1 Drottinn sagði við Móse: „Segðu við Aron: Réttu hönd þína með stafnum út yfir fljótin, áveituskurðina og mýrarnar og sendu froskana yfir Egyptaland.“ 2 Aron rétti hönd sína út yfir vatnsból Egyptalands og froskarnir skriðu upp úr þeim og þöktu Egyptaland. 3 Spáprestarnir gerðu þetta einnig með fjölkynngi sinni og sendu froska yfir Egyptaland.
4 Faraó kallaði þá Móse og Aron fyrir sig og sagði: „Biðjið Drottin að hann fjarlægi froskana frá mér og þjóð minni. Þá sleppi ég þjóðinni svo að hún geti fært Drottni sláturfórnir.“ 5 Móse svaraði faraó: „Sýndu mér þann heiður að ákveða hvenær ég á að biðja fyrir þér, þjónum þínum og þjóð svo að froskarnir hverfi frá þér og úr húsum þínum og verði aðeins eftir í fljótinu.“ 6 Faraó sagði: „Á morgun.“ Móse svaraði: „Það verður eins og þú skipar svo að þú komist að raun um að enginn er sem Drottinn, Guð okkar. 7 Froskarnir munu hverfa frá þér, húsi þínu, þjónum þínum og þjóð og verða aðeins eftir í fljótinu.“
8 Móse og Aron gengu burt frá faraó. Síðan hrópaði Móse til Drottins vegna froskanna sem hann hafði sent yfir faraó. 9 Drottinn gerði það sem Móse bað um og froskarnir drápust í húsunum, forgörðunum og úti á ökrunum. 10 Þeim var hrúgað saman í marga hauga svo að landið þefjaði illa. 11 Þegar faraó fann að af létti herti hann hjarta sitt og hlustaði ekki á þá eins og Drottinn hafði sagt fyrir.
Þriðja plágan: Mývargur
12 Drottinn sagði við Móse: „Segðu við Aron: Réttu út staf þinn og sláðu á rykið á jörðinni, það verður að mývargi um allt Egyptaland.“ 13 Þetta gerðu þeir. Aron rétti út hönd sína með stafnum og sló á rykið á jörðinni. Það varð að mývargi sem settist á menn og skepnur. Allt ryk á jörðinni varð að mývargi um allt Egyptaland. 14 Spáprestarnir reyndu að gera eins með fjölkynngi sinni og senda út mý en gátu það ekki. Mývargurinn lagðist bæði á menn og skepnur. 15 Þá sögðu spáprestarnir við faraó: „Þetta er fingur Guðs.“ En hjarta faraós var hart og hann hlustaði ekki á þá eins og Drottinn hafði sagt fyrir um.
Fjórða plágan: Flugur
16 Drottinn sagði við Móse: „Vertu snemma á fótum á morgun og gakktu fyrir faraó þegar hann gengur niður að fljótinu og segðu við hann: Svo segir Drottinn: Leyfðu þjóð minni að fara svo að hún geti þjónað mér. 17 Ef þú vilt ekki leyfa þjóð minni að fara sendi ég flugur yfir þig, þjóna þína, þjóð þína og hús þín. Þær munu fylla húsin í Egyptalandi og þekja jörðina sem þau standa á. 18 En þann sama dag mun ég undanskilja Gósenland þar sem þjóð mín dvelur svo að þar verða engar flugur og þú komist að raun um að ég, Drottinn, er mitt í landinu. 19 Ég læt þetta greina þjóð mína frá þinni þjóð. Þetta tákn verður á morgun.“ 20 Drottinn gerði þetta: Aragrúi flugna kom í hús faraós og hús þjóna hans og um allt Egyptaland spilltist jörðin af flugum. 21 Þá kallaði faraó Móse og Aron fyrir sig og sagði: „Farið og færið Guði ykkar sláturfórnir hér í landinu.“ 22 Móse svaraði: „Það getum við ekki því að við verðum að færa Drottni, Guði okkar, sláturfórnir sem eru Egyptum viðurstyggð. Mundu Egyptar ekki grýta okkur ef við færðum fyrir augum þeirra sláturfórnir sem þeir hafa andstyggð á? 23 Við ætlum að fara þrjár dagleiðir inn í eyðimörkina og færa Drottni, Guði okkar, sláturfórnir eins og hann hefur boðið okkur.“ 24 Þá sagði faraó: „Ég ætla að leyfa ykkur að fara svo að þið getið fært Drottni, Guði ykkar, sláturfórnir úti í eyðimörkinni. En þið megið ekki fara of langt. Biðjið fyrir mér.“ 25 Móse svaraði: „Nú geng ég út frá þér og bið til Drottins. Þá munu flugurnar hverfa frá faraó, þjónum hans og þjóð á morgun. En faraó má ekki ganga á bak orða sinna um að leyfa þjóðinni að fara til að færa Drottni sláturfórn.“
26 Móse gekk út frá faraó og bað til Drottins. 27 Drottinn gerði það sem Móse bað um og flugurnar hurfu frá faraó, þjónum hans og þjóð og engin varð eftir. 28 Og faraó herti hjarta sitt einnig í þetta skipti og hann leyfði fólkinu ekki að fara.