Fall Jerúsalem
Sedekía gerði uppreisn gegn Babýloníukonungi.[
1 Á níunda stjórnarári Sedekía bar svo við á tíunda degi tíunda mánaðar að Nebúkadnesar Babýloníukonungur kom til Jerúsalem með allan her sinn og settist um hana. Þeir reistu árásarvirki umhverfis 2 og var borgin umsetin til ellefta stjórnarárs Sedekía. 3 Á níunda degi í fjórða mánuðinum, þegar hungursneyðin var orðin mikil í borginni og enga fæðu að hafa handa íbúunum, 4 var borgarmúrinn rofinn. Um nóttina flýðu allir vopnfærir menn gegnum hliðið milli múranna tveggja gegnt garði konungs. Tókst þeim og konungi að flýja, þó að Kaldear umkringdu borgina, og héldu í átt til Arabasléttunnar. 5 En hermenn Kaldea veittu konungi eftirför og náðu honum á Jeríkósléttunni. Þá hafði allur her hans yfirgefið hann og tvístrast.
6 Þeir tóku konunginn og fóru með hann til Babýloníukonungs í Ribla sem kvað upp dóm yfir honum. 7 Hann lét hálshöggva syni Sedekía fyrir augum hans og síðan stinga úr honum augun, setja hann í hlekki og flytja til Babýloníu.
Musterið lagt í eyði
8 Á sjöunda degi fimmta mánaðar, á nítjánda stjórnarári Nebúkadnesars Babýloníukonungs, kom Nebúsaradan, foringi lífvarðarins og hirðmaður konungs, til Jerúsalem. 9 Hann lagði eld að musteri Drottins, húsi konungs og öllum öðrum húsum í Jerúsalem. Hann brenndi öll vegleg hús. 10 Hermenn Kaldea, sem foringi lífvarðarins stjórnaði, rifu niður múrana umhverfis Jerúsalem. 11 Nebúsaradan, foringi lífvarðarins, flutti þá sem eftir voru í borginni til Babýloníu, sem og liðhlaupana sem gengið höfðu Babýloníukonungi á hönd og þá sem eftir voru af handverksmönnunum. 12 Foringi lífvarðarins skildi aðeins eftir þá fátækustu til að erja víngarða og akra.
13 Eirsúlurnar í musteri Drottins, vagngrindurnar og eirhafið í musteri Drottins brutu Kaldear í sundur og fluttu eirinn til Babýlonar. 14 Þeir tóku með sér kerin, skóflurnar, skarbítana, skálarnar og öll eiráhöldin sem notuð voru við guðsþjónustuna. 15 Foringi lífvarðarins tók einnig eldpönnurnar og skálarnar sem voru úr gulli og silfri. 16 Báðar súlurnar, hafið og vagngrindurnar, sem Salómon hafði látið gera fyrir musteri Drottins, var allt gert úr svo miklum eir að það varð ekki vegið. 17 Önnur súlan var átján álnir á hæð og súluhöfuðið úr eir. Það var þrjár álnir á hæð og var net með granateplum umhverfis súluhöfuðið. Allt þetta var úr eir. Hin súlan var eins og á henni var einnig net.
Júdamenn herleiddir til Babýlonar
18 Foringi lífvarðarins tók einnig Seraja yfirprest til fanga, Sefanja prest, sem næstur honum gekk, og hliðverðina þrjá. 19 Úr borginni tók hann hirðmann þann sem hafði eftirlit með hermönnunum, fimm af nánustu þjónum konungs, sem enn voru í borginni, ritara hershöfðingjans, sem annaðist herkvaðningu, og sextíu alþýðumenn sem enn voru í borginni. 20 Nebúsaradan lífvarðarforingi tók þá höndum og fór með þá til Babýloníukonungs í Ribla. 21 Konungur lét höggva þá til bana í Ribla í Hamathéraði. Þannig voru íbúar Júda fluttir í útlegð úr landi sínu.
Gedalía landstjóri í Júda
22 Nebúkadnesar Babýloníukonungur setti Gedalía, son Ahíkams Safanssonar, yfir það fólk sem eftir var í Júda og Nebúkadnesar hafði skilið eftir. 23 Þegar allir liðsforingjarnir og menn þeirra fréttu að Babýloníukonungur hefði skipað Gedalía landstjóra komu þeir til hans í Mispa. Það voru þeir Ísmael Netanjason, Jóhanan Kareason, Seraja Tanhúmetsson frá Netófa og Jaasanja frá Maaka og menn þeirra. 24 Gedalía vann þeim og mönnum þeirra eið og sagði við þá: „Óttist ekki embættismenn Kaldea. Búið áfram í landinu og gangið Babýloníukonungi á hönd. Þá mun ykkur vegna vel.“
25 Í sjöunda mánuðinum bar svo til að Ísmael Netanjason, Elísamasonar, sem var af konungsættinni, kom við tíunda mann og hjó Gedalja til bana og þá Júdamenn og Kaldea sem voru hjá honum í Mispa. 26 Þá tók allt fólkið sig upp, ungir sem gamlir, ásamt herforingjunum og hélt til Egyptalands af ótta við Kaldea.
Jójakín náðaður
27 Á þrítugasta og sjöunda útlegðarári Jójakíns Júdakonungs, á tuttugasta og sjöunda degi í tólfta mánuði, árið sem Evíl Merodak varð konungur í Babýlon, náðaði hann Jójakín Júdakonung og sleppti honum úr fangelsinu. 28 Hann sýndi honum velvild og vísaði honum til sætis ofar hinum konungunum sem voru hjá honum í Babýlon. 29 Jójakín þurfti ekki að bera fangabúning framar og það sem hann átti ólifað sat hann til borðs með konungi. 30 Meðan hann lifði veitti konungur Jójakín reglulega það sem hann þurfti sér til daglegs viðurværis.