Elísa hjálpar fátækri ekkju
1 Kona nokkur, sem var gift einum af lærisveinum spámannanna, hrópaði hástöfum til Elísa og sagði: „Þjónn þinn, eiginmaður minn, er dáinn. Þú veist sjálfur að þjónn þinn var guðhræddur maður. En nú er lánardrottinn hans kominn og ætlar að hneppa báða syni mína í þrældóm.“ 2 Elísa sagði við hana: „Hvað get ég gert fyrir þig? Segðu mér hvað þú átt til heima.“ Hún svaraði: „Ambátt þín á ekki annað en eina flösku af olíu.“ 3 Hann sagði: „Farðu út. Bið þú um krukku úti á götum, bið alla nágranna þína um tómar krukkur en gættu þess að þær séu nógu margar. 4 Farðu svo heim og lokaðu á eftir þér og sonum þínum. Helltu síðan olíu í allar þessar krukkur og set þær til hliðar jafnóðum og þær fyllast.“
5 Hún gekk þá burt og lokaði dyrunum á eftir sér og sonum sínum. Þeir réttu henni krukkurnar og hún hellti í þær.
6 Þegar krukkurnar voru fullar sagði hún við annan son sinn: „Réttu mér eina krukku enn.“ Hann svaraði: „Það er engin krukka eftir.“ Þar með hætti olían að renna. 7 Hún fór þá og sagði guðsmanninum frá þessu en hann sagði: „Farðu og seldu olíuna og greiddu skuld þína. Þú og synir þínir getið lifað af því sem eftir verður.“
Elísa og ríka konan í Súnem
8 Dag nokkurn átti Elísa leið um Súnemborg. Þar bjó auðug kona sem bauð honum að þiggja mat hjá sér. Upp frá því mataðist hann hjá henni þegar hann fór þar um.
9 Hún sagði við eiginmann sinn: „Ég er viss um að maðurinn sem jafnan kemur við hjá okkur er heilagur guðsmaður. 10 Við skulum útbúa lítið herbergi uppi á lofti og koma þar fyrir rúmi, borði, stól og lampa handa honum. Þegar hann kemur til okkar getur hann dvalist þar.“
11 Dag nokkurn, þegar Elísa kom þangað, flutti hann inn í loftherbergið til þess að sofa þar. 12 Hann sagði við Gehasí, þjón sinn: „Kallaðu á þessa súnemsku konu,“ og hann kallaði á hana. Þegar hún kom 13 sagði hann við Gehasí: „Spyrðu hana: Hvað get ég gert fyrir þig þar sem þú hefur haft svona mikið fyrir okkur? Eigum við að tala máli þínu við konunginn eða yfirhershöfðingjann?“ Hún svaraði: „Ég bý mitt á meðal skyldmenna minna.“ 14 Þegar Elísa spurði hvað hann gæti þá gert fyrir hana svaraði Gehasí: „Hún á engan son og maður hennar er orðinn gamall.“ 15 Hann sagði: „Kallaðu á hana.“ Þegar Gehasí hafði kallað á hana og hún stóð í dyragættinni 16 sagði Elísa: „Að ári liðnu um þetta leyti muntu halda á syni í fanginu.“ Hún sagði: „Nei, herra, guðsmaður. Ljúgðu ekki að ambátt þinni.“ 17 En konan varð þunguð og fæddi son um sama leyti að ári liðnu eins og Elísa hafði heitið henni.
18 Þegar drengurinn var kominn á legg gekk hann dag nokkurn út til föður síns og uppskerufólksins 19 og kveinkaði sér við föður sinn: „Æ, höfuðið á mér, höfuðið á mér.“ Faðir hans skipaði þá vinnumanni einum að bera hann heim til móður sinnar.“ 20 Hann bar hann heim og færði hann móður sinni. Drengurinn sat svo í kjöltu hennar til hádegis. Þá dó hann. 21 Hún gekk upp, lagði drenginn á rúm guðsmannsins og lokaði á eftir sér. Síðan gekk hún út, 22 kallaði á eiginmann sinn og sagði: „Sendu einhvern vinnumannanna til mín og einn asna. Ég ætla að flýta mér til guðsmannsins. Ég kem strax aftur.“ 23 Hann spurði: „Hvers vegna ætlarðu að fara til hans í dag? Það er hvorki nýtt tungl né hvíldardagur.“[ En hún kvaddi, 24 lagði á asnann og skipaði vinnumanninum: „Rektu asnann af stað og stöðvaðu ekki för mína fyrr en ég segi þér.“
25 Hún lagði af stað og kom til guðsmannsins á Karmelfjalli. Þegar guðsmaðurinn sá hana álengdar sagði hann við Gehasí, þjón sinn: „Þarna kemur konan frá Súnem. 26 Hlauptu nú á móti henni og spyrðu hana: Hvernig líður þér? Hvernig líður manni þínum og drengnum?“ „Okkur líður vel,“ svaraði hún. 27 Þegar hún kom til guðsmannsins á fjallinu greip hún um fætur hans. Gehasí kom þá og ætlaði að ýta henni frá en guðsmaðurinn sagði: „Láttu hana vera því að hún er örvæntingarfull. En Drottinn hefur leynt orsök þess fyrir mér og ekki sagt mér frá því.“
28 Þá sagði hún: „Bað ég herra minn um son? Sagði ég ekki: Vektu mér ekki tálvonir.“ 29 Hann sagði þá við Gehasí: „Bind upp kyrtil þinn, taktu staf minn í hönd þér og haltu af stað. Ef þú mætir einhverjum skaltu ekki heilsa og ef einhver heilsar þér skaltu ekki taka undir. Leggðu svo staf minn á andlit drengsins.“ 30 En móðir drengsins sagði: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir mun ég ekki yfirgefa þig.“ Hann stóð þá á fætur og fylgdi henni.
31 Gehasí hafði farið á undan þeim og lagt stafinn á andlit drengsins en ekkert hljóð heyrðist og ekkert lífsmark var með honum. Hann sneri þá til móts við Elísa og skýrði honum frá þessu og sagði: „Drengurinn vaknar ekki.“
32 Þegar Elísa kom inn í húsið lá drengurinn dáinn á rúmi hans. 33 Hann gekk þá inn til hans, lokaði dyrunum og bað til Drottins. 34 Síðan lagðist hann upp í rúmið og yfir drenginn. Hann lagði munn sinn við munn hans, augu sín við augu hans og hendur sínar við hendur hans. Þegar hann lagðist þannig yfir hann færðist hiti í líkama drengsins. 35 Því næst fór hann og gekk einu sinni fram og aftur um húsið. Síðan lagðist hann upp í rúmið og yfir drenginn. Þá hnerraði drengurinn sjö sinnum og opnaði augun.
36 Elísa kallaði á Gehasí og sagði: „Kallaðu á súnemsku konuna.“ Hann kallaði á hana. Þegar hún kom inn til hans sagði hann við hana: „Taktu son þinn upp.“ 37 En hún kom til hans, féll til fóta honum og laut til jarðar. Síðan tók hún son sinn og gekk út.
Önnur kraftaverk
38 Einhverju sinni, þegar hungursneyð var í landinu, kom Elísa til Gilgal. Þegar lærisveinar spámannanna sátu frammi fyrir honum sagði hann við þjón sinn: „Settu stóra pottinn yfir og eldaðu mat handa lærisveinum spámannanna.“ 39 Þá fór einn þeirra út í hagann til að safna jurtum og fann villta vafningsjurt. Hann tíndi af henni svo mikið af villtum gúrkum sem rúmaðist í kápulafi hans. Þegar heim kom skar hann þær í bita og setti í pottinn en þeir þekktu þær ekki. 40 Þegar ausið var upp handa mönnunum til að eta og þeir smökkuðu á réttinum hrópuðu þeir: „Dauðinn er í pottinum, guðsmaður.“ Og þeir gátu ekki neytt matarins. 41 En Elísa sagði: „Komið með mjöl.“ Hann kastaði því í pottinn og sagði: „Ausið upp handa fólkinu svo að það geti etið.“ Nú var ekkert lengur skaðlegt í pottinum.
42 Einu sinni kom maður frá Baal Salísa og færði guðsmanninum tuttugu byggbrauð, frumgróðabrauð. Dálítið af nýju korni hafði hann einnig í poka sínum. Elísa sagði: „Gefðu fólkinu þetta.“ 43 „Hvernig get ég gefið þetta hundrað mönnum?“ svaraði þjónn hans. En hann sagði: „Gefðu fólkinu þetta að eta því að svo segir Drottinn: Þeir munu eta og leifa.“ 44 Síðan bar hann þetta fyrir þá og þeir átu og leifðu eins og Drottinn hafði sagt.