Drottningin af Saba
1 Drottningin af Saba heyrði það orð sem fór af Salómon og kom til þess að reyna hann með gátum í Jerúsalem. Hún kom ásamt mjög miklu fylgdarliði og hafði úlfalda klyfjaða balsami, afar miklu gulli og dýrindis steinum. Hún gekk fyrir Salómon og lagði fyrir hann allt sem henni lá á hjarta. 2 Salómon svaraði öllum spurningum hennar, ekkert var Salómon hulið svo að hann gæti ekki svarað henni. 3 Þegar drottningin af Saba hafði kynnst speki Salómons, séð húsið sem hann hafði látið reisa, 4 matinn á borði hans, sætaskipun hirðmanna og þjónustu skutilsveina hans og klæðnað, byrlara hans og klæðnað þeirra og brennifórnir sem hann færði í húsi Drottins, varð hún agndofa. 5 Hún sagði við konunginn: „Það sem ég hafði heyrt í landi mínu um orðsnilld þína og visku hefur reynst rétt. 6 En ekki trúði ég því sem sagt var fyrr en ég kom og kynntist því af eigin raun. Þó hafði mér ekki verið sagður helmingurinn af því sem segja má um þína miklu visku. Þú ert meiri en orðrómurinn sem ég hafði heyrt. 7 Sælar eru konur þínar,[ sælir hirðmenn þínir sem sífellt eru hjá þér og hlýða á speki þína. 8 Lofaður sé Drottinn, Guð þinn, sem hafði velþóknun á þér svo að hann setti þig í hásæti sitt og gerði þig að konungi Drottins, Guðs þíns. Af því að Guð þinn elskar Ísrael og ætlar ævinlega að styðja hann hefur hann gert þig að konungi til þess að ástunda rétt og réttlæti.“
9 Hún gaf konungi hundrað og tuttugu talentur gulls og gnægð balsams og dýrindis steina. Annað eins balsam og það sem drottningin af Saba gaf Salómon konungi hefur aldrei sést.
10 Menn Húrams og Salómons, sem fluttu gull frá Ófír, komu einnig með algúmmímvið og dýrindis steina. 11 Konungurinn lét gera handrið í hús Drottins og konungshöllina úr algúmmímviðnum, einnig gígjur og hörpur handa söngvurunum. Annað eins hafði ekki sést fyrr í Júdalandi.
12 Salómon konungur veitti drottningunni af Saba allt sem hún girntist og bað um, auk þess sem hann hafði gefið henni í stað þess sem hún hafði fært honum. Síðan sneri hún aftur og hélt til lands síns ásamt fylgdarmönnum sínum.
Auðæfi Salómons
13 Gullið, sem Salómon var fært árlega, var sex hundruð sextíu og sex talentur að þyngd. 14 Auk þess bárust honum tollar frá kaupmönnum, sem fóru um landið, og skattar frá verslunarmönnum. Allir konungar Arabíu og héraðsstjórarnir í landinu færðu Salómon einnig gull og silfur.
15 Salómon konungur lét gera tvö hundruð stóra skildi úr slegnu gulli. Sex hundruð sikla af gulli þurfti í hvern skjöld. 16 Hann lét einnig gera þrjú hundruð minni skildi úr slegnu gulli. Fóru þrjú hundruð mínur af gulli í hvern skjöld. Konungurinn kom skjöldunum fyrir í Líbanonsskógarhúsinu. 17 Konungur lét enn fremur gera stórt hásæti úr fílabeini og leggja það skíragulli. 18 Sex þrep voru upp að hásætinu og fótaskemill úr gulli var festur við það. Bríkur voru báðum megin við sætið og stóð ljón við hvora brík. 19 Tólf ljón stóðu á þrepunum, sex hvorum megin. Annað eins hefur ekki verið gert í neinu öðru konungsríki.
20 Öll drykkjarker Salómons konungs voru úr gulli og öll áhöld í Líbanonsskógarhúsinu úr skíragulli. Silfur var einskis metið á dögum Salómons 21 því að skip konungsins sigldu til Tarsis með mönnum Húrams. Tarsisskipin komu þriðja hvert ár með gull og silfur, fílabein, apa og bavíana.
22 Salómon konungur var auðugri og vitrari en allir konungar heims. 23 Allir konungar heims leituðu til Salómons til að hlýða á visku þá sem Guð hafði lagt í hjarta hans. 24 Ár eftir ár höfðu þeir með sér gjafir sínar, gripi úr silfri og gulli, klæði, vopn, balsam, hesta og múldýr.
25 Hesthús Salómons rúmuðu fjögur þúsund hesta ásamt vögnum. Hann hafði tólf þúsund vagnliða og kom þeim fyrir í vagnliðsborgum og í Jerúsalem hjá konungi. 26 Hann ríkti yfir öllum konungum frá Efrat til Filistealands og að landamærum Egyptalands. 27 Konungur notaði silfur eins og grjót í Jerúsalem og sedrusvið eins og mórberjafíkjuvið sem mikið vex af á láglendinu. 28 Hestar voru fluttir inn frá Egyptalandi og hvaðanæva handa Salómon.
Salómon deyr
29 Það sem ósagt er af sögu Salómons, hinni fyrri og hinni síðari, er skráð í sögu Natans spámanns, í boðskap Ahía frá Síló og sýn sjáandans Iddó um Jeróbóam Nabatsson. 30 Salómon var konungur í Jerúsalem yfir öllum Ísrael í fjörutíu ár. 31 Síðan var hann lagður til hvíldar hjá feðrum sínum og grafinn í borg Davíðs, föður síns. Rehabeam, sonur hans, varð konungur eftir hann.