1Gæt að hverjum þú gerir gott,
þá munt þú hljóta þakkir fyrir góðverk.
2 Gjör guðhræddum manni gott og þér mun það endurgoldið,
ef ekki af honum þá af Hinum hæsta.
3 Ekkert gott mun sá hljóta
sem stöðugt aðhefst illt
og engin góðverk gerir.
4 Gef þú guðhræddum
en tak syndara eigi að þér.
5 Vertu hjálpsamur við auðmjúka
en gef guðlausum ekkert,
synja honum um mat og gef honum ekkert
svo að hann reynist þér ekki yfirsterkari.
Því að þú færð sérhvað gott sem þú gerir honum
tvöfalt endurgoldið með illu.
6 Hinn hæsti hatar syndara einnig
og guðlausum mun hann refsa.
7 Ver gjafmildur góðum
en annastu ekki syndarann.
8 Ekki má vin reyna meðan vel gengur
en óvinur dylst eigi er illa vegnar.
9 Þegar allt gengur manni í hag hryggjast óvinir hans,
gangi honum allt öndvert víkur vinur jafnvel frá.
10 Treystu aldrei óvini,
illska hans er sem tæring í bronsi.
11 Þótt hann sé auðmýktin ein og gangi álútur
skaltu vera á varðbergi og varast hann.
Þú skalt fara með hann eins og þegar bronsspegill er fægður,
þá kemstu að hvað undir tæringunni er.
12 Hleyp honum ekki að hlið þér
svo að hann steypi þér ekki og taki stöðu þína.
Set hann eigi þér til hægri handar,
ella mun hann reyna að hreppa sæti þitt.
Að lokum kemstu að raun um hvað ég á við
og minnist með angri aðvarana minna.
13 Hver aumkar slöngutemjara sem bitinn er
eða þann sem fer of nærri villidýrum?
14 Sama má segja um þann
sem leggur lag sitt við syndara
og tekur þátt í syndum hans.
15 Hann mun standa með þér um sinn
en bregðast ef á bjátar hjá þér.
16 Um varir óvinar fer fagurgali
en í hjarta sínu leggur hann gildru fyrir þig.
Í augsýn þinni fellir óvinur tár
en fái hann færi slekkur ekkert blóðþorsta hans.
17 Ratir þú í ógæfu muntu finna hann þar fyrri þér,
hann læst hjálpa en bregður fyrir þig fæti.
18 Hann mun hrista höfuðið og núa saman lófum,
breiða út óhróður um þig
og sýna nú sitt rétta andlit.
Síraksbók 12. kafliHið íslenska biblíufélag2017-12-30T21:05:00+00:00
Síraksbók 12. kafli
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.