Bæn Jesú Sírakssonar

1Þér vil ég þakka, Drottinn og konungur,
og lofa þig, Guð, frelsari minn.
Ég lofa nafn þitt.
2 Því að þú varst vörn mín og hjálp,
leystir mig frá glötun,
úr snöru rógstungunnar,
frá vörum þeirra er fóru með lygar.
Andspænis þeim er að mér réðust
varðst þú mér hjálp
3 og bjargaðir mér.
Það var sakir mikillar miskunnar þinnar og nafns þíns
að þú leystir mig úr gini þeirra sem gleypa mig,
úr höndum þeirra er sátu um líf mitt,
úr fjölda nauða sem mig rak í.
4 Þú bjargaðir mér úr kæfandi eldkófi er lukti um mig,
úr eldslogum sem ég hafði eigi kveikt,
5 úr hyldýpi heljar,
frá óhreinum tungum og upplognum sökum
6 og frá örvum ranglátra tungna.
Ég var að dauða kominn
og rétt að ganga til heljar niður.
7 Að mér var sótt úr öllum áttum, enga var hjálp að fá.
Ég svipaðist um eftir mannlegri hjálp
en hana var hvergi að finna.
8 Þá minntist ég miskunnar þinnar, Drottinn,
þeirrar gæsku sem þú hefur auðsýnt að eilífu,
að þú bjargar þeim er bíða þín þolgóðir
og frelsar þá úr óvina höndum.
9 Ég hóf upp grátbeiðni mína af jörðu
og ákallaði um hjálp frá dauða.
10 Ég ákallaði Drottin, föður Drottins míns:
„Yfirgef mig eigi á neyðarstundu
er ég stend hjálparvana andspænis hrokafullum.
11 Þá mun ég lofa nafn þitt án afláts,
syngja þér lofsöng og þakkargjörð.“
Bæn mín var heyrð,
12 þú frelsaðir mig frá glötun,
bjargaðir mér á hörmungadegi.
Þess vegna vil ég þakka þér og lofa þig
og vegsama nafn Drottins.
1) Þakkið Drottni því að hann er góður [
og miskunn hans varir að eilífu.
2) Þakkið Drottni lofsöngvanna
því að miskunn hans varir að eilífu.
3) Þakkið verndara Ísraels
því að miskunn hans varir að eilífu.
4) Þakkið skapara alls
því að miskunn hans varir að eilífu.
5) Þakkið endurlausnara Ísraels
því að miskunn hans varir að eilífu.
6) Þakkið honum sem safnar dreifðum Ísraelsmönnum
því að miskunn hans varir að eilífu.
7) Þakkið honum sem endurreisir borg sína og helgidóm
því að miskunn hans varir að eilífu.
8) Þakkið honum sem eykur mátt Davíðs ættar
því að miskunn hans varir að eilífu.
9) Þakkið honum sem velur syni Sadóks til prestsþjónustu
því að miskunn hans varir að eilífu.
10) Þakkið skildi Abrahams
því að miskunn hans varir að eilífu.
11) Þakkið bjargi Ísaks
því að miskunn hans varir að eilífu.
12) Þakkið mætti Jakobs
því að miskunn hans varir að eilífu.
13) Þakkið honum sem útvaldi Síon
því að miskunn hans varir að eilífu.
14) Þakkið konunginum, konungi konunganna,
því að miskunn hans varir að eilífu.
15) Hann hefur aukið mátt þjóðar sinnar
sem er lofgjörðarefni öllum guðhræddum,
börnum Ísraels sem standa honum nærri.
Hallelúja.
13 Er ég var ungur, áður en ég tók að ferðast,
sóttist ég opinskátt eftir speki í bænum mínum.
14 Ég bað um að hljóta speki frammi fyrir musterinu,
til hinstu andrár mun ég sækjast eftir henni.
15 Frá blómstrun, uns þrúgan var þroskuð orðin,
hlaut hjarta mitt fögnuð af henni. [
Ég beindi sporum mínum á réttar brautir,
fetaði veg spekinnar frá æsku.
16 Um stund hneigði ég eyra að og þáði,
mikil uppfræðsla reyndist mér það.
17 Spekin varð mér til þroska,
ég vil heiðra þann sem gaf mér hana.
18 Enda ásetti ég mér að iðka spekina,
kostaði ákaft kapps um hið góða,
ég mun aldrei til skammar verða.
19 Sál mín tókst mjög á við spekina,
í engu breytti ég út af boðum lögmálsins.
Ég hóf upp hendur mínar til hæða
og hugleiddi hve hún var mér fjarri. [
20 Ég beindi óskiptum huga að henni,
sakir hreinleika míns fann ég síðan spekina.
Leiðsögn hennar veitti mér skilning frá fyrsta fari,
því mun ég aldrei yfirgefinn.
21 Ég var órór hið innra við að leita hennar
en öðlaðist ágætustu eign.
22 Drottinn launaði mér með orðsnilld,
með henni vil ég syngja Drottni lof.
23 Komið til mín, ófróðu menn,
dveljið í menntahúsi.
24 Hví brestur yður enn í þessu,
hví eru sálir yðar sárþyrstar?
25 Ég hef lokið upp munni og talað,
nú skuluð þér þiggja án endurgjalds.
26 Beygið háls yðar undir okið
og sál yðar mun hljóta fræðslu.
Hennar er eigi langt að leita.
27 Sjáið með eigin augum. Lítt þurfti ég að strita,
en mikinn frið hef ég fundið.
28 Gefið gjarnan gnótt silfurs fyrir fræðslu,
hún mun afla yður mikils gulls.
29 Megi sálir yðar gleðjast af miskunn Drottins
og þér aldrei blygðast yðar fyrir að syngja honum lof.
30 Vinnið verk yðar meðan enn er tími.
Hann launar yður þegar tími hans kemur.