fara til föður míns. Ég hef þegar sagt þér hvernig hann var þegar ég fór.“ 8 En Ragúel svaraði: „Vertu hér um kyrrt, drengur minn, og ég skal senda boðbera til Tóbíts föður þíns til að segja honum frá högum þínum.“ 9 „Nei, alls ekki,“ sagði Tóbías. „Ég bið þig að leyfa mér að fara héðan og til föður míns.“
10 Þá lét Ragúel svo vera og afhenti Tóbíasi Söru eiginkonu hans og helming allra eigna sinna: þjóna og þernur, kýr og kindur, asna og úlfalda, klæði, silfur og húsbúnað. 11 Hann óskaði þeim velfarnaðar, faðmaði Tóbías og sagði: „Far heill, drengur minn, far heill. Drottinn himinsins greiði götu þína og Söru konu þinnar og veiti mér að sjá börn ykkar áður en ég dey.“ 12 En við Söru dóttur sína sagði hann: „Farðu til tengdaforeldra þinna. Héðan í frá eru þeir foreldrar þínir eins og við sem eignuðumst þig. Far þú í friði, dóttir sæl. Megi ég alltaf heyra gott eitt af þér svo lengi sem ég lifi.“ Eftir þessa kveðju leyfði hann þeim að fara. En Edna sagði við Tóbías: „Barnið mitt og elskaði bróðir. Guð veri með þér og veiti mér að lifa það að líta börn þín og Söru dóttur minnar áður en ég dey. Fyrir augliti Drottins afhendi ég þér dóttur mína til varðveislu. Gerðu hana aldrei hrygga svo lengi sem þú lifir. Far þú í friði, barnið mitt. Héðan í frá er ég móðir þín og Sara systir þín. Mættum við öll fá að njóta sömu hamingju um alla ævidaga okkar.“ Hún kyssti þau bæði og óskaði þeim velfarnaðar.
13 Tóbías lagði af stað frá Ragúel sæll og glaður og lofaði Drottin himins og jarðar, konung alls, fyrir að hafa látið ferð hans heppnast. Og hann bað: „Veit mér, Drottinn, að heiðra tengdaforeldra mína svo lengi sem þeir lifa.“[