1Sá er lögmálið heldur færir ríkulega fórn,
2sá færir friðarfórn sem hlýðir boðorðunum.
3 Að gjalda gott með góðu er eins og að færa matfórn,
4 sá sem gerir góðverk færir þakkarfórn.
5 Velþóknun Drottins hlýtur sá er heldur sig frá illu,
að forðast ranglæti er sem friðþæging.
6 Kom ei tómhentur fram fyrir Drottin,
7 að gera allt þetta er að hlýða boðorðum.
8 Fórn réttláts manns auðgar altarið,
ilmur hennar berst Hinum hæsta.
9 Fórn réttláts manns er Drottni þekk,
minning hennar mun ekki fyrnast.
10 Ver örlátur er þú vegsamar Drottin,
sker ei frumgróðafórn þína við nögl.
11 Fær allar gjafir hýr í bragði
og gjald tíund þína glaður í sinni.
12 Gef Hinum hæsta eins og hann gaf þér,
örlátlega og eftir efnum þínum.
13 Því að hann er Drottinn sem endurgeldur
og umbunar þér sjöfalt.
Um réttlæti Guðs
14Fær Drottni eigi mútur, hann þiggur þær ekki,
15 reið þig eigi á fórnargjöf af ranglega fengnu.
Drottinn er sá sem dæmir,
engin hlutdrægni verður hjá honum fundin.
16 Ekki hallar hann máli öreigans,
hann heyrir bæn þess sem beittur er rangsleitni.
17 Hann daufheyrist hvorki við grátbeiðni föðurleysingjans
né ekkjunnar er hún úthellir bænarorðum.
18 Renna eigi tár um vanga ekkjunnar,
19 hrópa þau ekki gegn þeim er þeim ollu?
20 Sá er þekkur Drottni sem þjónar honum,
bæn hans berst til skýjanna.
21 Bæn auðmjúks manns fer skýjum ofar,
hann huggast eigi fyrr en hún nær marki
og hættir ekki að biðja fyrr en Hinn hæsti vitjar hans
22 og kveður upp dóm og dæmir réttvíslega.
Drottni mun eigi heldur dveljast
eða láta þá bíða of lengi
uns hann brýtur bak miskunnarlausra,
23 veitir heiðingjum réttláta refsingu,
afmáir alla hrokafulla
og brýtur veldissprota ranglátra,
24 uns hann geldur mönnum gjörðir þeirra
og refsar þeim fyrir áform þeirra,
25 uns hann rekur réttar lýðs síns
og gleður hann með miskunn sinni.
26 Undursamleg er náð hans á neyðartímum,
eins og skúraský á þurrkatíð.