Bæn Salómons
1Guð feðranna og Drottinn miskunnarinnar,
þú sem hefur skapað allt með orði þínu
2 og gert manninn svo af speki þinni
að hann drottni yfir öllu, sem þú hefur skapað,
3 og stýri heiminum af heilagleik og réttlæti
og dæmi dóma af réttsýni.
4 Veit mér spekina, sem situr í hásæti þér við hlið,
og hrind mér eigi burt úr hópi þjóna þinna.
5 Ég er þjónn þinn og sonur ambáttar þinnar,
veill maður og skammær
og mig skortir skilning á lögum og rétti.
6 Enda þótt einhver sé fullkominn meðal manna
væri hann þó einskis verður án spekinnar frá þér.
7 Þú valdir mig konung lýðs þíns
og dómara sona þinna og dætra.
8 Þú bauðst mér að reisa musteri á þínu heilaga fjalli
og altari í borginni, þar sem þú dvelur,
ímynd tjaldbúðarinnar helgu sem þú lést gera í upphafi.
9 Hjá þér er spekin sem þekkir verkin þín
og var viðstödd þegar þú skapaðir heiminn
og veit hvað gleður augu þín
og hvað rétt er, samkvæmt boðum þínum.
10 Send þú hana frá heilögum himni
og lát hana koma frá dýrðarstóli þínum
og hjálpa mér í störfum mínum
svo að ég skynji hvað þér er þóknanlegt.
11 Því að hún veit og skilur allt
og mun leiða mig hyggilega í verkum mínum
og varðveita mig með dýrð sinni.
12 Þá verða verk mín þóknanleg þér
og ég mun stýra lýð þínum réttlátlega
og reynast verðugur hásætis föður míns.
13 Hver er sá maður sem þekkir ráð Guðs?
Hver getur ráðið í hvað Drottinn vill?
14 Hugsanir dauðlegra manna eru fánýtar
og fyrirætlanir vorar fallvaltar.
15 Forgengilegur líkaminn íþyngir sálinni,
jarðnesk tjaldbúðin er fjölsvinnum andanum byrði.
16 Naumlega ráðum vér í það sem á jörðu er
og með herkjum finnum vér það sem er innan seilingar.
Hver hefur kannað það sem er á himnum?
17 Hver hefur uppgötvað vilja þinn nema þú gæfir honum speki
og sendir honum heilagan anda þinn af hæðum?
18 Þannig urðu beinar brautir þeirra sem á jörðu búa
og mönnum lærðist hvað þér er þóknanlegt
og urðu hólpnir fyrir spekina.