Salómon lofsyngur spekina
1Ég er líka dauðlegur maður eins og allir aðrir,
niðji þess sem fyrstur var skapaður af jörðu.
Líkami minn mótaðist í móðurlífi
2 á tíu mánuðum. Ég varð til í blóði hennar
af sæði karls í unaðsvímu.
3 Þegar ég fæddist dró ég að mér sama loft og aðrir,
var lagður á sömu jörðina og ber alla menn.
Eins og hjá öllum öðrum var grátur fyrsta hljóðið
sem ég gaf frá mér.
4 Vafinn var ég reifum og að mér hlúð með umhyggju.
5 Ekki einu sinni konungur hefur hafið feril sinn á annan hátt.
6 Einn er vegur allra inn í lífið og söm er leiðin út.
7 Þess vegna bað ég Guð og hann gaf mér hyggindi.
Ég ákallaði Guð og andi spekinnar kom til mín.
8 Ég mat spekina meir en veldissprota og hásæti.
Ég hafði auðæfi að engu í samanburði við hana.
9 Enginn ómetanlegur eðalsteinn komst í samjöfnuð við hana
því að allt gull er hjá henni sem sandkorn
og silfur telst leir borið saman við hana.
10 Ég unni henni meir en heilbrigði og fegurð
og mat hana meir en dagsins ljós
því að skin hennar dvín aldrei.
11 Öll gæði komu til mín með henni
og óteljandi auðæfi voru í höndum hennar.
12 Allt veitti það mér gleði sem spekin færir
en ég vissi ekki að hún var líka upphaf þess.
13 Ég nam hana af heilum huga og miðla henni fúslega
en sting auðæfum hennar ekki undan.
14 Hún er mönnum óþrotlegur fjársjóður,
þeir sem færa sér hana í nyt öðlast vináttu Guðs.
Gjafirnar, sem fræðslan veitir þeim, staðfesta það.
Gjafir spekinnar
15Guð gefi mér að koma orðum að innsæi mínu,
að hugsun mín hæfi því sem mér er gefið.
Bæði er hann sá sem leiðir til speki
og leiðbeinir spekingum.
16 Í hendi hans erum vér og orð vor,
allt vort vit og verkleg mennt.
17 Sjálfur gaf hann mér óbrigðula þekkingu á öllu,
að þekkja byggingu heims og orku frumefnanna,
18 upphaf, endi og miðju tíðanna,
breytingu sólargangs og árstíðaskipti,
19 hringrás ársins og stöðu stjarna,
20 lífsháttu dýranna og æði villidýra,
kraft andanna og hugsanir manna,
tegundir jurtanna og undramátt róta.
21 Allt fékk ég að þekkja, bæði það sem hulið er og augljóst.
22 Spekin, sem allt hefur skapað, kenndi mér það.
Eðli spekinnar
Í henni býr andi, hann er vitur og heilagur,
einstakur, margþættur, fíngerður,
kvikur, skýr, flekklaus,
tær, ósæranlegur, góðfús, skarpur,
23 ómótstæðilegur, góðgjarn, ástúðlegur mönnum,
staðfastur, æðrulaus, öruggur,
almáttugur, alsjáandi
og streymir um alla anda,
hina vitrustu, hreinustu og fíngerðustu.
24 Spekin er kvikari en allt sem hrærist.
Hún er hrein og smýgur inn í allt og nær til alls.
25 Hún er andblær almáttugs Guðs
og streymir tær frá dýrð hins alvalda.
Þess vegna kemst ekkert óhreint að henni.
26 Hún er endurskin hins eilífa ljóss,
nákvæm eftirmynd verka Guðs
og ímynd gæsku hans.
27 Ein er hún en megnar allt,
er sjálfri sér söm en endurnýjar allt.
Hún býr sér stað í helgum sálum frá kyni til kyns
og mótar spámenn og vini Guðs.
28 Enda elskar Guð aðeins þann sem er samvistum við spekina.
29 Hún er dýrlegri en sólin og ber af hverri stjörnu.
Skin hennar er bjartara en dagsbirtan.
30 Því að nóttin tekur við af dagsbirtunni
en við spekinni má hið illa sín einskis.