Davíð konungur
Davíð konungur í Júda
1 Nokkru síðar leitaði Davíð svara hjá Drottni og spurði: „Á ég að fara til einhverrar borgar í Júda?“ Drottinn svaraði: „Já, far þú.“ Þá spurði Davíð: „Hvert á ég að fara?“ „Til Hebron,“ svaraði hann.
2 Davíð fór þá þangað ásamt báðum konum sínum, Akínóam frá Jesreel og Abígail sem áður hafði verið eiginkona Nabals frá Karmel. 3 Davíð tók einnig með sér mennina, sem höfðu fylgt honum, og fjölskyldur þeirra og þeir settust að í borgunum umhverfis Hebron. 4 Síðan komu Júdamenn og smurðu Davíð til konungs yfir ættkvísl Júda.
Þegar Davíð var sagt frá því að íbúar Jabes í Gíleað hefðu grafið Sál 5 sendi hann boðbera til Jabes í Gíleað og lét skila til íbúanna: „Drottinn blessi ykkur fyrir að sýna Sál, herra ykkar, þá tryggð að grafa hann. 6 Megi Drottinn nú auðsýna ykkur náð og trúfesti. Ég mun einnig launa ykkur fyrir að gera þetta. 7 Verið nú djarfir og hraustir. Sál, herra ykkar, er að vísu dáinn en Júdaættkvísl hefur smurt mig til konungs.“
Ísbóset konungur í Norðurríkinu (Ísrael)
8 Abner Nersson, sem fyrrum var hershöfðingi Sáls, hafði sótt Ísbóset, son Sáls, og farið með hann til Mahanaím 9 og gert hann að konungi yfir Gíleað, Aser, Jesreel, Efraím, Benjamín og öllum Ísrael. 10 Ísbóset, sonur Sáls, var fertugur þegar hann varð konungur yfir Ísrael og ríkti tvö ár. Aðeins Júdaættkvísl studdi Davíð. 11 Davíð var konungur í Hebron sjö ár og sex mánuði.
Ófriður milli Ísraels og Júda
12 Abner Nersson hélt frá Mahanaím til Gíbeon ásamt mönnum Ísbósets, sonar Sáls. 13 En Jóab Serújuson og menn Davíðs höfðu einnig haldið af stað og mættu þeir þeim við tjörnina í Gíbeon. Flokkarnir komu sér fyrir beggja vegna tjarnarinnar.
14 Þá sagði Abner við Jóab: „Við skulum láta nýliðana ganga fram fyrir okkur og reyna með sér,“ og samsinnti Jóab því. 15 Þá risu á fætur og gengu fram rétt taldir tólf menn fyrir Benjamín og Ísbóset, son Sáls, og tólf af mönnum Davíðs. 16 Síðan þreif hver þeirra í höfuð andstæðings síns og rak sverð sitt í síðu hans svo að báðir féllu. Þess vegna var þessi staður, sem er við Gíbeon, nefndur Brandaakur. 17 Dag þennan börðust liðin af hörku og fóru Abner og hermenn Ísraels halloka fyrir mönnum Davíðs.
18 Þar voru þrír synir Serúju, Jóab, Abísaí og Asael. Asael var fótfrár eins og gasella á víðavangi. 19 Hann hljóp nú á eftir Abner og vék hvorki til hægri né vinstri heldur elti Abner einan. 20 Abner sneri sér þá við og spurði: „Ert þetta þú, Asael?“ Hann játti því. 21 Þá sagði Abner: „Snúðu þér heldur annaðhvort til hægri eða vinstri, gríptu einhvern af ungu hermönnunum og taktu af honum brynjuna.“ En Asael vildi ekki hætta eftirförinni. 22 Þá sagði Abner aftur við Asael: „Hættu að elta mig. Hvers vegna ætti ég að höggva þig? Hvernig ætti ég þá að geta litið framan í Jóab, bróður þinn?“ 23 En þegar hann vildi ekki hætta rak Abner spjótskaft sitt í kvið hans svo að það gekk út um bakið. Hann féll þegar dauður niður. Allir, sem komu þangað sem Asael hafði fallið, námu staðar 24 en Jóab og Abísaí tóku nú að elta Abner. Þegar sólin var gengin til viðar voru þeir komnir að Ammahæð gegnt Gíak, við veginn út í eyðimörkina við Gíbeon. 25 Þá söfnuðust Benjamínítar að baki Abners, mynduðu þétta fylkingu og tóku sér stöðu efst á hæð einni.
26 Síðan hrópaði Abner til Jóabs og sagði: „Á endalaust að fóðra sverðið? Skilurðu ekki að endalokin verða bitur? Hversu lengi ætlar þú að láta dragast að skipa mönnum þínum að hætta að elta bræður sína?“ 27 Jóab svaraði: „Svo sannarlega sem Guð lifir hefði herinn ekki hætt að elta bræður sína fyrr en á morgun ef þú hefðir ekki sagt þetta.“ 28 Því næst þeytti Jóab hafurshornið, herinn nam staðar, hætti að elta Ísrael og lagði niður vopnin. 29 Abner og menn hans gengu alla nóttina eftir Jórdanardalnum, fóru yfir Jórdan, gengu um Bítrón og komu loks heim til Mahanaím.
30 Þegar Jóab hætti að elta Abner safnaði hann hernum saman. Þá vantaði nítján af mönnum Davíðs fyrir utan Asael 31 en menn Davíðs höfðu fellt þrjú hundruð og sextíu af Benjamínítum, af mönnum Abners. 32 Þeir tóku Asael með sér og lögðu hann í gröf föður síns í Betlehem. Síðan gengu Jóab og menn hans alla nóttina og komu til Hebron í birtingu.