1Vínið er illkvittið, sterkur drykkur glaumsamur,
fávís verður sá sem lætur leiðast afvega.
2Reiði konungs er eins og ljónsöskur,
sá sem egnir hann gegn sér hættir lífi sínu.
3Það er manni sómi að forðast deilur
en afglapinn kveikir þrætur.
4Letinginn plægir ekki á réttum tíma,
því leitar hann um uppskerutímann og grípur í tómt.
5Ráð mannshjartans eru sem djúp vötn
og hygginn maður eys af þeim.
6Margir láta vingjarnlega
en tryggan vin, hver finnur hann?
7Réttlátur maður ástundar ráðvendni,
sæl verða börn hans eftir hann.
8Þegar konungur situr á dómstóli
vinsar hann allt illt úr með augnaráðinu einu.
9Hver getur sagt: „Ég hef haldið hjarta mínu hreinu,
ég er hreinn af synd?“
10Tvenns konar vog og tvenns konar mál,
hvort tveggja er Drottni andstyggð.
11Jafnvel má þekkja af verkum barnsins
hvort athafnir þess eru hreinar og einlægar.
12Eyrað sem heyrir og augað sem sér,
hvort tveggja hefur Drottinn skapað.
13Elskaðu ekki svefninn svo að þú verðir ekki snauður,
opnaðu augun, þá muntu mettast af brauði.
14„Afleitt, afleitt,“ segir kaupandinn
en þegar hann gengur burt hælist hann um.
15Gnægð er af gulli og perlum
en dýrmætastar eru þó vitrar varir.
16Taktu skikkjuna af þeim sem hefur gengið í ábyrgð fyrir ókunnugan,
taktu veð af þeim sem hefur gengið í ábyrgð fyrir framandi.
17Sætt er svikabrauðið
en eftir á fyllist munnurinn möl.
18Vel ráðin áform fá framgang,
þiggðu hollráð ef þú heyr stríð.
19Vesæll er sá sem ljóstrar upp leyndarmálum,
hafðu ekki samneyti við málugan mann.
20Formæli maður föður og móður
mun lampi hans slokkna í náttmyrkrinu.
21Eignir, sem í upphafi voru skjótfengnar,
blessast ekki að lokum.
22 Segðu ekki: „Ég hefni hins illa.“
Treystu á Drottin og hann mun bjarga þér.
23 Tvenns konar lóð eru Drottni andstyggð
og fölsuð vog er ekki góð.
24 Skref mannsins eru ákveðin af Drottni.
Hvernig fær þá maðurinn skilið veg sinn?
25 Það er gildra að gefa helgigjöf í flýti
og hyggja fyrst að eftir að heit eru unnin.
26 Vitur konungur vinsar hina ranglátu úr
og lætur síðan þreskihjólið ganga yfir þá.
27 Andi mannsins er lampi Drottins
og rannsakar hvern afkima hjarta hans.
28 Mildi og sannleikur vernda konunginn
og hann styrkir hásæti sitt með réttlæti.
29 Þrek er ungs manns þokki
en hærurnar prýði öldunganna.
30 Sár undan svipu hreinsa burt hið illa
og högg sem taka djúpt í hold.
Orðskviðirnir 20. kafliHið íslenska biblíufélag2021-02-15T19:13:40+00:00
Orðskviðirnir 20. kafli
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.