Ljósastikan
1 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 „Gefðu Ísraelsmönnum fyrirmæli um að færa þér hreina olíu úr steyttum ólífum fyrir ljósastikuna svo að á henni sé ávallt hægt að hafa lampa logandi. 3 Aron skal koma þeim fyrir framan við fortjaldið fyrir sáttmálstákninu í samfundatjaldinu. Á þeim skal stöðugt loga frammi fyrir augliti Drottins frá morgni til kvölds. Þetta er ævarandi regla sem gildir hjá ykkur frá kyni til kyns. 4 Aron skal alltaf sjá um lampana sem eru á gullljósastikunni frammi fyrir augliti Drottins.
Skoðunarbrauðin
5 Þú skalt taka fínt mjöl og baka úr því tólf kringlóttar brauðkökur. Hver kaka skal vera úr tveimur tíundu hlutum úr efu af fínu mjöli. 6 Þú skalt leggja kökurnar í tvo stafla, sex í hvorn, á gullborðið frammi fyrir augliti Drottins. 7 Þú skalt leggja hreint reykelsi ofan á hvorn stafla. Það skal vera minningarhluti fyrir kökurnar, eldfórn handa Drottni. 8 Hann skal raða þeim frammi fyrir augliti Drottins hvíldardag eftir hvíldardag. Það er ævinleg sáttmálsskuldbinding Ísraelsmanna. 9 Aron og synir hans skulu fá brauðið og þeir skulu neyta þess á helgum stað því að það er háheilagt. Hann fær það af eldfórnum Drottins, það er ævarandi lögbundinn réttur.“
Guðlast
10 Einhverju sinni gekk sonur ísraelskrar konu og egypsks manns um á meðal Ísraelsmanna. Þá hófust deilur milli sonar ísraelsku konunnar og ísraelsks manns í herbúðunum. 11 Sonur ísraelsku konunnar smánaði þá nafn Guðs og formælti og var leiddur fyrir Móse. Nafn móður hans var Selómít Díbrísdóttir af ættbálki Dans. 12 Hann var settur í varðhald þar til Móse kvað upp úrskurð fyrir Drottin.
13 Drottinn talaði við Móse og sagði:
14 „Leiddu manninn, sem formælti, út fyrir herbúðirnar. Því næst skulu allir, sem til hans heyrðu, leggja hönd sína á höfuð hans, síðan skal allur söfnuðurinn grýta hann. 15 Þá skaltu ávarpa Ísraelsmenn og segja: Hver sá sem formælir Guði sínum skal bera synd sína. 16 Hver sem smánar nafn Drottins skal tekinn af lífi, allur söfnuðurinn skal grýta hann. Hvort sem það er aðkomumaður eða innborinn, sem smánar nafnið, skal hann deyja. 17 Drepi maður mann skal hann tekinn af lífi. 18 Hver sem drepur skepnu skal bæta hana: Líf fyrir líf. 19 Þegar einhver maður veitir landa sínum áverka skal honum gert það sama og hann sjálfur gerði: 20 Beinbrot fyrir beinbrot, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn. Honum skal veittur sami áverki og hann veitti manninum. 21 Hver sem drepur skepnu skal bæta hana en hver sem drepur mann skal tekinn af lífi.
22 Sama réttarregla skal gilda fyrir ykkur, bæði fyrir aðkomumenn og innborna, því að ég, Drottinn, er Guð ykkar.“
23 Þegar Móse hafði sagt þetta við Ísraelsmenn leiddu þeir manninn, sem hafði formælt, út fyrir herbúðirnar og grýttu hann. Þannig gerðu Ísraelsmenn það sem Drottinn hafði boðið Móse.