1 Einhverju sinni tóku þeir Nadab og Abíhú, synir Arons, hvor sína reykelsispönnuna, létu eld í og lögðu reykelsi ofan á og báru óhreinan eld fram fyrir auglit Drottins sem hann hafði ekki boðið þeim að gera. 2 Þá gekk eldslogi út frá augliti Drottins og gleypti þá og þeir létu líf sitt frammi fyrir augliti Drottins.
3 Þá sagði Móse við Aron: „Nú er það komið fram sem Drottinn sagði:
Ég sýni heilagleika minn
þeim sem mér eru næstir,
birti dýrð mína
frammi fyrir allri þjóðinni.“
En Aron þagði við. 4 Þá kallaði Móse á Mísael og Elsafan, syni Ússíels, föðurbróður Arons, og sagði við þá: „Komið hingað og berið frændur ykkar burt frá helgidóminum út fyrir herbúðirnar.“ 5 Þeir komu og báru þá í kyrtlum sínum út fyrir herbúðirnar eins og Móse hafði lagt fyrir.
Reglur fyrir presta
6 Móse sagði við Aron og syni hans, Eleasar og Ítamar: „Látið höfuðhár ykkar ekki hanga laust og þið skuluð ekki rífa klæði ykkar því að þá deyið þið og Drottinn mun reiðast öllum söfnuðinum. Ættbræður ykkar, allir Ísraelsmenn, skulu gráta það bál sem Drottinn hefur kveikt. 7 Þið skuluð ekki víkja frá dyrum samfundatjaldsins því að þá deyið þið vegna þess að smurningarolía Drottins er á höfði ykkar.“ Þeir fylgdu fyrirmælum Móse.
8 Drottinn ávarpaði Aron og sagði:
9 „Þú og synir þínir skuluð hvorki drekka vín né áfengan drykk þegar þið gangið inn í samfundatjaldið því að þá deyið þið. Það skal vera ævarandi regla fyrir ykkur frá einni kynslóð til annarrar 10 að þið aðgreinið heilagt og vanheilagt, hreint og óhreint. 11 Þið skuluð kenna Ísraelsmönnum öll þau fyrirmæli sem Drottinn hefur gefið ykkur fyrir munn Móse.“
12 Móse sagði við Aron og þá syni hans sem enn voru á lífi, Eleasar og Ítamar:
„Takið kornfórnina, það sem hefur orðið eftir af eldfórnum Drottins, og etið hana ósýrða við hliðina á altarinu. Hún er háheilög 13 og þið skuluð neyta hennar á helgum stað því að hún er hluti þinn og hluti sona þinna af eldfórnum Drottins. Þetta hefur mér verið boðið.
14 Bringuna, sem var veifað, og lærið, sem var hlutdeild þín í fórninni, skaltu eta á hreinum stað ásamt sonum þínum og dætrum því að þetta er sá hluti heillafórna Ísraelsmanna sem þú og synir þínir eigið tilkall til. 15 Lærið og bringuna, sem veifa skal, skuluð þið bera fram ásamt mörnum til eldfórnarinnar. Þeim skal veifað frammi fyrir augliti Drottins. Síðan skuluð þú og synir þínir fá þessi stykki.
Það er ævarandi skyldugreiðsla eins og Drottinn hefur boðið.“
16 Þegar Móse leitaði að syndafórnarhafrinum var hann brunninn upp. Þá reiddist hann Eleasar og Ítamar, sonum Arons sem enn voru á lífi, og spurði: 17 „Hvers vegna neyttuð þið ekki syndafórnarinnar á helgum stað? Hún er háheilög og Drottinn hefur gefið ykkur hana til að afmá synd safnaðarins með því að friðþægja fyrir hann frammi fyrir augliti Drottins. 18 Blóð hennar hefur ekki verið borið inn í helgidóminn, þið áttuð að neyta hennar í helgidóminum eins og ég hafði boðið.“
19 Þá svaraði Aron Móse: „Í dag hafa þeir fært syndafórn sína og brennifórn frammi fyrir augliti Drottins og þá hendir þetta mig. Hefði það verið gott í augum Drottins ef ég hefði neytt syndafórnarinnar í dag?“ 20 Þetta svar féll Móse vel.