Fyrirmæli um hátíðir

1 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 „Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu: Þetta eru hátíðir Drottins sem þið skuluð kunngjöra sem helgar samkomur. Þetta eru hátíðir mínar:

Hvíldardagurinn

3 Sex daga skal verk vinna en sjöunda daginn skal vera algjör hvíld, helg samkoma. Þá skal ekkert verk vinna. Þetta er hvíldardagur fyrir Drottin hvar sem þið búið.

Páskar og hátíð hinna ósýrðu brauða

4 Þetta eru hátíðir Drottins, heilagar samkomur, sem þið skuluð kunngjöra, hverja á sínum ákveðna tíma: 5 Fjórtánda dag fyrsta mánaðarins, í rökkrinu rétt fyrir sólsetur, eru páskar, Drottni til dýrðar. 6 Fimmtánda dag sama mánaðar er hátíð hinna ósýrðu brauða Drottni til dýrðar. Þá skuluð þið eta ósýrt brauð í sjö daga. 7 Fyrsta daginn skuluð þið halda heilaga samkomu. Þá skuluð þið ekkert verk vinna. 8 Þið skuluð færa Drottni eldfórnir í sjö daga. Sjöunda daginn skuluð þið halda heilaga samkomu. Þá skuluð þið ekkert verk vinna.“

Frumgróðinn

9 Drottinn talaði við Móse:
10 „Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu: Þegar þið komið inn í landið sem ég gef ykkur og skerið þar upp korn skuluð þið færa prestinum fyrsta kornknippið af uppskeru ykkar. 11 Hann skal veifa því frammi fyrir augliti Drottins svo að þið hljótið velþóknun hans. Daginn eftir hvíldardaginn skal presturinn veifa því.
12 Sama dag og þið veifið kornknippinu skuluð þið búa veturgamla sauðkind til brennifórnar handa Drottni. 13 Auk hennar skuluð þið færa í kornfórn tvo tíundu úr efu af fínu mjöli blönduðu olíu. Þetta er eldfórn, Drottni þekkur ilmur. Dreypifórn með henni skal vera fjórðungur úr hín af víni.
14 Þið skuluð hvorki eta brauð né ristað eða ferskt korn fyrr en daginn sem þið færið Guði ykkar þessa fórnargjöf. Þetta er ævarandi regla sem gildir fyrir ykkur, frá kyni til kyns, hvar sem þið búið.

Viknahátíðin

15 Þið skuluð telja sjö heilar vikur frá deginum eftir hvíldardaginn þegar þið veifuðuð kornknippinu. 16 Þið skuluð telja fimmtíu daga til dagsins eftir sjöunda hvíldardaginn. Þá skuluð þið færa Drottni nýja kornfórn. 17 Þið skuluð hafa með ykkur að heiman tvö brauð til að veifa í frumgróðafórn handa Drottni. Þau skulu bökuð úr súrdeigi úr tveimur tíundu hlutum úr efu af fínu mjöli. 18 Ásamt brauðinu skuluð þið færa fram sjö lýtalausar veturgamlar kindur, nautkálf eða uxa og tvo geithafra í brennifórn handa Drottni. Með þessum fórnum skal að auki færa kornfórn og dreypifórn. Þetta er eldfórn, Drottni þekkur ilmur.
19 Búið einnig geithafur til syndafórnar og tvær veturgamlar kindur til lokasláturfórnar. 20 Presturinn skal veifa þessu ásamt frumgróðabrauðinu frammi fyrir augliti Drottins. Þetta eru, ásamt báðum kindunum, heilagar gjafir til Drottins og koma í hlut prestsins.
21 Þennan sama dag skuluð þið boða til heilagrar samkomu. Þá megið þið ekki vinna. Þetta er ævarandi regla, sem gildir hvar sem þið búið, frá einni kynslóð til annarrar. 22 Er þið uppskerið jarðargróður ykkar þá skaltu ekki skera akur þinn út í hvert horn. Þú skalt ekki heldur tína afgang uppskeru þinnar en skilja hann eftir handa fátækum og útlendingum. Ég er Drottinn, Guð ykkar.“

Nýársdagur

23 Drottinn talaði við Móse og sagði:
24 „Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu: Fyrsta dag sjöunda mánaðarins skuluð þið halda helgihvíld, minningardag með hornablæstri, helga samkomu. 25 Þá skuluð þið ekkert verk vinna en færa Drottni eldfórn.“

Friðþægingardagurinn

26 Drottinn talaði við Móse og sagði:
27 „Á tíunda degi í þessum sama sjöunda mánuði er friðþægingardagurinn. Þá skuluð þið halda helga samkomu, leggja á ykkur líkamleg meinlæti og færa Drottni eldfórn. 28 Þennan dag skuluð þið ekkert verk vinna því að þetta er friðþægingardagur. Þá skal friðþægja fyrir ykkur frammi fyrir augliti Drottins, Guðs ykkar. 29 Hver sá sem leggur ekki á sig meinlæti þennan dag skal upprættur úr þjóð sinni. 30 Hvern þann sem verk vinnur þennan dag mun ég uppræta úr þjóð sinni. 31 Þið skuluð ekkert verk vinna. Það er ævarandi regla sem gildir fyrir ykkur frá kynslóð til kynslóðar hvar sem þið búið. 32 Þetta er algjör hvíldardagur fyrir ykkur og þá eigið þið að leggja meinlæti á líkama ykkar. Þið skuluð halda algjöra hvíld frá kvöldi níunda dags mánaðarins til kvöldsins eftir.“

Laufskálahátíðin

33 Drottinn talaði við Móse og sagði:
34 „Ávarpaðu Ísraelsmenn og segðu: Á fimmtánda degi í þessum sjöunda mánuði hefst laufskálahátíðin og stendur í sjö daga Drottni til dýrðar.
35 Fyrsta daginn er helg samkoma. Þá skuluð þið ekkert verk vinna. 36 Í sjö daga skuluð þið færa Drottni eldfórn. Áttunda daginn skuluð þið halda helga samkomu og færa Drottni eldfórn. Það er hátíðisdagur og þið skuluð ekkert verk vinna.
37 Þetta eru hátíðir Drottins sem þið skuluð boða sem daga ætlaða helgum samkomum. Þá skal færa Drottni eldfórnir, brennifórn, kornfórn, sláturfórn og dreypifórnir, hverja fórn á sínum degi. 38 Auk þess eru hvíldardagar Drottins og þar að auki gjafir ykkar, heitfórnir og sjálfviljafórnir sem þið færið Drottni.
39 Fimmtánda dag sjöunda mánaðarins, þegar þið flytjið afrakstur landsins heim, skuluð þið hefja hátíð Drottins sem skal standa sjö daga. Á fyrsta degi skal vera hvíld og einnig á áttunda degi. 40 Fyrsta daginn skuluð þið sækja ávexti af þroskamiklum trjám, pálmablöð, greinar af þéttlaufguðum trjám og pílviði. Síðan skuluð þið gleðjast frammi fyrir augliti Drottins, Guðs ykkar, sjö daga. 41 Þið skuluð halda þessa hátíð Drottni til dýrðar sjö daga hvert ár. Það skal vera ævarandi regla frá einni kynslóð til annarrar að halda þessa hátíð í sjöunda mánuðinum.
42 Þið skuluð búa í laufskálum sjö daga. Allir innbornir menn í Ísrael skulu búa í laufskálum 43 svo að niðjar ykkar fái að vita að ég lét ykkur búa í laufskálum þegar ég leiddi ykkur út úr Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð ykkar.“
44 Þannig skýrði Móse Ísraelsmönnum frá því hvenær hátíðir Drottins skyldu haldnar.