Rut hittir Bóas
1 Naomí átti þar venslamann, Bóas að nafni. Hann var auðugur áhrifamaður af ætt Elímeleks.
2 Einhverju sinni sagði Rut hin móabíska við Naomí:
„Ég ætla að fara út á akur og tína upp kornöx á eftir einhverjum góðviljuðum kornskurðarmanni.“ Naomí svaraði:
„Farðu, dóttir mín.“
3 Rut hélt af stað, kom út á akurinn og tíndi þar upp kornöx á eftir kornskurðarmönnunum. Svo vel vildi til að þann teig átti Bóas, frændi Elímeleks. 4 Þá kom Bóas óvænt frá Betlehem og kastaði kveðju á kornskurðarmennina: „Drottinn sé með ykkur.“
Þeir svöruðu honum: „Drottinn blessi þig.“
5 Þá spurði Bóas þjón sinn sem settur var yfir kornskurðarmennina:
„Hver er þessi stúlka?“
6 Þjónninn svaraði: „Þetta er móabísk stúlka sem kom frá Móabssléttu með Naomí. 7 Hún spurði: Má ég ganga á eftir kornskurðarmönnunum og safna öxum innan um kornknippin? Hún hefur verið að frá því í morgun og þar til nú og hefur varla unnt sér hvíldar.“
8 Þá sagði Bóas við Rut: „Taktu nú eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. 9 Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“
10 Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann:
„Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“
11 Bóas svaraði: „Mér hefur verið sagt allt um það hvernig þér fórst við tengdamóður þína eftir dauða manns þíns, að þú yfirgafst föður þinn og móður og ættland þitt og fórst til þjóðar sem þú hafðir aldrei áður kynnst. 12 Drottinn, Guð Ísraels, launi þér verk þitt til fullnustu fyrst að þú ert komin til að leita verndar undir vængjum hans.“
13 Hún svaraði: „Þakka þér, herra minn, þú hefur hughreyst mig með því að tala vinsamlega við mig enda þótt ég sé ekki jafningi neinnar af þjónustustúlkum þínum.“
14 Þegar matmálstími kom sagði Bóas við hana: „Komdu hingað og fáðu þér bita og dýfðu brauðinu í kryddsósuna.“
Rut settist þá hjá kornskurðarmönnunum. Bóas rétti henni glóðarbakað korn. Hún át sig sadda og leifði. 15 Síðan stóð hún upp og fór að tína en Bóas mælti svo fyrir við pilta sína: „Ávítið hana ekki þó að hún tíni innan um kornknippin. 16 Þið skuluð jafnvel draga öx úr knippunum handa henni og láta þau liggja eftir svo að hún geti tínt þau. Ávítið hana ekki.“
17 Rut tíndi nú öx á akrinum allt til kvölds. Og er hún barði kornið úr því sem hún hafði tínt var það hér um bil efa af byggi. 18 Hún tók það upp, fór með það til borgarinnar og sýndi tengdamóður sinni það sem hún hafði tínt. Hún tók einnig fram það sem hún hafði leift af máltíðinni og fékk Naomí. 19 Þá sagði tengdamóðir Rutar við hana: „Hvar hefur þú tínt í dag? Hvar hefur þú unnið? Blessaður sé sá maður sem sýndi þér velvild.“
Þá sagði hún tengdamóður sinni hjá hverjum hún hafði unnið og mælti: „Maðurinn, sem ég vann hjá í dag, heitir Bóas.“
20 Naomí sagði þá við tengdadóttur sína: „Drottinn blessi hann því að Drottinn hefur ekki látið af miskunn sinni við lifandi eða látna.“ Og hún bætti við: „Maðurinn er nákominn okkur, hann er einn af lausnarmönnum okkar.“
21 Þá sagði Rut hin móabíska: „Hann sagði jafnvel við mig: Haltu þig að piltum mínum þar til þeir hafa lokið öllum kornskurði hjá mér.“
22 En Naomí sagði við tengdadóttur sína: „Það er gott, dóttir mín. Þú skalt fara út með stúlkum hans svo að enginn amist við þér á öðrum akri.“
23 Hún hélt sig því að stúlkum Bóasar og tíndi uns bygg- og hveitiuppskerunni var lokið. Síðan hélt hún kyrru fyrir hjá tengdamóður sinni.