Bygging musterisins
1 Salómon hóf að reisa hús Drottins í Jerúsalem á Móríafjalli þar sem Drottinn hafði birst Davíð, föður hans, á staðnum sem Davíð hafði ákveðið, á þreskivelli Ornans Jebúsíta. 2 Hann hóf bygginguna í öðrum mánuðinum á fjórða stjórnarári sínu.
3 Grunnflötur hússins, sem Salómon ákvað að reisa, var sextíu álnir á lengd og tuttugu á breidd; var alinin miðuð við eldra mál. 4 Forsalurinn fyrir framan musterissalinn var tuttugu álnir á lengd, jafnbreiður húsinu, og tuttugu álnir á hæð. Hann lagði húsið skíragulli að innan. 5 Hann þiljaði stóra salinn með kýprusviði og þakti skíragulli og skreytti með pálmum og blómafestum. 6 Hann greypti einnig dýra steina í húsið og gullið var Parvaímgull. 7 Þannig þakti hann húsið, bjálka, þröskulda, veggi og hurðir gulli og greypti kerúba í veggina.
8 Hann gerði stúku hins allra helgasta. Hún var tuttugu álnir á lengd, eins og húsið var á breiddina, og tuttugu álnir á breidd. Hann þakti hana skíragulli sem vó sex hundruð talentur. 9 Gullið, sem fór í naglana, vó fimmtíu sikla. Hann þakti einnig efri herbergin gulli.
10 Hann gerði líkneski af tveimur kerúbum í stúku hins allra helgasta og voru þeir þaktir gulli. 11 Vængir kerúbanna voru tuttugu álnir á lengd. Vængur annars kerúbsins var fimm álnir á lengd og snerti vegg hússins. Hinn vængurinn var jafnlangur og snerti væng hins kerúbsins. 12 Vængur hins kerúbsins var einnig fimm álnir á lengd og nam við vegg hússins, hinn vængurinn var jafnlangur og snerti væng fyrrnefnda kerúbsins. 13 Vænghaf kerúbanna var tuttugu álnir. Þeir stóðu uppréttir og andlit þeirra sneru að musterissalnum.[
14 Hann gerði fortjaldið úr bláum og rauðum purpura, skarlati og líni og skreytti það kerúbum.
15 Framan við húsið gerði hann tvær súlur, þrjátíu og fimm álnir á hæð. Höfuð hvorrar um sig var fimm álnir. 16 Hann gerði einnig keðjur eins og hálsfestar og kom þeim fyrir efst á súlunum, sömuleiðis hundrað granatepli og festi þau á keðjurnar. 17 Hann reisti súlurnar framan við musterissalinn, aðra hægra megin og hina vinstra megin. Hann nefndi þá sem var hægra megin Jakín og þá til vinstri Bóas.