Natan
1Eftir Samúel kom Natan fram,
hann var spámaður á dögum Davíðs.
Davíð
2Eins og feitin er skilin frá heillafórn
var Davíð tekinn úr hópi Ísraelsmanna.
3 Hann lék við ljón eins og kiðlingar væru
og birni líkt og lömb.
4 Á æskuárum drap hann risann
og afmáði skömm þjóðar sinnar
er hann hóf upp arminn með stein í slöngvu
og felldi Golíat sem gortaði sífellt.
5 Enda ákallaði hann Drottin, Hinn hæsta,
sem gæddi hægri hönd hans mætti
til að leggja að velli hinn vígfima mann
og auka mátt þjóðar sinnar.
6 Því var hann vegsamaður fyrir að sigra tíu þúsund,
hann var lofaður af því að Drottinn blessaði hann
og veitti honum að bera hina veglegu kórónu.
7 Því að hann gjörsigraði óvinina allt um kring,
eyddi Filisteum, andstæðingum sínum,
sem brotnir eru á bak aftur allt til þessa.
8 Í öllu sem hann gerði færði hann Drottni þakkir,
vegsamaði í orðum Hinn heilaga og hæsta,
söng honum lof af heilu hjarta
og elskaði skapara sinn.
9 Hann setti söngvara til altarisþjónustu
sem sætlega sungu hin fegurstu lög.
Dag hvern skyldu þeir syngja Drottni lof með söngvum sínum. [
10 Hann jók mjög tign hátíðanna
og kom skipan á helgidagana um alla framtíð.
Á þeim skal heilagt nafn Drottins lofað,
helgidómurinn óma af lofsöng frá morgunsári.
11 Drottinn fyrirgaf honum syndirnar
og staðfesti vald hans um aldir,
gerði sáttmála við hann um konungdæmið
og gaf honum dýrlegt hásæti í Ísrael.
Salómon
12Eftir hann kom hans vitri sonur
sem sakir föður síns ríkti yfir víðlendu ríki.
13 Meðan Salómon stjórnaði var friður
sem Guð tryggði við öll landamærin.
Síðan reisti hann hús til dýrðar nafni Drottins,
helgidóm er að eilífu stæði.
14 Hve vitur varst þú á æskuárum,
fullur speki eins og fljót í vexti.
15 Andríki þitt þakti alla jörð,
þú fylltir hana af orðskviðum og gátum.
16 Orðstír þinn barst til fjarlægustu eyja,
þú varst elskaður fyrir friðarríki þitt.
17 Þú varst dáður víða um lönd fyrir söngva þína,
orðskviði, dæmisögur og túlkun þeirra.
18 Í nafni Drottins, Guðs,
sem er nefndur Ísraels Guð,
safnaðir þú gulli sem væri það tin,
hrúgaðir upp silfri eins og það væri blý.
19 En þú gerðist um of gjarn til kvenna,
þær náðu valdi á þér sakir líkama þíns.
20 Þú felldir flekki á orðstír þinn,
vanvirtir niðja þína
og leiddir reiðina yfir börn þín
sem máttu hryggjast yfir heimsku þinni.
21 Konungdæmið klofnaði í tvennt,
úr Efraím reis ríki í uppreisn.
22 En Drottinn lætur eigi af miskunn sinni,
ekki mun heldur neitt orð hans bregðast.
Niðja síns útvalda upprætir hann ekki
né afmáir afkomendur þess sem elskar hann.
Jakobi lét hann eftir leifð,
lét spretta upp kvist af rót Davíðs.
Rehabeam og Jeróbóam
23 Salómon lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum
og eftirlét þjóðinni einn af sonum sínum,
heimskingjann Rehabeam sem var fávís úr hófi.
Ákvarðanir hans gerðu þjóðina fráhverfa honum.
Jeróbóam Nebatsson kom Ísrael síðan til að syndga,
leiddi Efraím inn á brautir syndar.
24 Syndir Ísraelsmanna jukust stórum
uns þeir voru hraktir frá landi sínu.
25 Þeir lögðu stund á hvers kyns illa breytni
uns hefndin kom yfir þá.