Lög um réttarvernd
1 Þú skalt ekki breiða út róg. Þú skalt ekki leggja þeim lið sem fer með rangt mál með því að bera ljúgvitni. 2 Þú skalt ekki fylgja meirihlutanum til illra verka. Þú skalt ekki vitna gegn andstæðingi í neinni sök þannig að þú fylgir meirihlutanum og hallir réttu máli. 3 Þú skalt ekki draga taum fátæks manns í málaferlum.
4 Rekist þú á villuráfandi naut eða asna óvinar þíns skaltu færa honum skepnuna aftur. 5 Sjáir þú asna andstæðings þíns liggja uppgefinn undir byrðinni skaltu ekki láta hann afskiptalausan heldur rétta honum hjálparhönd.
6 Þú skalt ekki halla rétti fátæks manns sem hjá þér er þegar hann á í málaferlum.
7 Forðastu mál byggð á lygi og vertu ekki valdur að dauða saklauss manns og réttláts því að ég dæmi ekki sekan mann saklausan.
8 Þú skalt ekki þiggja mútur því að mútur blinda sjáandi menn og rugla málum þeirra sem hafa rétt fyrir sér.
9 Þú skalt ekki beita aðkomumann ofríki. Þið farið nærri um líðan aðkomumannsins því að þið voruð aðkomumenn í Egyptalandi.
Lög um hvíldarár og hvíldardag
10 Í sex ár skaltu sá í land þitt og hirða afrakstur þess 11 en sjöunda árið skaltu láta það liggja ónotað og hvílast. Þá geta hinir fátæku meðal þjóðar þinnar lifað af því og það sem þeir skilja eftir geta villt dýr étið. Þú skalt fara eins með víngarð þinn og ólífutré. 12 Í sex daga skaltu vinna verk þitt en sjöunda daginn skaltu ekkert verk vinna svo að uxi þinn og asni geti hvílt sig og sonur ambáttar þinnar og aðkomumaðurinn geti endurnærst.
13 Þið skuluð gæta ykkar í öllu sem ég hef lagt fyrir ykkur. Þið megið ekki nefna nöfn annarra guða, þau mega ekki heyrast af munni þínum.
Lög um hátíðir
14 Þrisvar á ári skaltu halda mér hátíð. 15 Þú skalt halda hátíð hinna ósýrðu brauða. Þú skalt eta ósýrt brauð í sjö daga eins og ég hef boðið þér, á tilteknum tíma í abíbmánuði, því að í þeim mánuði fórstu út úr Egyptalandi. Enginn tómhentur fær að koma fyrir auglit mitt.
16 Þú skalt einnig halda hátíð kornuppskerunnar, hátíð frumgróða verka þinna, þess sem þú sáðir í akurinn. Loks skaltu halda uppskeruhátíð við árslok þegar þú hefur flutt heim afrakstur vinnu þinnar af akrinum. 17 Þrisvar á ári skulu allir karlmenn meðal þín sjá auglit Drottins.
18 Þú skalt ekki bera fram blóð sláturfórnar minnar með sýrðu brauði. Mör hátíðarfórnar minnar má ekki liggja yfir nótt til morguns.
19 Það besta af frumgróða lands þíns skaltu færa í hús Drottins, Guðs þíns.
Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar.
Fyrirheit og áminningar
20 Ég sendi engil á undan þér til að vernda þig á leiðinni og leiða þig til þess staðar sem ég hef ákveðið. 21 Gættu þín og hlustaðu á það sem hann segir. Óhlýðnastu honum ekki, hann mun ekki fyrirgefa þrjósku ykkar af því að nafn mitt er í honum.
22 En ef þú hlýðir honum fúslega og gerir allt sem ég segi verð ég óvinur óvina þinna og andstæðingur andstæðinga þinna.
23 Engill minn hefur gengið á undan þér og leitt þig inn í land Amoríta, Hetíta, Peresíta, Kanverja, Hevíta og Jebúsíta og ég skal tortíma þeim. 24 Þú mátt hvorki falla fram fyrir guðum þeirra né þjóna þeim. Þú mátt ekki fylgja siðum þeirra heldur skaltu brjóta þá gersamlega niður og mölbrjóta merkisteina þeirra.
25 Þið skuluð þjóna Drottni, Guði ykkar, og hann mun blessa brauð þitt og vatn og ég mun bægja frá þér sjúkdómum. 26 Í landi þínu mun engin kona missa fóstur né verða barnlaus. Ég mun fylla fjölda ævidaga þinna.
27 Ég mun senda ótta við mig á undan þér og valda glundroða á meðal allra þeirra þjóða sem þú kemur til og láta alla fjandmenn þína flýja undan þér.
28 Ég mun senda hugleysi á undan þér og það mun hrekja Hevíta, Kanverja og Hetíta á flótta.
29 Ég mun ekki flæma þá undan þér á einu ári svo að landið leggist ekki í auðn og villidýrunum fjölgi ekki þér til meins. 30 Smám saman mun ég hrekja þá undan þér þar til þú hefur fjölgað þér og getur tekið landið að erfðahlut. 31 Ég mun láta landsvæði þitt ná frá Sefhafinu að Filisteahafi og frá eyðimörkinni að fljótinu. [ Ég mun selja íbúa landsins ykkur í hendur svo að þú getir hrakið þá undan þér. 32 Þú skalt hvorki gera sáttmála við þá né guði þeirra. 33 Þeir mega ekki búa í landi þínu svo að þeir fái þig ekki til að syndga gegn mér með því að þjóna guðum þeirra. Það yrði þér að tálsnöru.“