Minningarhátíð og helgun frumburða
1 Drottinn sagði við Móse: 2 „Helga mér alla frumburði. Hvað eina sem fyrst opnar móðurlíf á meðal Ísraelsmanna er mitt, bæði hjá mönnum og skepnum.“
3 Móse sagði við fólkið: „Minnist þessa dags þegar þið fóruð út úr Egyptalandi, úr þrælahúsinu, því að Drottinn leiddi ykkur þaðan með máttugri hendi. Sýrt brauð má ekki eta. 4 Í dag haldið þið af stað, í abíbmánuði. 5 Þegar Drottinn fer með þig inn í land Kanverja, Hetíta, Amoríta, Hevíta og Jebúsíta, sem hann hét feðrum þínum að gefa þér, land sem flýtur í mjólk og hunangi, skaltu halda þennan sið í þessum mánuði. 6 Í sjö daga skaltu eta ósýrt brauð og á sjöunda degi skaltu halda Drottni hátíð. 7 Ósýrt brauð skal etið þessa sjö daga og hjá þér má ekkert sýrt sjást. Ekkert súrdeig má sjást hjá þér neins staðar í landi þínu. 8 Þennan dag skaltu segja við son þinn: Þetta er gert vegna þess sem Drottinn gerði fyrir mig þegar ég fór frá Egyptalandi. 9 Þetta á að verða þér tákn á hendi þinni og minningarmark milli augna þinna svo að lögmál Drottins verði þér ætíð á vörum, því að Drottinn leiddi þig út úr Egyptalandi með máttugri hendi. 10 Árlega skaltu fylgja þessu ákvæði á tilsettum tíma.
11 Þegar Drottinn leiðir þig inn í land Kanverja, eins og hann hefur heitið þér og feðrum þínum, og gefur þér það 12 skaltu færa Drottni til eignar allt sem fyrst opnar móðurlíf. Allir frumburðir þíns búfjár eru eign Drottins séu þeir karlkyns. 13 Sérhvern frumburð asna getur þú leyst með lambi en ef þú leysir hann ekki skaltu hálsbrjóta hann. Þú skalt leysa sérhvern frumburð á meðal sona þinna. 14 Ef sonur þinn spyr þig síðar og segir: Hvað merkir þetta? skaltu svara honum: Drottinn leiddi okkur með máttugri hendi út úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. 15 Þegar faraó forhertist gegn því að sleppa okkur deyddi Drottinn alla frumburði í Egyptalandi, bæði frumburði manna og skepna. Þess vegna færi ég Drottni sem sláturfórn allt karlkyns sem fyrst opnar móðurlíf. En alla frumburði á meðal sona minna leysi ég. 16 Þetta skal verða tákn á höndum þínum og merki á milli augna þinna því að Drottinn leiddi okkur með máttugri hendi út úr Egyptalandi.“
Björgun Ísraels við Sefhafið
17 Þegar faraó sleppti fólkinu leiddi Guð það ekki beina leið til lands Filistea þó að hún væri styst því að Guð hugsaði: „Ef til vill iðrast fólkið þessa þegar það sér að ófriðar er von og snýr þá aftur til Egyptalands.“ 18 Guð lét því fólkið leggja lykkju á leið sína og halda í átt til Sefhafsins.
19 Móse hafði tekið bein Jósefs með sér því að Jósef hafði tekið eið af Ísraelsmönnum og sagt: „Þegar Guð liðsinnir ykkur skuluð þið flytja bein mín héðan með ykkur.“
20 Þeir lögðu af stað frá Súkkót og tjölduðu við Etam þar sem eyðimörkin tekur við. 21 Drottinn gekk fyrir þeim í skýstólpa á daginn til að vísa þeim veginn og í eldstólpa um nætur til að lýsa þeim svo að þeir gætu ferðast nótt sem dag. 22 Skýstólpinn vék hvorki úr augsýn fólksins á daginn né eldstólpinn um nætur.