Útferð hjá körlum
1 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
2 „Ávarpið Ísraelsmenn og segið við þá: Þegar karlmaður hefur útferð úr kynfærum sínum er útferð hans óhrein. 3 Þannig er óhreinleikanum af útferð hans varið: Hvort sem útferð er úr kynfærum hans eða hún stíflar þau er það óhreinleiki hans.
4 Hvert það rúm, sem maður með útferð leggst í, verður óhreint og allt sem hann sest á verður óhreint. 5 Hver sem snertir rúm hans skal þvo klæði sín og baða sig í vatni. Hann er óhreinn til kvölds. 6 Hver sem sest á eitthvað sem maður með útferð hefur setið á skal þvo klæði sín og baða sig í vatni. Hann er óhreinn til kvölds. 7 Hver sem snertir kynfæri manns með útferð skal þvo klæði sín og baða sig í vatni. Hann er óhreinn til kvölds. 8 Þegar maður með útferð hrækir á hreinan mann skal sá þvo klæði sín og baða sig í vatni. Hann er óhreinn til kvölds.
9 Sérhver hnakkur sem maður með útferð hefur riðið í verður óhreinn. 10 Hver sem snertir eitthvað sem hefur verið undir manninum verður óhreinn til kvölds og sá sem tekur það upp skal þvo klæði sín og baða sig í vatni. Hann er óhreinn til kvölds. 11 Sérhver sem maður með útferð hefur snert án þess að skola hendur sínar úr vatni skal þvo klæði sín og baða sig í vatni. Hann er óhreinn til kvölds. 12 Sérhvert leirker, sem maður með útferð snertir, skal brjóta en sérhvert áhald úr tré skal skola rækilega úr vatni.
13 Þegar maður með útferð verður hreinn af útferðinni skal hann telja sjö daga frá því að hann varð hreinn. Þá skal hann þvo klæði sín og baða líkama sinn í vatni og verður hreinn. 14 Á áttunda degi skal hann taka tvær turtildúfur eða tvær dúfur, ganga fyrir auglit Drottins og færa þær presti við dyr samfundatjaldsins. 15 Presturinn skal færa aðra þeirra í syndafórn en hina í brennifórn. Þannig friðþægir presturinn fyrir manninn vegna útferðar hans, frammi fyrir augliti Drottins. 16 Þegar maður fær sáðlát skal hann baða allan líkama sinn í vatni og verður óhreinn til kvölds. 17 Sérhvert klæði og sérhver hlutur úr leðri, sem sæði kemur á, skal þvegið með vatni og vera óhreint til kvölds. 18 Leggist maður, sem lætur sæði, með konu skulu þau baða sig í vatni. Þau eru óhrein til kvölds.
Útferð hjá konum
19 Þegar kona fær útferð og blóð rennur úr kynfærum hennar verður hún óhrein af tíðum sínum í sjö daga. Hver sem snertir hana verður óhreinn til kvölds. 20 Allt sem hún leggst á meðan hún hefur tíðir verður óhreint og allt sem hún sest á verður óhreint. 21 Hver sem snertir rúm hennar skal þvo klæði sín og baða sig í vatni. Hann er óhreinn til kvölds. 22 Hver sem snertir einhvern hlut sem hún hefur setið á skal þvo klæði sín og baða sig í vatni. Hann er óhreinn til kvölds. 23 Ef eitthvað er á rúminu eða þeim hlut sem hún hefur setið á verður sá sem snertir það óhreinn til kvölds. 24 Leggist einhver með henni færist óhreinleiki tíða hennar yfir á hann. Hann er óhreinn í sjö daga. Hvert það rúm sem hann leggst í verður óhreint.
25 Þegar kona hefur á klæðum marga daga á öðrum tíma en þeim sem hún hefur tíðir eða hún hefur blæðingar lengur en venjulegar tíðir er hún óhrein á meðan blæðingarnar vara eins og þegar hún hefur tíðir. Hún er óhrein. 26 Hvert það rúm sem hún leggst í meðan hún hefur blæðingar verður eins og rúm hennar meðan hún hefur tíðir. Hver sá hlutur sem hún sest á verður óhreinn eins og af óhreinleika tíða hennar. 27 Hver sem snertir þessa hluti verður óhreinn. Hann skal þvo klæði sín og baða sig í vatni. Hann er óhreinn til kvölds. 28 Sé konan orðin hrein af útferðinni skal hún telja sjö daga, síðan er hún hrein. 29 Á áttunda degi skal hún taka tvær turtildúfur eða dúfur og færa þær presti við inngang samfundatjaldsins. 30 Presturinn skal færa aðra þeirra í syndafórn en hina í brennifórn. Þannig friðþægir presturinn fyrir konuna frammi fyrir augliti Drottins vegna óhreinnar útferðar hennar.
31 Þið skuluð vara Ísraelsmenn við óhreinleika sínum svo að þeir deyi ekki vegna óhreinleika síns af því að þeir óhreinka bústað minn sem er á meðal þeirra.“
32 Þetta eru lög um þann mann sem hefur útferð og þann sem fær sáðlát og verður óhreinn af 33 og um þá konu sem verður óhrein af tíðum sínum, lög um þann sem hefur útferð, hvort heldur það er karl eða kona, og um þann mann sem leggst með óhreinni konu.