Elísa og týnda öxin
1 Einu sinni sögðu spámanna-lærisveinarnir við Elísa: „Herbergið, þar sem við sitjum frammi fyrir þér, er of þröngt fyrir okkur. 2 Við ætlum því að ganga niður að Jórdan svo að hver okkar geti sótt þangað bjálka og við síðan byggt okkur bústað.“ Hann svaraði: „Farið þá.“
3 Einn þeirra sagði: „Gerðu okkur greiða og komdu með þjónum þínum.“ „Já, ég skal koma,“ svaraði hann 4 og fór með þeim. Þegar þeir voru komnir niður að Jórdan tóku þeir að höggva tré. 5 Þá er einn þeirra var að fella trjástofn gekk öxin af skafti og lenti í ánni. Hann hrópaði: „Æ, herra. Þetta var einmitt lánsöxi.“ 6 „Hvar lenti hún?“ spurði guðsmaðurinn. Þegar maðurinn hafði sýnt honum staðinn skar Elísa viðargrein, henti henni þangað, lét axarhöfuðið fljóta upp 7 og sagði: „Taktu það upp,“ og hann rétti út höndina og greip það.
Viðureign Elísa við Aramea
8 Einhverju sinni, þegar Aramskonungur átti í stríði við Ísrael, ráðgaðist hann við menn sína og sagði: „Á tilteknum stað skulum við leggjast í launsátur.“ 9 En guðsmaðurinn sendi þessi boð til Ísraelskonungs: „Forðastu að fara um þennan stað því að þar liggja Aramearnir í launsátri.“ 10 Konungur Ísraels sendi þá njósnara til þess staðar sem guðsmaðurinn hafði rætt um. Þegar hann hafði varast þennan stað oftar en einu sinni og oftar en tvisvar 11 reiddist Aramskonungur, kallaði á menn sína og sagði: „Getið þið ekki sagt mér hver af okkar mönnum ljóstrar upp fyrirætlunum okkar við konung Ísraels?“ 12 Einn af mönnum hans svaraði: „Herra minn og konungur. Það er enginn okkar heldur Elísa spámaður í Ísrael sem skýrir konungi Ísraels frá hverju orði sem þú talar í svefnherbergi þínu.“ 13 Konungur sagði: „Farið og kannið hvar hann er svo að ég geti sent menn til að ná honum.“ Þá var honum tilkynnt að hann væri í Dótan.
14 Konungurinn sendi þangað hesta, vagna og mikið lið. Þeir komu þangað um nóttina og umkringdu borgina. 15 Þegar guðsmaðurinn fór á fætur árla morguns og gekk út sá hann sér til undrunar að her með hesta og vagna hafði umkringt borgina. Þjónn hans sagði þá við hann: „Æ, herra. Hvað eigum við nú að gera?“ 16 Hann svaraði: „Vertu óhræddur. Þeir sem eru með okkur eru fleiri en hinir.“ 17 Síðan baðst Elísa fyrir og sagði: „Drottinn, opna augu hans svo að hann sjái.“ Þá opnaði Drottinn augu þjónsins og hann sá að fjallið var þakið eldhestum og eldvögnum umhverfis Elísa.
18 Þegar Aramearnir héldu gegn honum bað Elísa til Drottins og sagði: „Slá þessa menn blindu.“ Hann heyrði bæn Elísa og sló þá blindu. 19 Þá sagði Elísa: „Þetta er ekki rétt leið og þetta er ekki rétt borg. Fylgið mér, ég skal leiða ykkur til mannsins sem þið leitið.“ Síðan fylgdi hann þeim til Samaríu. 20 Þegar þeir voru komnir til Samaríu sagði Elísa: „Drottinn, opna augu þessara manna svo að þeir geti séð.“ Og Drottinn opnaði augu þeirra svo að þeir sáu sér til undrunar að þeir voru inni í miðri Samaríu.
21 Þegar konungur Ísraels sá þá spurði hann Elísa: „Á ég að höggva þá, faðir minn?“ 22 Hann svaraði: „Nei, þú skalt ekki höggva þá. Ertu vanur að höggva þá sem þú tekur til fanga með sverði þínu og boga? Settu fyrir þá mat og drykk svo að þeir fái að eta og drekka. Síðan geta þeir farið til húsbónda síns.“ 23 Konungurinn bjó þeim þá mikla veislu. Þegar þeir höfðu etið og drukkið sleppti hann þeim lausum og þeir fóru aftur til húsbónda síns.
Eftir þetta hættu ránsflokkar Aramea að koma inn í Ísrael.
Umsátur um Samaríu
24 Nokkru síðar safnaði Benhadad Aramskonungur öllum her sínum saman, hélt upp til Samaríu og settist um hana. 25 Á meðan þeir sátu um Samaríu varð þar svo mikil hungursneyð að eitt asnahöfuð kostaði áttatíu sikla silfurs og fjórðungur úr kab af dúfnadriti kostaði fimm sikla.
26 Einu sinni, þegar Ísraelskonungur var á göngu uppi á borgarmúrnum, hrópaði kona nokkur til hans: „Hjálpaðu okkur, herra minn og konungur.“ 27 Hann svaraði: „Ef Drottinn hjálpar þér ekki hvert á ég þá að sækja hjálp handa þér? Til þreskivallarins eða vínpressunnar?“ 28 Síðan spurði konungurinn: „Hvað amar að þér?“ Hún svaraði: „Konan þarna lagði þetta til við mig: Komdu með son þinn svo að við getum etið hann í dag en son minn á morgun. 29 Við suðum svo son minn og átum hann. Daginn eftir sagði ég við hana: Komdu nú með son þinn svo að við getum etið hann. En hún hafði þá falið hann.“ 30 Þegar konungur heyrði orð konunnar reif hann klæði sín. Þar sem hann gekk áfram eftir múrnum sá fólkið að hann bar hærusekk næst líkama sínum. 31 En nú hrópaði hann: „Megi Drottinn gera mér hvað sem er ef höfuðið situr á Elísa Safatssyni daginn á enda.“
32 Elísa dvaldist í húsi sínu og öldungarnir sátu þar hjá honum þegar konungur sendi mann til hans. En áður en sendiboðinn var kominn sagði Elísa við öldungana: „Gerið þið ykkur grein fyrir að þessi morðingi hefur sent mann til þess að höggva af mér höfuðið? Gætið þess að loka dyrunum þegar sendiboðinn kemur og standið fyrir hurðinni svo að hann komist ekki inn. Ég heyri fótatak húsbónda hans á eftir honum.“ 33 Á meðan hann var enn að tala við þá kom konungurinn og sagði: „Böl þetta kemur frá Drottni. Hvers get ég framar vænst af honum?“