Boðorðin

1 Drottinn mælti öll þessi orð:
2 „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
3 Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
4 Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. 5 Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig 6 en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín.
7 Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma.
8 Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. 9 Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. 10 En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. 11 Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.
12 Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér.
13 Þú skalt ekki morð fremja.
14 Þú skalt ekki drýgja hór.
15 Þú skalt ekki stela.
16 Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
17 Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“
18 Allt fólkið sá og heyrði þrumurnar, eldingaleiftrin, hornablásturinn og rjúkandi fjallið. Þegar fólkið sá þetta skalf það af ótta og stóð langt frá. 19 Fólkið sagði við Móse: „Tala þú við okkur og við munum hlýða en lát Guð ekki tala við okkur svo að við deyjum ekki.“ 20 Móse sagði við fólkið: „Óttist ekki. Guð er kominn til að reyna ykkur til þess að ótti hans sé ykkur fyrir augum og þið syndgið ekki.“ 21 Fólkið stóð langt frá en Móse nálgaðist skýsortann þar sem Guð var.

Lög um altarið

22 Drottinn sagði við Móse: „Svo skaltu segja við Ísraelsmenn: Þið hafið sjálfir séð að ég talaði við ykkur frá himni. 23 Þið skuluð ekki gera ykkur guði úr silfri og þið skuluð ekki gera ykkur guði úr gulli. 24 Þú skalt gera mér altari úr mold og á því skaltu slátra brennifórnum þínum og heillafórnum, sauðfé þínu og nautum. Á hverjum þeim stað, þar sem ég læt nefna nafn mitt, mun ég koma til þín og blessa þig. 25 En viljir þú gera mér altari úr grjóti skaltu ekki hlaða það úr tilhöggnum steinum. Ef þú vinnur þá með meitli vanhelgarðu þá. 26 Þú skalt ekki ganga upp þrep að altari mínu svo að blygðun þín verði þar ekki ber.