Musterisbyggingin undirbúin

1 Salómon ákvað að reisa nafni Drottins hús og sjálfum sér konungshöll.[ Hann lét velja sjötíu þúsund burðarmenn og áttatíu þúsund steinsmiði í fjöllunum og setti þrjú þúsund og sex hundruð verkstjóra yfir þá. 2 Því næst sendi Salómon boð til Húrams, konungs í Týrus: „Þú hjálpaðir Davíð, föður mínum, og sendir honum sedrusvið svo að hann gæti reist sér höll. 3 En nú ætla ég að reisa nafni Drottins, Guðs míns, hús og vígja það honum. Frammi fyrir honum á að brenna ilmandi reykelsi og jafnan að raða skoðunarbrauðum. Honum skulu færðar brennifórnir kvölds og morgna, á hvíldardögum, tunglkomudögum og hátíðum Drottins, Guðs okkar. Ísrael hefur verið boðið að gera þetta um aldur og ævi.
4 Húsið, sem ég ætla að reisa, verður mikið því að Guð okkar er öllum öðrum guðum meiri. 5 En hver er fær um að reisa honum hús? Himinninn og himnar himnanna rúma hann ekki. Hver er ég að ég reisi honum hús nema þá til þess að brenna reykelsi frammi fyrir honum? 6 Sendu mér nú mann sem er hagur á gull, silfur, eir og járn og kann að vinna úr rauðum purpura, skarlati og bláum purpura. Hann þarf einnig að kunna að grafa í málm. Hann á að vinna með hagleiksmönnunum sem eru hjá mér í Júda og Jerúsalem og Davíð, faðir minn, útvegaði. 7 Sendu mér einnig sedrusvið, kýprusvið og algúmmímvið frá Líbanon. Ég veit að verkamenn þínir kunna að fella tré þar og mínir verkamenn eiga að hjálpa þínum. 8 Ég þarf á miklum viði að halda því að húsið, sem ég ætla að reisa, á að verða stórt og mikilfenglegt. 9 Skógarhöggsmönnum færi ég tuttugu þúsund kór af hveiti og fínmuldu hveiti, tuttugu þúsund kór af byggi, tuttugu þúsund böt af víni og tuttugu þúsund böt af olíu.“
10 Húram, konungur í Týrus, svaraði með bréfi sem hann sendi til Salómons: „Drottinn hefur gert þig að konungi yfir þjóð sinni af því að hann elskar hana.“ 11 Húram skrifaði enn fremur: „Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, sem skapað hefur himin og jörð því að hann hefur gefið Davíð konungi vitran son. Hann hefur visku og hyggindi til þess að reisa Drottni hús og sjálfum sér konungshöll. 12 Ég sendi þér hér með Húram Abí, færan handverksmann sem er vel að sér. 13 Hann er sonur konu af ættbálki Dans. Faðir hans er frá Týrus. Hann er hagur á gull, silfur, eir, járn, stein og tré og kann að vinna úr rauðum purpura, bláum purpura, baðmull og skarlati og að grafa í allan málm og hann getur gert hvað eina sem honum er falið að gera. Hann mun geta unnið með hagleiksmönnum þínum og herra míns, Davíðs, föður þíns. 14 Herra minn sendi nú verkamönnum sínum hveitið, byggið, olíuna og vínið sem hann hefur heitið. 15 Við munum fella tré í Líbanon eins og þú þarft og fleyta þeim í flekum sjóleiðina til Jafó en sjálfur verður þú að flytja þau upp til Jerúsalem.“
16 Nú lét Salómon telja alla aðkomumenn, sem voru í Ísrael, eftir manntali því sem Davíð, faðir hans, hafði látið gera. Þeir voru hundrað fimmtíu og þrjú þúsund og sex hundruð. 17 Hann gerði sjötíu þúsund þeirra að burðarmönnum, áttatíu þúsund að steinsmiðum í fjalllendinu og þrjú þúsund og sex hundruð að verkstjórum sem áttu að halda verkamönnunum að verki.