Móse
Af kyni hans lét Drottinn koma mann sem naut náðar
og var öllum mönnum þekkur,
1 elskaður bæði af Guði og mönnum.
Það var Móse, blessuð sé minning hans.
2 Drottinn veitti honum dýrð hinna heilögu,
gæddi hann slíkum mætti að óvinir skelfdust.
3 Hann lét máttarverk fylgja orðum hans
og gerði hann vegsamlegan í augsýn konunga.
Hann fékk honum boðorð að færa þjóð sinni
og sýndi honum blik af dýrð sinni.
4 Drottinn helgaði hann vegna trúar hans og hógværðar,
útvaldi hann af öllu mannkyni.
5 Drottinn lét hann heyra raust sína,
leiddi hann inn í dimmt ský,
gaf Móse boðorðin augliti til auglitis,
lögmál lífsins og þekkingarinnar,
svo að hann mætti kenna Jakobi sáttmálann
og Ísrael ákvæði hans.
Aron
6Drottinn hóf upp Aron, helgan mann, Móse líkan,
bróður hans af ætt Leví.
7 Hann gerði eilífan sáttmála við hann,
veitti honum prestdóm þjóðarinnar
og heiðraði hann með skarti.
Sveipaði hann dýrlegum skrúða
8 og færði hann í æðstu tákn tignar,
krýndi Aron auðkennum máttar:
buxum, kyrtli og hökli.
9 Faldurinn var allur búinn granateplum
og fjöldi gullbjallna allt um kring
sem gullu við hvert fótmál hans
svo að undir tók í musterinu,
til áminningar allri þjóð hans.
10 Það var helgur skrúði af gulli og bláum purpura
sem og rauðum, verk listamanns.
Á honum voru dómshlutirnir, hið heilaga hlutkesti.
Skrúðinn var ofinn úr skarlati af hagleiksmanni,
11 settur gimsteinum er voru grafnir sem innsigli
og greyptir í gull af skartgripasmið.
Áletranirnar skyldu vera til áminningar,
jafnmargar og ættkvíslir Ísraels.
12 Vefjarhötturinn var með ennishlað úr gulli,
með áletrun er staðfesti heilagleika prestsins,
tákn æðstu vegsemdar, verk sem máttur fylgdi,
allt yndi augum, hið fegursta verk.
13 Fyrir tíma Arons var aldrei neitt til þessu líkt,
um eilífð mun ekki neinn honum óskyldur bera slíkt
heldur aðeins synir Arons
og afkomendur hans frá kyni til kyns.
14 Fórnir hans skulu brenndar að fullu,
bornar fram tvisvar á dag um framtíð alla.
15 Móse fyllti hendur Arons,
smurði hann með helgri olíu.
Eilífur sáttmáli var gerður við hann
og við niðja hans svo lengi sem himinninn stendur:
Að þjóna Drottni og vera prestar hans
og blessa lýð hans í nafni Drottins.
16 Drottinn valdi hann af öllu mannkyni
til að bera fram fórn,
reykelsi og angan sem minningarfórn,
og til að færa friðþægingarfórn fyrir lýðinn.
17 Drottinn fól honum boðorð sín
og úrskurðarvald í dómsmálum,
einnig að kenna Jakobi sáttmálstáknið
og upplýsa Ísrael um lögmál sitt.
18 Menn af annarri ætt gerðu samsæri gegn Aroni,
fylltust öfund í eyðimörkinni,
menn af flokki Datans og Abírams
og söfnuður Kóra, allir ævareiðir.
19 Drottinn sá það og var misboðið
og eyddi þeim í brennandi heift.
Hann lét undur verða á þeim
og eyddi þeim í bálandi eldi.
20 En heiður Arons jók hann enn,
veitti honum réttindi sem gengu í arf.
Frumgróðafórnin varð hlutdeild hans
en framar öllu brauð honum til viðurværis.
21 Enda mega prestarnir neyta af fórnum Drottins,
það var veitt Aroni og niðjum hans.
22 En í landi lýðsins á hann engan arfshlut,
enga hlutdeild með þjóðinni í eign hennar,
enda var honum heitið: Drottinn er hlutskipti þitt og óðal.
Pínehas
23 Pínehas Eleasarsson varð sá þriðji að tign
er hann sýndi heilaga ákefð í guðsótta
og var staðfastur þegar lýðurinn féll frá
sakir hugmóðs síns og hjartaprýði.
Hann friðþægði fyrir Ísrael.
24 Því gerði Drottinn friðarsáttmála við hann,
að hann réði helgidóminum og lýð hans
svo að sjálfur hann og einnig niðjar hans
hefðu tign æðstaprestdómsins um aldur og ævi.
25 Einnig var sáttmáli gerður við Davíð,
son Ísaí af ættkvísl Júda.
Konungdómur erfist aðeins frá syni til sonar
en arfur Arons gengur til allra niðja hans.
26 Megi Drottinn veita hjörtum yðar speki
og láta yður stjórna lýð hans með réttlæti
svo að hagur hans fari hvorki forgörðum
né vegsemd hans hjá óbornum kynslóðum.