Friðarhöfðinginn frá Betlehem
1En þú, Betlehem í Efrata,
ein minnsta ættborgin í Júda,
frá þér læt ég þann koma
er drottna skal í Ísrael.
Ævafornt er ætterni hans,
frá ómunatíð.
2Því verður þjóðin yfirgefin
þar til sú hefur fætt er fæða skal.
Þá munu þeir sem eftir lifa ættmenna hans
snúa aftur til Ísraels lýðs.
3Hann mun standa sem hirðir þeirra
í krafti Drottins,
í mætti nafns Drottins, Guðs síns,
og þeir óhultir verða.
Þá munu menn mikla hann
allt til endimarka jarðar.
4Hann mun tryggja friðinn.
Ráðist Assýringar inn í land vort
og brjótist inn í virkin
teflum vér gegn þeim sjö hirðum
og átta smurðum leiðtogum.
5Þeir munu vaka yfir landi Assýringa
með sverð í hendi
og með sveðju yfir landi Nimrods.
Hann mun frelsa oss undan Assýringum
vaði þeir yfir jörð vora
og fótumtroði lendurnar.
Þeir sem eftir verða
6Þeir sem eftir verða af Jakobs ætt
meðal hinna mörgu þjóða
verða sem dögg frá Drottni,
gróðrarskúr á grasi.
Þeir vænta einskis af neinum
og binda ekki vonir við mannanna börn.
7Þeir sem eftir verða
af Jakobs ætt meðal þjóðanna,
meðal margra þjóðflokka,
verða sem ljón á meðal skógardýra,
eins og ljónshvolpar í sauðahjörð.
Þeir ráðast fram og tæta í sundur
og enginn fær rönd við reist.
8Upp skaltu hefja arm þinn
gegn andstæðingum þínum
svo að öllum óvinum þínum verði tortímt.
Landið hreinsað
9Á þeim degi, segir Drottinn,
eyði ég öllum hestum sem þú átt
og brýt stríðsvagna þína.
10Ég legg í eyði borgir lands þíns
og brýt öll varnarvirki þín.
11Ég eyði galdrinum sem þú stundar
og spásagnamenn skulu
ekki framar vera hjá þér.
12Ég brýt skurðgoð þín
og helgisúlur.
Þú skalt ekki framar tilbiðja
verk þinna eigin handa.
13Ég ríf niður Asérur þínar
og eyði borgum þínum.
14Af heift og reiði
hegni ég þjóðum sem hafa óhlýðnast.