1Drottinn skapaði manninn af moldu
og lætur hann hverfa aftur til jarðar.
2 Hann markaði mönnum daga og æviskeið
og gaf þeim vald yfir öllu á jörðu.
3 Hann veitti þeim hlutdeild í mætti sínum
og skapaði þá í sinni mynd.
4 Hann lét allt sem lifir hafa beyg af mönnum
og lét þá drottna yfir dýrum og fuglum. [
6 Skynsemi gaf hann þeim, tungu og augu,
eyru og hjarta svo að þeir mættu hugsa.
7 Drottinn fyllti þá þekkingu og skilningi
og kenndi þeim að greina gott og illt.
8 Hann fyllti hjarta þeirra guðsótta
svo að þeir sæju máttug verk hans.
9/10 Þeir skulu vegsama hans heilaga nafn
og boða máttarverk hans.
11 Hann veitti mönnum kost á þekkingu,
gaf þeim lögmálið sem leiðir til lífs.
12 Hann gerði við þá eilífan sáttmála
og kunngjörði þeim boðorð sín.
13 Augu þeirra litu máttuga vegsemd hans
og eyru þeirra námu dýrlega rödd hans.
14 Hann sagði við þá: „Forðist allt ranglæti,“
og bauð sérhverjum hvernig breyta skyldi við náungann.
Guð dæmir
15 Vegir manna blasa ávallt við Drottni,
þeir geta aldrei dulist sjónum hans.
16 Þeir feta veg illskunnar frá æsku
og megna ekki að breyta steinhjörtum sínum í hjörtu af holdi.
17 Þegar hann skipti þjóðum gjörvallrar jarðar [
setti hann sérhverri þjóð leiðtoga
en Ísrael er eign Drottins.
18 Hann er frumburður hans og agar hann,
gefur honum ljós kærleika síns og afrækir hann ekki. [
19 Öll verk manna eru honum svo augljós sem sólin,
án afláts hvíla augu hans á vegum þeirra.
20 Rangindi þeirra eru ekki hulin Drottni,
syndir þeirra allar blasa við honum.
21 Drottinn er góður og þekkir þá sem hann skóp,
hann sleppir þeim ekki, svíkur þá ekki, heldur miskunnar þeim. [
22 Drottinn metur miskunnsemi manns sem innsiglishring,
hann gætir góðvildar manns sem sjáaldurs augans.
23 Síðar mun hann rísa upp og endurgjalda þeim,
láta þeim misgjörðir í koll koma.
24 En þeim sem iðrast tekur hann aftur við
og hughreystir þá sem eru að missa móðinn.
Hvatning til iðrunar
25 Snú þér til Drottins og lát af syndum,
bið frammi fyrir honum og minnka misgjörðir.
26 Snú aftur til Hins hæsta og hverf frá ranglæti
og hata ákaft alla viðurstyggð.
Hann mun sjálfur leiða þig til ljóss síns sem læknar. [
27 Hver lofsyngur Hinum hæsta í helju,
hver mun flytja lofgjörð í lifenda stað?
28 Sá sem deyr fyrirfinnst ei framar,
lofgjörð hans hljóðnar,
sá sem á líf og heilsu syngi Drottni lof.
29 Hve mikil er miskunn Drottins
og mildi hans við þá er til hans snúa.
30 Eigi er allt á valdi mannsins,
mannanna börn eru eigi ódauðleg.
31 Hvað ljómar bjartar sólu?
Og jafnvel hún myrkvast.
Ill er hyggja holds og blóðs.
32 Drottinn hefur yfirsýn yfir hersveitir hæsta himins
en allir menn eru mold og aska.