Spekin lofar sig

1Spekin lofar sjálfa sig,
vegsamar sig meðal lýðs síns.
2 Hún lýkur upp munni í söfnuði Hins hæsta,
hrósar sér frammi fyrir herskörum hans:
3 „Ég gekk fram af munni Hins hæsta,
þakti jörðina líkt og mistur.
4 Ég tók mér bústað í hæstu hæðum
og hásæti mitt hvílir á skýjastólpa.
5 Ég fór ein um hvelfingu himins
og um undirdjúpin fór ég einnig.
6 Yfir bylgjum hafsins og jörðu allri,
meðal allra lýða og þjóða hlaut ég völd.
7 Hjá þeim öllum leitaði ég mér hvíldarstaðar,
í arfleifð hvers mundi ég dvalarstað hljóta?
8 Þá bauð mér sá sem allt hefur skapað,
skapari minn valdi tjaldi mínu stað.
Hann sagði: „Í landi Jakobs skaltu setja upp búðir
og eignast arfleifð hjá Ísraelsmönnum.“
9 Í eilífðinni, fyrir upphaf tíma, skóp hann mig,
um eilífð mun ég einnig vara.
10 Ég þjónaði Drottni í helgri tjaldbúð,
settist síðan að á Síon.
11 Í borginni, sem hann elskar, fékk hann mér bústað,
í Jerúsalem hef ég völd.
12 Ég festi rætur hjá frægri þjóð
og hlaut eign í arfleifð Drottins.
13 Ég óx upp sem sedrusviður á Líbanon,
eins og kýprustré á Hermonfjalli.
14 Ég hækkaði eins og pálmi í En Gedí,
lík rósarunna í Jeríkó,
eins og fagurt ólífutré á sléttunni
og óx upp sem hlynur.
15 Af mér lagði angan líkt og af kanel og ilmviði,
sætan ilm eins og af valinni myrru
og galban, ilmkvoðu og marnögl,
eins og af reykelsisilmi sáttmálatjaldsins.
16 Ég teygði út greinar líkt og eikartré
og greinar mínar eru glæstar og fagrar.
17 Ég blómgaðist fagurlega eins og vínviðarrunni
og blóm mín báru ríkulega, dýrlega ávexti.
18 Ég er móðir fagurs kærleika,
guðsótta, þekkingar og heilagrar vonar.
Ég er eilíf og gefin öllum börnum mínum,
öllum sem eru nefnd af Drottni. [
19 Komið til mín, þér sem þráið mig,
mettið yður af aldinum mínum.
20 Að minnast mín er sætara en hunang,
að eiga mig tekur sætleik hunangsköku fram.
21 Þá sem neyta mín hungrar í meira
og þá sem ég svala mun þyrsta í meir.
22 Sá sem hlýðir mér verður ei til skammar,
þeir sem starfa með mér munu ei syndga.“

Spekin og lögmálið

23 Allt þetta er að finna í sáttmálsbók Guðs Hins hæsta,
lögmálinu sem Móse bauð oss að hlýða
og veitti söfnuðum Jakobs í arf.
24 Verið ávallt styrkir í Drottni,
haldið yður við hann, þá getur hann styrkt yður.
Drottinn einn, Hinn almáttugi, er Guð
og enginn frelsari nema hann einn. [
25 Lögmálið er bakkafullt af speki eins og Písonfljót,
líkt Tígris á tíma frumgróðans.
26 Það vellur fram með visku eins og Efrat,
líkt og Jórdan á uppskerutíð.
27 Það lætur kenningu sína flæða sem ljós,
líkt og Gíhon um vínuppskeru.
28 Sá fyrsti sem spekinni kynntist varð eigi fullnuma,
né heldur mun hinum síðasta auðnast það fremur.
29 Enda er hugsun hennar víðari en víddir hafsins
og ráð hennar dýpri en undirdjúpin.
30 Sjálfur er ég líkur árkvísl,
áveituskurði er í aldingarð liggur.
31 Ég sagði: „Ég ætla að vökva garð minn,
veita vatni á beð mín.“
En árkvísl mín varð að fljóti
og fljótið síðan að úthafi.
32 Enn læt ég kenningu mína ljóma sem árroða
og læt hana lýsa langt út í fjarska.
33 Sem spámaður mun ég úthella fræðslu
og eftirláta hana öllum óbornum.
34 Þér skuluð vita að ég hef ekki erfiðað í eigin þágu
heldur fyrir þá alla sem leita spekinnar.