Jósía konungur Júda
1 Jósía var átta ára þegar hann varð konungur og ríkti í Jerúsalem þrjátíu og eitt ár. 2 Hann gerði það sem rétt var í augum Drottins. Hann fetaði í fótspor Davíðs, forföður síns, og vék hvorki til hægri né vinstri frá þeim.
3 Á áttunda stjórnarári Jósía, er hann var enn á unglingsaldri, tók hann að leita svara hjá Guði Davíðs, forföður síns. Á tólfta árinu tók hann að hreinsa fórnarhæðirnar og fjarlægja Asérustólpa, skurðgoð og líkneski úr Júda og Jerúsalem. 4 Ölturu Baalanna voru rifin niður að honum ásjáandi og hann lét mölbrjóta reykelsisölturun sem stóðu á þeim. Hann lét einnig brjóta Asérustólpana, skurðgoðin og líkneskin mélinu smærra og því næst dreifa þeim á grafir þeirra sem höfðu fært þeim fórnir. 5 Hann lét brenna bein prestanna á ölturum þeirra og hreinsaði þannig Júda og Jerúsalem. 6 Hann lét rífa niður ölturun á torgum borganna í Manasse, Efraím, Símeon og allt til Naftalí. 7 Hann lét mölbrjóta Asérustólpana og líkneskin og rífa niður öll reykelsisölturu í Ísrael. Því næst sneri hann aftur heim til Jerúsalem.
Lögbók finnst
8 Á átjánda stjórnarári Jósía, þegar hann var að hreinsa landið og musterið, sendi konungur Safan Astaljason, Maaseja borgarstjóra og Jóak Jóahasson, talsmann konungs, til þess að láta gera við hús Drottins, Guðs síns. 9 Þeir komu til Hilkía æðsta prests og þeim var afhent féð sem hafði verið flutt til húss Guðs. Þessu fé höfðu Levítarnir, sem gættu þröskuldanna, safnað saman frá Manasse, Efraím og öllum öðrum ættbálkum Ísraels, öllum Júda og Benjamín og íbúum Jerúsalem. 10 Þeir afhentu féð verkstjórunum sem ráðnir voru til starfa í húsi Drottins og þeir greiddu með því verkamönnunum sem unnu við að lagfæra og gera við hús Drottins. 11 Einnig fengu þeir trésmiðunum og húsasmiðunum fé til þess að kaupa höggna steina og við í stoðir og til viðgerða á húsinu sem Júdakonungar höfðu látið hrörna. 12 Mennirnir unnu verk sitt af trúmennsku. Yfirmenn þeirra voru Levítarnir Jahat og Óbadía, sem voru niðjar Merarí, og Sakaría, en Mesúllam, Kahatsniðji, hafði yfirstjórnina með höndum. Levítarnir, sem allir voru hljóðfæraleikarar, 13 stjórnuðu burðarmönnunum og höfðu umsjón með öllum þeim sem höfðu eitthvert starf á hendi. Nokkrir Levítanna voru skrifarar, flokksstjórar og hliðverðir.
14 Þegar féð, sem hafði verið flutt til húss Drottins, var sótt fann Hilkía prestur lögmálsbók Drottins sem hafði verið opinberuð af munni Móse. 15 Hilkía skýrði Safan ríkisritara frá því og sagði: „Ég fann lögbók í húsi Drottins.“ Hilkía fékk Safan bókina 16 en hann fór með hana til konungs og sagði: „Þjónar þínir hafa gert allt sem þeim var falið. 17 Þeir hafa reitt fram féð sem fannst í húsi Drottins og fengið það umsjónarmönnunum og verkamönnunum í hendur.“ 18 Safan ríkisritari sagði við konung: „Hilkía æðsti prestur fékk mér bók.“ Og Safan las úr henni fyrir konunginn.
19 Þegar konungur heyrði ákvæði laganna reif hann klæði sín. 20 Því næst gaf hann þeim Hilkía æðsta presti, Akíham Safanssyni, Abdóm Míkasyni, Safan ríkisritara og Asaja, þjóni konungs, svohljóðandi fyrirmæli: 21 „Farið og leitið svara hjá Drottni fyrir mig og þá sem eftir eru af Ísrael og Júda um það sem stendur í þessari bók sem fundist hefur. Því að mikil er reiði Drottins sem úthellt hefur verið yfir okkur þar sem forfeður okkar hafa ekki fylgt skipun Drottins með því að fara eftir öllu því sem skráð er í þessari bók.“
Hulda spámaður
22 Þá gekk Hilkía ásamt þeim sem konungurinn hafði ákveðið til Huldu spámanns. Hún var eiginkona Sallúms Tókhatssonar, Hasrasonar klæðavarðar. Hún bjó í nýja borgarhverfinu í Jerúsalem. Þeir sögðu henni erindi sitt 23 og hún svaraði: „Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Berið þeim sem sendi ykkur til mín þessi boð: 24 Svo segir Drottinn: Ég sendi böl yfir þennan stað og íbúa hans, alla þá bölvun sem skráð er í bókinni sem lesin var fyrir Júdakonung, 25 vegna þess að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir. Þeir hafa vakið reiði mína með öllum handaverkum sínum. Þess vegna er heift minni úthellt yfir þennan stað og hún mun ekki slokkna. 26 Skilið þessu til Júdakonungs sem sendi ykkur til þess að leita svara hjá Drottni: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Orðin, sem þú heyrðir, 27 milduðu hjarta þitt og þú auðmýktir þig fyrir augliti Guðs. Þegar þú heyrðir orð hans gegn þessum stað og íbúum hans reifstu klæði þín og grést frammi fyrir augliti mínu. Þess vegna bænheyri ég þig, segir Drottinn. 28 Ég mun láta þig safnast til feðra þinna og þú skalt lagður í gröf þína í friði. Augu þín skulu ekki líta allt það böl sem ég mun senda yfir þennan stað og íbúa hans.“ Þetta svar færðu þeir konungi.
Siðbót Jósía
29 Konungur sendi menn og lét safna til sín öllum öldungum Júda og Jerúsalem. 30 Hann gekk síðan upp til húss Drottins ásamt öllum íbúum Júda og Jerúsalem, prestum, Levítum og öllum almenningi, ungum og gömlum, og las í áheyrn þeirra öll ákvæði sáttmálsbókarinnar sem fundist hafði í húsi Drottins. 31 Konungurinn tók sér stöðu á sínum stað og gerði sáttmála við Drottin um að fylgja Drottni, hlýða boðum hans, fyrirmælum og lagaákvæðum af öllu hjarta og allri sálu og um að framfylgja ákvæðum sáttmálans sem skráð voru í þessari bók. 32 Því næst lét hann alla sem voru staddir í Jerúsalem og Benjamín gangast undir sáttmálann. Íbúar Jerúsalem breyttu síðan samkvæmt sáttmála Guðs, Guðs feðra sinna.
33 Jósía lét fjarlægja alla viðurstyggð úr öllum löndum Ísraelsmanna. Hann sá til þess að allir sem voru í Ísrael þjónuðu Drottni, Guði sínum. Á meðan hann lifði viku þeir ekki frá fylgdinni við Drottin, Guð feðra sinna.