1 Drottinn ávarpaði Móse og sagði: 2 „Segðu Ísraelsmönnum að snúa við og setja búðir sínar andspænis Pí Hakírót, milli Migdóls og hafsins, gegnt Baal Sefón. Andspænis Baal Sefón skuluð þið slá upp búðum við hafið. 3 Þá mun faraó hugsa um Ísraelsmenn: Þeir hafa villst í landinu, eyðimörkin hefur gleypt þá. 4 Ég mun herða hjarta faraós svo að hann elti þá og ég mun birta dýrð mína á faraó og öllum her hans svo að Egyptar skilji að ég er Drottinn.“ Þetta gerðu þeir.
5 Egyptalandskonungi var tilkynnt að fólkið væri flúið. Þá snerist hugur faraós og þjóna hans gegn fólkinu og þeir sögðu: „Hvað höfum við gert? Við höfum sleppt Ísrael úr þjónustu okkar?“ 6 Faraó lét því spenna fyrir hervagna sína og tók her sinn með sér. 7 Hann hafði með sér sex hundruð úrvalsvagna og alla aðra hervagna Egyptalands og hafði foringja á hverjum.
8 Drottinn herti hjarta faraós Egyptalandskonungs og hélt hann á eftir Ísraelsmönnum en Ísraelsmenn héldu óhræddir burt. 9 Egyptar eltu þá til Pí Hakírót gegnt Baal Sefón, allir hestar faraós, hervagnar, riddarar hans og herlið. Þar náðu þeir þeim þar sem þeir höfðu slegið upp búðum við hafið.
10 Faraó nálgaðist og þegar Ísraelsmenn komu auga á Egypta og sáu að þeir sóttu fram á eftir þeim urðu þeir mjög hræddir. Ísraelsmenn hrópuðu á hjálp til Drottins 11 en sögðu við Móse: „Eru engar grafir til í Egyptalandi úr því að þú fórst með okkur til að deyja í eyðimörkinni? Hvers vegna hefurðu gert okkur þetta og farið með okkur út úr Egyptalandi? 12 Er það ekki einmitt þetta sem við sögðum við þig í Egyptalandi: Láttu okkur í friði. Við viljum þræla fyrir Egypta því að það er skárra fyrir okkur að þræla fyrir Egypta en að deyja úti í eyðimörkinni.“ 13 Móse svaraði fólkinu: „Óttist ekki. Standið kyrr og horfið á þegar Drottinn bjargar ykkur í dag því að þið munuð aldrei framar sjá Egypta eins og þið munuð sjá þá í dag. 14 Drottinn mun sjálfur berjast fyrir ykkur en þið skuluð ekkert að hafast.“
15 Drottinn sagði við Móse: „Hvers vegna hrópar þú til mín? Segðu Ísraelsmönnum að halda af stað. 16 En þú skalt reiða upp staf þinn og rétta hönd þína út yfir hafið og kljúfa það svo að Ísraelsmenn geti gengið á þurru í gegnum hafið. 17 Sjálfur ætla ég að herða hjarta Egypta svo að þeir haldi á eftir þeim. Þá mun ég birta dýrð mína á faraó og öllum her hans, á hervögnum hans og riddurum. 18 Egyptar munu komast að raun um að ég er Drottinn þegar ég birti dýrð mína á faraó, vögnum hans og riddurum.“
19 Engill Guðs, sem fór fyrir hersveit Ísraels, færði sig aftur fyrir þá og skýstólpinn, sem var fyrir framan þá, færði sig og kom sér fyrir að baki þeim 20 svo að hann varð á milli hers Egypta og hers Ísraelsmanna. Skýið var dimmt öðrum megin en lýsti alla nóttina hinum megin. Herirnir nálguðust ekki hvor annan alla þessa nótt.
21 Þá rétti Móse hönd sína út yfir hafið. Drottinn bægði hafinu burt með hvössum austanvindi alla nóttina og þannig gerði hann hafið að þurrlendi.
Þá klofnaði hafið 22 svo að Ísraelsmenn gátu gengið á þurru í gegnum það en vatnið stóð eins og veggur þeim til hægri og vinstri handar. 23 Egyptar eltu og fóru á eftir þeim út í mitt hafið, allir hestar faraós, hervagnar hans og riddarar. 24 Á morgunvökunni leit Drottinn yfir her Egypta í eld- og skýstólpanum og olli ringulreið í her Egypta. 25 Hann lét hervagna þeirra ganga af hjólunum svo að þeim sóttist ferðin erfiðlega. Þá sögðu Egyptar: „Við skulum flýja fyrir Ísraelsmönnum því að Drottinn berst fyrir þá gegn Egyptum.“
26 Drottinn sagði við Móse: „Réttu hönd þína út yfir hafið, þá kemur vatnið aftur og fellur yfir Egypta, hervagna þeirra og riddara.“ 27 Móse rétti þá hönd sína út yfir hafið. Í dögun kom vatnið aftur og rann í sinn fyrri farveg en er Egyptar reyndu að flýja undan því hrakti Drottinn þá út í mitt hafið.
28 Þegar vatnið kom aftur luktist það yfir hervagna, riddara og allt herlið faraós sem farið hafði á eftir þeim út í hafið. Enginn þeirra komst af. 29 En Ísraelsmenn höfðu gengið á þurru mitt í gegnum hafið en vatnið stóð eins og veggur þeim til hægri og vinstri handar.
30 Þannig bjargaði Drottinn Ísrael úr greipum Egypta á þessum degi. Ísrael sá Egypta liggja dauða á ströndinni. 31 Þegar Ísrael sá máttarverkið, sem Drottinn hafði unnið á Egyptum, óttaðist þjóðin Drottin og trúði á Drottin og Móse, þjón hans.
Önnur Mósebók 14. kafliHið íslenska biblíufélag2023-05-01T16:21:22+00:00
Önnur Mósebók 14. kafli
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.