1 Spádómur um Níníve. Bók um vitrun Nahúms frá Elkós.
Dómur Guðs yfir Níníve
2Drottinn er ákaflyndur Guð og heiftrækinn.
Drottinn er heiftrækinn og fullur bræði.
Drottinn hefnir sín á andstæðingum sínum
og er langrækinn við fjendur sína.
3Drottinn er seinn til reiði og máttugur,
hann lætur engum óhegnt.
Í fellibyljum og stormi er för hans
og skýin eru rykið undan fótum hans.
4Hann hastar á hafið, þurrkar það upp
og lætur árnar þverra.
Basan og Karmel fölna
og blómi Líbanonsfjalls visnar.
5Fjöllin skjálfa fyrir honum
og hálsarnir gliðna.
Jörðin skelfur fyrir honum,
veröldin og allt sem í henni er.
6Hver fær staðist bræði hans
og hver þolað heiftarbál hans?
Reiði hans hellist yfir sem eldur
og björgin klofna fyrir honum.
7Drottinn er góður,
athvarf á degi neyðarinnar,
hann annast þá sem leita hælis hjá honum,
8jafnvel þegar vatnsflóðið æðir fram.
Óvinum sínum gereyðir hann
og hrekur þá út í myrkrið.
9Hvað hyggist þér fyrir gegn Drottni?
Hann gereyðir.
Neyðin kemur eigi öðru sinni.
10Eins og menn frávita af drykkju fuðra þeir upp,
brenna til ösku eins og flækt þyrnikjarr,
líkt og skraufþurr hálmur.
11Frá þér fór hinn illviljaði[
sem bruggaði vélráð gegn Drottni.
12 Svo segir Drottinn:
Þótt þeir séu fjölmennir og öflugir
þá munu þeir afmáðir verða og farast.
Hafi ég þjakað þig áður
mun ég ekki þjaka þig framar.
13Og nú brýt ég ok hans af þér
og slít sundur fjötra þína.
14En ákvörðun Drottins um þig er þessi:
Enginn mun erfa nafn þitt,
úr útskornum og steyptum
skurðgoðum hofa þinna
bý ég þér gröf,
fyrirlitlega svo sem þú ert.