Alkímus rægir Júdas
1 Þrem árum síðar fréttu Júdas og menn hans að Demetríus Selevkusson væri kominn inn á Trípólíhöfn með mikinn her og flota 2 og hefði náð völdum í landinu með því að myrða Antíokkus og Lýsías, forráðamann hans.
3 Maður nokkur, Alkímus að nafni, sem fyrrum var æðsti prestur en hafði sjálfviljugur saurgað sig á tímum trúarofsóknanna, vissi sem var að hann átti hvorki kost á að halda embætti sínu né hljóta að nýju aðgang að hinu heilaga altari. 4 Hann gekk því fyrir Demetríus konung árið eitt hundrað fimmtíu og eitt og færði honum gullsveig og pálmaviðargrein og auk þess nokkrar ólífuviðargreinar sem siður var að hafa í musterinu. Frekar hafðist hann ekki að þann dag.
5 En hann fékk tækifæri sem hentaði fáránlegu ráðabruggi hans þegar Demetríus kvaddi hann á fund með ráðgjöfum sínum og innti hann eftir því hvernig Gyðingar væru sinnaðir og hvað þeir hygðust fyrir. Því svaraði hann:
6 „Gyðingar þeir sem nefnast Hasídear og Júdas Makkabeus er foringi fyrir ala stöðugt á ófriði og æsa til uppreisnar. Þeir varna því að kyrrð komist á í ríkinu. 7 Þess vegna er ég hingað kominn þó að ég hafi verið sviptur þeirri tign sem ég á arfborinn rétt á, það er æðstaprestsembættinu, 8 að ég er framar öðru knúinn af hugheilli umhyggju fyrir málefnum konungs og einnig fyrir hag landa minna. Því að það er fyrir fávisku þessara áðurnefndu manna sem þjóðin öll má líða stórum. 9 Þegar þú, konungur, hefur kannað þetta allt náið bið ég þig að taka land okkar og aðþrengda þjóð að þér af þeim milda mannkærleika sem þú auðsýnir öllum. 10 En meðan Júdas er á lífi er óhugsandi að friður komist á í ríkinu.“
Demetríus sendir Níkanor til árásar á Júdas
11 Þegar hann hafði lokið þessum málflutningi sínum varð hægara fyrir aðra vini konungs, sem höfðu horn í síðu Júdasar, að æsa Demetríus gegn honum. 12 Setti konungur Níkanor, sem verið hafði yfir fílaliðssveitinni, herstjóra yfir Júdeu og sendi hann þangað 13 með skriflega tilskipun um að deyða Júdas, tvístra liði hans og veita Alkímusi embætti æðsta prests við musterið mikla.
14 En heiðingjar þeir sem flúið höfðu fyrir Júdasi í Júdeu gengu hópum saman til liðs við Níkanor þar sem þeir héldu að ógæfa Gyðinga og ófarir yrðu þeim til farsældar.
15 Þegar Gyðingar fréttu af herferð Níkanors og að heiðingjar byggjust til árásar stráðu þeir mold yfir sig og ákölluðu hann sem valdi þjóðina sér til eignar að eilífu og opinberast ætíð til að annast eign sína. 16 Að boði fyrirliða síns tóku þeir sig þegar upp þaðan og lenti þeim saman við óvinina nærri þorpinu Dessaú.
17 Símon, bróðir Júdasar, lagði til orrustu við Níkanor en fór um sinn halloka vegna óvæntra aðgerða óvinanna. 18 Samt hikaði Níkanor við að berjast til blóðugra úrslita vegna þess orðs sem fór af hugprýði Júdasar og manna hans og hve hraustlega þeir börðust fyrir föðurland sitt. 19 Þess vegna sendi hann Poseidoníus, Teodótus og Mattatías til þess að koma á friðarsamningum.
20 Eftir ítarlegar umræður ræddi Níkanor einnig við lið sitt. Er í ljós kom að einhugur hafði náðst var samningur samþykktur.
21 Dagur var tiltekinn er fyrirliðarnir skyldu hittast og ræða saman einslega. Kom vagn frá hvorri hlið og var stólum komið fyrir. 22 Júdas kom vopnuðum mönnum fyrir á hentugum stöðum og áttu þeir að vera viðbúnir ef óvinirnir gripu skyndilega til illvirkja. Þeir réðu síðan ráðum sínum í bróðerni.
23 Níkanor settist síðan að í Jerúsalem og gerði ekkert illt af sér heldur sendi á brott mannfjöldann sem hann hafði safnað að sér. 24 Hann hafði Júdas stöðugt nærri sér og hafði hann í miklum metum. 25 Hann hvatti Júdas til að kvænast og eignast börn. Festi hann ráð sitt, kom sér vel fyrir og naut lífsins.
Níkanor snýst gegn Júdasi
26 Alkímus varð þess var hve vel fór á með þeim Júdasi og Níkanor. Fór hann til fundar við Demetríus konung og hafði með sér samningana sem þeir höfðu gert með sér. Bar hann að Níkanor hefði reynst ótrúr ríkinu því að hann hefði ákveðið að gera Júdas, sem sæti á svikráðum við konungdæmið, að eftirmanni sínum.
27 Þessi rógburður mannhundsins gerði konungi heitt í hamsi og í bræði sinni ritaði hann Níkanor bréf. Lýsti hann óánægju sinni með samkomulagið og skipaði honum að senda Makkabeus tafarlaust í böndum til Antíokkíu. 28 Þegar þessi boð bárust Níkanor varð hann stórlega miður sín og undi því illa að rjúfa samkomulag við mann sem í engu hafði út af því brugðið. 29 En þar sem ekki var unnt að breyta gegn vilja konungs beið hann hentugs færis til að koma þessu fram með brögðum.
30 Makkabeus varð var við að Níkanor varð æ fálátari við hann og ókurteisari en hann var vanur og tók að gruna að kuldi hans í viðmóti vissi ekki á gott. Safnaði hann því saman allmörgum manna sinna og fór í felur fyrir Níkanor.
31 Þegar Níkanor varð þess áskynja að Júdas hafði séð listilega við honum hélt hann inn í hið mikla og heilaga musteri, einmitt þegar prestarnir voru að bera fram þær fórnir sem bar, og skipaði þeim að framselja manninn. 32 Þeir sóru og sárt við lögðu að þeir hefðu ekki hugmynd um hvar sá væri sem hann leitaði að. 33 Þá rétti Níkanor hægri hönd sína í áttina að musterinu og sór með þessum orðum: „Ef þið framseljið mér ekki Júdas í fjötrum skal ég jafna þennan helgidóm Guðs við jörðu og rífa altarið niður og reisa síðan Díonýsosi veglegt musteri í hans stað.“
34 Að þessu mæltu fór hann. En prestarnir hófu hendur sínar til himins og ákölluðu hann sem verndar þjóð okkar og sögðu: 35 „Drottinn, þótt þú þarfnist einskis hefur þér þóknast að setja musteri nærveru þinnar meðal okkar. 36 Heilagur Drottinn, æðri öllu heilögu. Varðveit þú nú óflekkað og að eilífu þetta hús sem fyrir skömmu var hreinsað.“
Rasís deyr fyrir þjóð sína
37 Níkanor var vísað á Rasís nokkurn sem var í hópi öldunganna í Jerúsalem. Hann unni löndum sínum, hafði mjög góðan orðstír og var svo góðviljaður að hann var kallaður „faðir Gyðinga“. 38 Í upphafi trúarofsóknanna hafði hann verið ákærður fyrir gyðinglega trú sína og hætt bæði lífi og limum fyrir staðfestu sína og tryggð við gyðingdóm.
39 Þar sem Níkanor vildi gera lýðum ljóst hve mjög hann fjandskapaðist við Gyðinga sendi hann meira en fimm hundruð hermenn til að taka Rasís höndum 40 enda áleit hann sig gera þeim mikið til miska með því að handtaka þennan mann.
41 Er hermennirnir voru að því komnir að hertaka turninn reyndu þeir að sprengja upp dyrnar að forgarðinum. Kölluðu þeir á eld til að kveikja í dyrunum. Þar sem Rasís átti sér enga undankomuleið beindi hann sverði að sjálfum sér 42 því að hann vildi heldur deyja hetjulega en falla í hendur óguðlegra og sæta auðmýkingu sem ekki hæfði svo göfugum manni. 43 En svo skjótt bar þetta að að sverðið geigaði og þar sem hersveitin var að ryðjast inn um dyrnar stökk hann óttalaus upp á virkismúrinn og varpaði sér djarfur ofan á mannfjöldann fyrir neðan. 44 Fólkið vék sér í flýti undan svo að hann féll niður á autt svæði sem myndaðist milli þess. 45 Hann var enn á lífi og æstur af reiði. Stóð hann upp og hljóp í gegnum mannþyrpinguna, þótt blóðið rynni í lækjum og sárin væru mikil, og nam staðar uppi á þverhníptum hamri. 46 Þó að honum væri næstum blætt út dró hann sjálfur innyflin út, tvíhenti þau og varpaði þeim á mannfjöldann. Ákallaði hann Drottin lífs og anda og bað hann að gefa sér það að nýju sem hann nú missti. Með þessum hætti lét hann lífið.